Listamaðurinn Viktor Pétur Hannesson opnaði myndlistarsýninguna Umpottun í Stokk Art Gallery á Stokkseyri í gær. Sýningin mun standa til 24. nóvember og er opið alla daga frá kl. 13 til 17.
Viktor Pétur hefur undanfarin þrjú sumur ferðast um Ísland í leit að jurtum sem hann nýtir í myndlistarverk. Hann vinnur með aðferð sem kallast grasagrafík, en aðferðin byggir á hefðum úr grafík og jurtalitun. Í byrjun sumars fjármagnaði Viktor kaup á húsbíl sem hefur nýst sem færanleg vinnustofa listamannsins.
Viktor vinnur með umhverfið sem hann ferðast um í hverju sinni og nýtir grafíkaðferðina til að koma ferðalögum sínum til skila á myndrænan hátt. Frásögnin er þó ekki endilega í orðum og sögum heldur í litum og línum plantnanna sem hann finnur á vegi sínum. Þó kemur iðulega fram í titli eða verklýsingu hvar á landinu verkin voru gerð.
Viktor flutti nýverið á Stokkseyri og er sýningin í Gallery Stokk í tilefni þess. Afrakstur sumarsins verður uppi á veggjum en þar á meðal verða verk sem ekki hafa verið sýnd áður.