Í dag kl. 14-16 mun Katrín Briem myndlistarmaður og myndmenntakennari til margra ára leiðbeina gestum í teikningu á sýningunni Ásjóna í Listasafni Árnesinga.
Katrín hefur fengist við myndlist frá blautu barnsbeini en hún er dóttir listamannsins Jóhanns Briem. Katrín nam myndlist við Myndlista-og handíðaskóla Íslands og við listaháskóla í Hollandi þar sem hún lagði stund á grafík og teikningu. Hún var skólastjóri Myndlistaskólans í Reykjavík í 18 ár og kennir nú við þann skóla og einnig Myndlistaskóla Kópavogs.
Höfundar verkanna á sýningunni Ásjóna nálgast verk sín á mismunandi hátt og beita ólíkum stílbrögðum en verkin eru þarna til þess að njóta, hafa áhrif og vera kveikja nýrra hugmynda. Þá getur verið áhugavert fyrir gesti að njóta leiðsagnar til þess að auka sína færni og fá aðstoð til þess að útfæra nýjar hugmyndir. Allt efni er á staðnum og aðgangur ókeypis.