Sunnlendingar eiga sinn fulltrúa á úrslitakvöldi Söngvakeppni RÚV í kvöld en bassaleikari Langa Sela og Skugganna er Þorlákshafnarbúinn Jón Skuggi Steinþórsson.
Lagið OK, sem Langi Seli og Skugganir flytja í keppninni, hefur heldur betur slegið í gegn hjá landsmönnum. Heyrast leikskólabörn jafnt sem eldri borgarar reglulega raula viðlagið, sem þykir ákaflega grípandi.
Það vita kannski ekki allir að Jón Skuggi hafi búið í menningarbænum Þorlákshöfn síðastliðin sex ár.
„Ég kann mjög vel við mig í Þorlákshöfn. Þetta er gott samfélag og ég hef kynnst mörgu góðu fólki. Mér var kippt strax inn í tónlistarlífið í bænum, sem er mjög öflugt,“ segir Jón í samtali við sunnlenska.is.
„OK to UK“
Jón Skuggi og félagar vorum á stífum æfingum fyrir úrslitakvöldið þegar blaðamaður sunnlenska.is heyrði í honum seinni partinn í gær. Hann segir þá félagana vera vel stemmda fyrir kvöldinu í kvöld en sigurvegari keppninnar verður fulltrúi Íslands í Eurovision sem fer fram í maí í Liverpool á Englandi.
„Við í hljómsveitinni erum mjög spenntir fyrir úrslitakvöldinu. Viðtökurnar við laginu okkar hafa farið langt fram úr okkar björtustu vonum og erum við mjög þakklátir fyrir það. Þannig að við segjum bara góða skemmtun og OK to UK,“ segir Jón Skuggi léttur að lokum.
Langi Seli og Skuggarnir stíga síðastir á svið í kvöld og er kosninganúmerið þeirra 900-9905. Útsendingin hefst klukkan 19:45 á RÚV.