Fiðluleikarinn Páll Palomares og píanistinn Jón Bjarnason stilla saman strengi sína og sýna sínar bestu hliðar á fiðlu- og píanótónleikum í Vínstofu Friðheima í Reykholti í Biskupstungum föstudaginn 22. mars næstkomandi kl. 20:00.
Yfirskrift tónleikanna er Vín & Fíólín en búast má við notalegri kvöldstund með fallegum tónum. Efnisskráin er mjög fjölbreytt en þar má meðal annars heyra þema úr Schindler’s List eftir John Williams, Rúmenska dansa eftir Béla Bartók og Zigeunerweisen eftir Sarasate. Allt frá hugljúfri rómantík til virtúósískra tilþrifa fullum af eldmóði!
Nauðsynlegt er að bóka miða og borð fyrirfram og þá tilvalið að nýta tækifærið og fá sér létta máltíð og drykki fyrir tónleikana. Takmarkað sætapláss er í boði svo það er um að gera að tryggja sér miða sem fyrst í gegnum fridheimar@fridheimar.is. Miðaverð á tónleikana er 3.900 kr.
Páll er einn af fremstu fiðluleikurum landsins og gegnir stöðu leiðara 2. fiðlu í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hann hefur hlotið margvísleg verðlaun á ferli sínum, sigraði meðal annars í íslensku keppninni Ungir einleikarar árið 2007 og hlaut verðlaun í alþjóðlegu keppninni Danish String Competition árið 2014 auk fjölda annarra verðlauna í keppnum Konunglega Tónlistarháskólans í Kaupmannahöfn. Páll hefur sótt masterklassa hjá mörgum af virtustu fiðluleikurum heims og hann er meðlimur og einn af stofnendum Kordo kvartettsins, sem hefur notið mikilla vinsælda hérlendis síðan 2020. Gaman er að geta þess að hljóðfærið hans er rúmlega 260 ára gamalt en hann leikur á fiðlu sem smíðuð var af Nicolas Gagliano í kringum árið 1761.
Jón er dómorganisti í Skálholti og hefur komið víða fram sem píanóleikari með kórum og einsöngvurum. Hann útskrifaðist úr Tónlistarskólanum í Reykjavík með píanókennarapróf árið 2003. Jón tók þátt í fyrstu píanókeppninni sem haldin var á Íslandi á vegum EPTA árið 2000 og hlaut þar 3. verðlaun. Hann útskrifaðist með kantorspróf og einleiksáfanga frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar árið 2006. Jón hefur verið áberandi í tónlistarlífi á Suðurlandi undanfarin ár og hlotið styrki til tónleikahalds m.a. frá SASS. Hann hlaut menningarverðlaun Suðurlands árið 2021, fyrir að hafa haft fumkvæði og staðið fyrir ýmsum menningartengdum viðburðum í Skálholti og uppsveitum Árnessýslu.