Fimmtudaginn 7. desember verður haldin stór aðventuhátíð í Þingborg í Flóahreppi, sú fyrsta sinnar tegundar í sveitarfélaginu.
Hátíðin er á vegum Menningarnefndar Flóahrepps og er haldin í samstarfi við Berglindi Björk Guðnadóttur, sópransöngkonu.
„Menningarnefndin ásamt sveitarstjórn samanstendur af mjög öflugu fólki sem hefur síðastliðið ár lagt kapp við það að efla og auka menningu í Flóanum með allskyns viðburðum. Þau langaði að gera eitthvað alveg nýtt um jólin og komu að máli við mig um að hjálpa sér í þeim efnum. Við settumst niður saman og fórum yfir þær hugmyndir sem við vorum með og niðurstaðan varð þessi aðventuhátíð, sem er stútfull af hæfileikaríku fólki í Flóahreppi,“ segir Berglind í samtali við sunnlenska.is.
Nauðsynlegt að búa til tækifæri fyrir alla
„Það er mikilvægt þegar maður er að halda svona stóran viðburð að hafa hann með fjölbreyttu sniði, svo allir finni eitthvað við sitt hæfi. Þess vegna fannst okkur mikilvægt að bjóða öllum aldurshópum að taka þátt. Menning ætti að skipta okkur öll máli. Hún er það sem gefur lífinu lit, gleði og er eflandi fyrir sköpunarkraftinn sem býr í okkur öllum. Það er nauðsynlegt að búa til tækifæri fyrir alla sem eru skapandi. Ég er mjög ánægð með hvað Flóahreppur er að taka við sér í þessum efnum og er ákaflega stolt að fá að vera hluti af þeirri uppbyggingu sem er í gangi,“ segir Berglind.
„Við vildum gera þetta að einu stóru samfélagsverkefni til að þjappa fólki saman í að skapa eitthvað fallegt sem við getum verið stolt af. Okkar draumur er að þetta verði árlegur viðburður sem allir geti hlakkað til.“
„Ég var sjálf búin að vera með þessa flugu í maganum í nokkurn tíma um að halda stóra jólatónleika í sveitinni með kórum og fleirum svo ég varð bara að slá til. Ég er menntaður óperusöngvari og hef haldið þó nokkra tónleika, litla og stóra í sniðum, auk þess að hafa tekið að mér að stjórna öðrum viðburðum í Flóanum. Svo ég haldi nú áfram þá er ég líka formaður Kvenfélags Hraungerðishrepps, ásamt því að vinna sem hjúkrunarfræðingur á Heilbrigðisstofnun Suðurlands,“ bætir Berglind við.
Fjölbreyttur hópur tónlistarfólks
Auk Berglindar koma fram á hátíðinni María Jónsdóttir sópransöngkona, Tinna Þorvalds og Önnudóttir mezzosópran og Jón Sigurðsson píanóleikari. Einnig munu elstu börn úr leikskólanum Krakkaborg koma fram, ásamt 1.-4. bekk í Flóaskóla undir stjórn Hafdísar Gígju Björnsdóttur. Langspilshópur úr 5.-6. bekk í Flóaskóla undir stjórn Eyjólfs Eyjólfssonar muna sýna í hvað þeim býr og nemendur úr Tónlistarskóla Árnesinga sem búa í Flóahreppi munu flytja tónlistaratriði. Síðast en ekki síst munu kirkjukórar Hraungerðis og Villingaholts syngja undir stjórn Guðmundar Eiríkssonar. Kynnir kvöldsins er Sveinn Orri Einarsson.
„Fanney Hrund Hilmarsdóttir ætlar að vera með kynningu á nýju bókinni sinni Dreim: Fall Draupnis fyrir tónleikana. Við erum með ákveðið litaþema á tónleikunum: rauður, grænn, svartur og hvítur svo ef gestir vilja taka þátt þá endilega vera með okkur í því.“
Kakóbar og jólasveinar
Hátíðin er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurlands og segir Berglind þau vera virkilega þakklát fyrir styrkinn. „Það kostar að halda svona stóra hátíð með fullt af listafólki, umgjörð og fleira, svo að styrkurinn var kærkomin viðbót. Við vildum líka geta haldið miðaverði í lágmarki svo allir gætu komið og notið með okkur. Okkur langaði líka að hafa glæsilega umgjörð til að gera þetta enn veglegra, svo við leggjum mikið upp úr því.“
„Í þessum töluðu orðum er einmitt verið að smíða sjálfan kakóbarinn sem er mikil tilhlökkun fyrir. Þar ætlum við að bjóða upp á kakó með svakalegu twisti ásamt kaffi og mauli fyrir alla sem er innifalið í miðaverðinu. Við erum líka búin að hringja í Grýlu og fá leyfi fyrir því að nokkrir sveinkar fái að kíkja til okkar þó svo þeir eigi ekki að koma til byggða fyrr en 12. desember,“ segir Berglind og leggur áherslu á að hátíðin sé samverustund fjölskyldunnar á aðventunni.
Nánari dagskrá og upplýsingar á floahreppur.is, menningifloa á Instagram og á Facebooksíðu Flóahrepps.