Áhugaverð dagskrá verður um helgina í Listasafni Árnesinga í Hveragerði þar sem gestum er meðal annars boðið að taka þátt og vinna með hönnuðum.
Í anda sýningarinnar ÁKALLs er gestum boðið að taka þátt í verkefnum helgarinnar um leið og rýnt er í sjálfbærni, lýðræði, jafnrétti og mannréttindi á ýmsa vegu.
Viltu læra að gera fjölnota tösku úr notuðu plasti? Hönnuðirnir Halldóra Gestsdóttir og Ingibjörg Petra Guðmundsdóttir kenna gestum að vinna eigin tösku á einfaldan og fljótlegan hátt. Kennslan fer fram á safninu laugardaginn 7. mars kl. 13-16 og fyrstur kemur fyrstur kemst að og síðast koll af kolli, en einnig er hægt að fylgjast með.
Allt sem þarf er á staðnum: notaðir plastpokar, smjörppír, straujárn og saumavélar, en ef þið eigið plastpoka í áhugaverðum litum eða annað litríkt plast þá er tilalið að gefa því nýtt líf. Ásthildur Jónsdóttir sýningarstjóri býður einnig upp á leiðsögn um sýninguna.
Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, sunnudaginn 8. mars kl. 13-16, verður 100 ára kosningaafmælis kvenna minnst með þátttökuverkefni þeim til heiðurs. Halldóra Gestsdóttir fatahönnuður býður gestum að vinna með sér nýtt verk úr endurnýttu efni.
Gaman væri ef þeir sem taka þátt kæmu með efnisbúta til þess að nota í þetta verk. Þeir mega gjarnan eiga uppruna sinn í gamalli flík sem hefur misst hlutverk sitt og ekki væri verra ef saga lægi á bak við það. Um leið og verkið verður unnið munu þátttakendur ræða stöðu kvenna í dag, sjálfbærni, lýðræði, jafnrétti, mannréttindi og fleira.
Verkin sem valin voru á sýninguna ÁKALL tengjast öll orðræðunni um sjálfbæra þóun og þeim siðferðilegu málefnum sem hún vekur. Tuttugu og fjórir myndlistarmenn eru höfundar hinna fjölbreyttu verka, sem eiga það sameiginlegt að vekja gagnrýna hugsun sem hvetur áhorfendur til að taka afstöðu til þeirra málefna sem verið er að vinna með hverju sinni og krefur þá jafnvel til þátttöku.
Engin aðgangseyrir er að Listasafni Árnesinga og þátttaka í verkefnum helgarinnar gestum að kostnaðarlausu.