„Við erum mjög spennt fyrir helginni“

(F.v.) Skúli, Björn, Unnur Birna og Sigurgeir Skafti. Ljósmynd/Aðsend

Tónleikaröð Unnar Birnu og Björns Thoroddsen hefst á Hvolsvelli í kvöld. Þeim til halds og trausts verða þeir Skúli Gíslason á trommur og Sigurgeir Skafti Flosason á bassa.

Sunnlenska.is heyrði í Sigurgeiri Skafta þar sem hann var staddur í höfuðborginni til þess að láta yfirfara bassann. Ekki veitir af fyrir komandi átök.

„Við erum mjög spennt fyrir helginni. Við byrjum í Midgard á Hvolsvelli í kvöld kl. 20:30 og svo er það Skyrgerðin í Hveragerði á sama tíma á laugardagskvöld. Svo verðum við í Hlégarði í Mosó 15. mars og í Tryggvaskála á Selfossi 16. mars. Þetta er planið til að byrja með,“ segir Sigurgeir Skafti.

Búinn að fara á rakarastofuna
„Við erum búin að vera að spila mikið saman að undanförnu, Unnur, Björn og ég og okkur datt í hug að það væri skemmtilegt að koma með þetta heim á Suðurland. Við fengum Skúla Gíslason trommara með okkur þannig að þetta er sunnlenskt í húð og hár. Við Skúli erum báðir Selfyssingar og Unnur ættuð frá Selfossi. Þannig að við þurfum bara að finna sunnlensku tenginguna við Björn. Ég er búinn að fara á rakarastofuna til Kjartans til að leita ráða og hef ekki trú á öðru en að við finnum einhverja tengingu fljótlega,“ bætir Skafti við léttur.

Mjög fjölbreytt prógramm
Fjórir tónleikar eru fyrirhugaðir á næstunni og Sigurgeir Skafti segir að þeir verði örugglega fleiri.

„Það má alveg búast við því að við bætum við fleiri tónleikum og svo stefnum við líka á að fara inn í tónlistarskólana til þess að sýna að það er ýmislegt skemmtilegt hægt að gera með þessa tónlist. Prógrammið er fjölbreytt, við erum að taka blús, djass, tangó og ýmislegt fleira – bara það sem við erum búin að vera að vinna með að undanförnu. Þetta er mjög fjölbreytt prógramm, spuni og dægurlög og svo slæðist eitthvað frumsamið með. Við lofum góðri skemmtun.“

Fyrri greinStarfssvæði til sköpunar og laufléttur verðlaunaleikur í LÁ
Næsta greinKarl Gauti genginn til liðs við Miðflokkinn