Fjölmenni var við opnun sýningarinnar "Myndin af Þingvöllum" í Listasafni Árnesinga í gær en það var frú Vigdís Finnbogadóttir sem opnaði sýninguna.
Frú Vigdís gerði í ræðu sinni góða grein fyrir gildi Þingvalla og mikilvægi fyrir þjóðina og var greinilegt á viðstöddum að enn á Vigdís stóran sess í hjarta fólks.
Enginn staður á Íslandi hefur verið jafn vinsæl fyrirmynd íslenskra listamanna og Þingvellir. Sýningin tekur á þeim fjölbreyttu birtingarmyndum sem Þingvellir hafa notið í íslenskri myndlist sem og hönnun, kortagerð, ljósmyndun, ferðabókum og fjölmiðlun samtímans. En aldrei áður hefur verið sett upp yfirlitssýning á jafnfjölbreyttum myndverkum frá Þingvöllum.
Sýningarstjórinn, Einar Garibaldi Eiríksson, hefur sett saman sýningu úr verkum yfir 50 listamanna, sem fengin eru að láni bæði frá einstaklingum og helstu listasöfnum þjóðarinnar.
Þessi veigamikla sýning er sumarsýning Listasafns Árnesinga og mun standa opin til 21. ágúst næstkomandi. Listasafn Árnesinga er opið daglega á milli kl. 12 og 18.