Frumgerð af Hafmeyju Nínu Sæmundsson er nú staðsett á skrifstofu Rangárþings eystra en Haraldur Sturlaugsson, eigandi styttunnar, lánaði hana þangað.
Nína Sæmundsson fæddist að Nikulásarhúsum í Fljótshlíð árið 1892 og er minningarreitur um hana rétt innan við Hlíðarenda. Nína er helst þekkt sem myndhöggvari og lærði hún á Konunglegu listaakademíunni í Kaupmannahöfn, í París og á Ítalíu. Árið 1926 fór Nína til Bandaríkjanna og bjó þar að mestu síðan en hélt ætíð íslenskum ríkisborgararétti sínum.
Hafmeyjan er frá árinu 1944 og er fyrirmynd þeirrar sem komið var fyrir í Tjörninni í Reykjavík í ágúst 1959 og svo sprengd í loft upp á nýársnótt 1960. Það mun vera fyrsta sjálfstæða listaverkið sem sett var upp á opinberum vettvangi hér á landi, án þess að vera minnismerki.
Hafmeyjan sem nú er komin á Hvolsvöll fór á uppboð hjá Gallerí Fold árið 2009 en seldist ekki þar. Nokkur tilboð komu í styttuna en verðið sem seljandinn hafði sett kom ekki. Haraldur keypti styttuna eftir uppboðið og segir ástæðuna fyrir kaupunum vara þá að honum þætti vænt um allar stúlkur í Fljótshlíðinni og vildi ekki að hún væri munaðarlaus.
Fólk er eindregið hvatt til að koma á skrifstofu sveitarfélagsins og berja listaverk Nínu augum.