Fanney Hrund Hilmarsdóttir starfaði sem héraðsdómslögmaður þegar hún ákvað að venda kvæði sínu í kross og gerðist rithöfundur og sjálfsþurftarbóndi. Á dögunum kom út hennar fyrsta bók, Fríríkið, sem að sögn Fanneyjar er fyrir öldruð ungmenni og bernsk gamalmenni.
Fanney býr ásamt manni sínum, Steinþóri Runólfssyni, á bænum Fjarkastokki við Þykkvabæ. Hún er ættuð frá Hamarshjáleigu í Gaulverjabæjarhreppi og segir að margt úr hennar uppeldi í sveitasamfélaginu í Bæjarhreppnum megi finna í Fríríkinu.
Hugmyndin að bókin kviknaði þegar Fanney var á fjórða ári í lögfræðinni. „Þá kynntist ég kenningum réttarheimspekingsins John Rawls, þar á meðal fávísisfeldinum (e. Veil of Ignorance). Fávísisfeldur Rawls hefur þann eiginleika að þeir einstaklingar sem undir hann leggjast missa sjálfsvitundina. Þeir vita ekki af hvaða kyni þeir eru, á hvaða aldri, hvaða stétt þeir tilheyra, starfi þeir sinna, hvaða hæfileikum þeir búa yfir eða hvaða hindranir þeir glíma við. Eina vitneskjan sem þessir einstaklingar hafa er almenn þekking á grunnuppbyggingu samfélagsins og í krafti þeirrar samfélagslegu þekkingar – og sjálfsvitundarlegu vanþekkingar – felst hlutverk þeirra: Að semja grunnlög samfélagsins,“ segir Fanney í samtali við sunnlenska.is.
„Ég varð mjög heilluð af fávísisfeldinum og fannst sem kjarninn í kenningum Rawls ætti erindi í siðferðislega umræðu. Að boðskapurinn ætti jafnvel enn fremur erindi við opna og ómótaða huga yngri kynslóða. Þannig spratt ævintýraveröldin Dreim upp af þessu fræi Rawls – og Fríríkið er forleikur að þríleiknum um ævintýraveröldina Dreim.“
Sögðu upp störfum og lögðust í flakk um heiminn
Fanney segir að það hafi ekki verið auðvelt að segja upp öruggu starfi og fara að gera eitthvað allt annað en það var eitthvað sem varð að gerast. „Ég hafði ekki hugmynd um hvað ég væri að fara út í þegar ég hóf þessa vegferð. Ég starfaði sem héraðsdómslögmaður á frábærri lögmannsstofu og þótti erfitt að taka þessa u-beygju. Heiminn hafði ég geymt innra með mér í nokkur ár og samhliða óx þráin til að skrifa. Mér fannst ég þurfa að reyna þetta – svo við maðurinn minn sögðum upp störfum okkar og lögðumst í flakk um heiminn. Við ferðuðumst um Afríku, Asíu og Eyjaálfu í eitt ár áður en við komum okkur fyrir í Ástralíu þar sem ég hófst handa við að koma böndum á heiminn og maðurinn minn menntaði sig í utanspítalalækningum.“
„Þetta var ógnvekjandi en á sama tíma stórkostlegur tími. Þrátt fyrir að ég hefði ekki hugmynd um hvernig væri best að bera sig að við að skrifa bók – þá varð ég svo hamingjusöm um leið og ég komst af stað að mér fannst eins og ekki yrði aftur snúið. Ég reyndi að gera mitt besta við að kynna mér mismunandi aðferðir við uppbyggingu á fantasíuveröld og eyddi löngum tíma í að kortleggja heiminn, lönd og þjóðir, siði og menningu, umhverfi, sögu, tungumál, töfrakerfi, átök og samfélagsleg vandamál.“
„Ég lagði mikla áherslu á persónusköpun því mér þótti mikilvægt að gera lesandanum kleift að sjá út um önnur augu en sín eigin. Ég vissi að heimurinn væri of stór og saga hans of umfangsmikil til að ana að miðlun hans. Því byggði ég hann upp eins og snjókorn, innan frá, lag fyrir lag. Árið 2019 lauk ég við sköpun heimsins, skipulag bókanna fjögurra og söguna í heild sinni frá fyrsta kafla til þess síðasta.“
Fanney segir að hún hafi ekki skrifað Fríríkið fyrr en hún hafi lokið við að fullskapa heiminn og persónurnar. „Það var stórkostleg tilfinning að komast loks af stað á fullri ferð við að skrifa! Það varð í raun ekki erfitt fyrr en ég hafði lokið handritinu og næsta stig tók við. Ég vissi ekki hvernig ég ætti að bera mig að við að koma handritinu á framfæri og þótti þessi útgáfuheimur allur mjög ógnvekjandi. Það var kannski erfiðasti tíminn á meðan óvíst var hvort öll þessi vinna myndi nokkru sinni bera ávöxt.
Langaði að skapa stað þar sem væri gott að dvelja
„Fríríkið er staðsett í raunheimum en Dreim í draumheimum. Í Fríríkinu kynnist lesandinn raunheiminum sem aðalpersónurnar spretta úr, tengingu hans við Dreim og grunnhugmyndinni um fávísisfeldinn. Þar birtast æskustöðvar mínar, gleðin og galsinn, sérvitringarnir, samstaða sveitasamfélagsins og heimilið – Fríríkið – þar sem öllum standa dyrnar alltaf opnar.“
„Fyrst og fremst langaði mig með Fríríkinu að skapa stað þar sem lesandanum þætti gott að dvelja – og síðar meir fá smá andrými á milli þess sem tekist er á við þyngri viðfangsefni í Dreim. Margt af því sem einkenndi mitt uppeldi í samheldnu sveitasamfélagi, Gaulverjabæjarhreppi, birtist í Fríríkinu. Ástin á heimkynnunum, litskrúðugir „sérvitringar“ sem áttu sitt fasta sæti í eldhúskróknum heima, samstaðan í samfélaginu og kærleikurinn. Ég vildi að Fríríkið yrði staður þar sem allir ættu sitt hlutverk og þar endurspeglast í raun kjarninn í kenningum Rawls; að allir samfélagsþegnar fái jöfn tækifæri til að blómstra.“
„Til að stýra Fríríkinu vantaði mig uppátækjasama og aðsópsmikla persónu. Þannig varð Allamma til sem er einhvers konar samsuða litríkustu persónanna úr mínum uppvexti. Í Fríríkinu hennar Öllömmu er allt óvenjulegt venjulegt og leiðinlegt skemmtilegt. Samband hennar og „ellihrellanna“ í dalnum við yngri kynslóðina, krakkana Asili, Alex og Bellu endurspeglar þetta einstaka samband sem ég upplifði milli yngstu og elstu kynslóða í litlu sveitasamfélagi. Þau raunverulegu verðmæti sem felast í að eiga öruggt skjól í góðu samfélagi og þeirri staðreynd að það sem er ókeypis – eins og samfélagslegt skjól og ömmur – er hvergi hægt að kaupa.“
Góð bók er góð bók sama hvernig hún er flokkuð
Aðspurð fyrir hverja bókin sé segir Fanney það vera hálfgerða vandræðaspurningu fyrir hana. „Í undirbúningsferlinu þá hlustaði ég töluvert á hlaðvarpsþætti um hvernig ætti að skrifa bók. Ég man vel hvernig einhver mjög æstur bandarískur ofur-lífsstíls-maður öskraði í eyrað á mér: „Mikilvægast er að hafa einn ákveðinn markhóp! EINN MARKHÓP! Og svo áttu að skrifa fleiri bækur! Hvers vegna að skrifa eina bók á ári þegar þú getur skrifað TÓLF!!“ Ég reif hann fljótt úr eyrunum og sætti mig við að markaðssetning og fjöldaframleiðsla á bókum væri ekki alveg minn tebolli. Ég er líka bara frekar léleg í markaðssetningu – og það verður bara að hafa það. Ef ég get sáð einu fræi í einn opinn huga – sem af sprettur eitthvað gott – þá er tilganginum náð.“
„Þess vegna segi ég yfirleitt að Fríríkið sé fyrir öldruð börn og bernsk gamalmenni – og allt þar á milli. Ég held að það sé hægt að lesa yfirborðið og hafa gaman að en að jafnframt sé hægt að skyggnast undir yfirborðið og finna þar eitthvað sem er þess virði að staldra aðeins við. Í grunninn er ég kannski bara á móti því að flokka bækur eitthvað sérstaklega.“
„Góð bók er góð bók sama hvernig hún er flokkuð. Margar af eftirminnilegri bókum sem ég hef lesið hafa verið markaðssettar sem barna- og ungmennabækur. Ég held við megum ekki hengja okkur í svona merkimiða í bókalestri fremur en í neinu öðru í samfélaginu. Það heftir bara fjölbreytileikann,“ segir Fanney sem er nánast tilbúin með næstu tvær bækur í þríleiknum. „Orðin eiga aðeins eftir að raða sér saman. Við Bókabeitan, útgefandi Fríríkisins, áætlum að næsta bók komi út haustið 2022 og svo koll af kolli.“
Bæði amman og mamman skúffuskáld
En hvað varð til þess að Fanney hætti að vera héraðsdómslögmaður og fór að vera rithöfundur og sjálfsþurftarbóndi? „Fyrir því eru nokkrar ástæður. Mér fannst ég þurfa að gefa þessari hugmynd tækifæri úr því ég losnaði ekki við hana öll þessi ár. Ég hafði alltaf haft gaman að því að hlusta á og segja sögur – alveg frá því ég var smákrakki og fann upp heilt hliðarsjálf sem sá um öll prakkarastrikin mín (og tryggði um leið sakleysi mitt í öllum ótuktarskap).“
„Svo hafði það líka djúp áhrif á mig þegar amma sagði við mig: „Ekki gera eins og ég, skrifa þú og gerðu eitthvað við það.“ Og mamma endurtók þau sömu orð við mig skömmu síðar. Báðar skrifa sögur og ljóð en hafa stungið þeim ofan í skúffuna. Mér fannst sem þetta stefndi hraðbyri í einhvers konar þriggja kynslóða harmsögu og að þar sem ég hefði tækifæri til að láta draum okkar þriggja rætast – þá eiginlega ættu þær inni hjá mér að ég reyndi. Mér líður því eins og við eigum þetta svolítið saman við þrjár – ég, mamma og amma – og það þykir mér dýrmætt.
Hollt að þurfa hafa svolítið fyrir því að lifa af
„Sjálfsþurftabúskapurinn kemur nú meira til vegna míns óþrjótandi áhuga á dýrum. Þessi örbúskapur býður upp á mikla útiveru, samvistir við dýrin, ókeypis hugleiðslutíma í matjurtagarðinum og við skítmokstur sem og líkamsræktarkort sem aldrei þarf að endurnýja. Mér þykir gott að vita hvaðan það kemur sem við borðum og það spilar á einhverja eldgamla frumstæða strengi að setja eitthvað niður að vori, hlúa að því og taka upp að hausti. Ég held að aftengingin við náttúruna fari illa með okkur. Að sama skapi held ég að það sé hollt að hafa svolítið fyrir því að lifa af. Ég held að þegar lífið verður of auðvelt hið ytra fer okkur að líða illa hið innra.“
„Svo stuðlar þetta bras líka að því að ég nái því markmiði mínu að verða sérvitringur. Það eru gersemar í mannlegu samfélagi að mínu mati. Svo er bara að sjá hvort mér takist það einhvern tímann!“
Nóg pláss fyrir alla
„Ég vona bara að ég geti boðið sem flestum í Fríríkið! Þar er nóg pláss fyrir alla – af öllum stærðum og gerðum og allavega. Þannig er bara Fríríkið og þeir sem þar búa – en þar hafa allir sitt hlutverk og allir eru jafn mikilvægir,“ segir Fanney að lokum.
Fríríkið má nálgast í öllum betri og verri bókabúðum sem og beint frá Bókabeitubýli á vefslóðinni www.bokabeitan.is