„Villtustu handrit geta orðið að veruleika“

Skáskot úr myndbandinu.

Ágúst Þór Brynjarsson, starfandi söngvari Stuðlabandsins, er einn keppendanna í Söngvakeppninni 2025. Þar stígur hann fram með lagið Eins og þú, eða Like You.

Ágúst frumsýnir í dag myndband við lagið og má sjá það hér neðst í fréttinni. Myndbandið er tekið upp í Reykjavík og í heimabæ Ágústs, Húsavík. Eins og allir vita hefur Húsavík mikla Eurovision tengingu og Ágúst hlær þegar talið berst að því.

„Já, Eurovision kvikmyndin, The Story of Fire Saga eftir Will Ferrell gæti og getur bókstaflega verið skrifuð um mig, allavega fyrstu kaflarnir, við sjáum til hvað gerist á næstu vikum,“ segir hann léttur.

Ágúst.

„Ég er fæddur og uppalinn á Húsavík og bjó þar frá fæðingu og þar til ég varð 18 ára og það er mjög fyndið að pæla í því að bíómyndin er rosalega lík minni æsku, það er að segja strákur frá Húsavík alltaf spilandi heima á bæjarbarnum og bæjarhátíðunum, með stóra drauma um að gerast tónlistarmaður og söngvari,“ bætir hann við.

„Mig langaði að nýta þá tengingu í myndbandinu sem Eurovision hefur við heimabæinn minn og þá staðreynd að ég var bara á sama stað og Will Ferrell var í myndinni. Þetta sýnir fólki að villtustu handrit geta orðið að veruleika,“ segir Ágúst sem segist spenntur fyrir næstu vikum.

„Ég ætla gera mitt allra besta til að gera Húsvíkinga og Akureyringa þar sem ég er búsettur nú, stolta af mér og auðvitað Sunnlendinga líka. Mínir menn í Stuðlabandinu standa þétt við bakið á mér í þessu. En að öllu gamni slepptu þá vona ég að ég geti orðið allri þjóðinni til sóma,“ segir Ágúst að lokum.

Instagram: agustbrynjarsmusic
TikTok: agustbrynjarsmusic

Fyrri greinSSK afhenti HSU veglegar gjafir
Næsta grein„Fólki líður vel hérna“