Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, sunnudaginn 8. mars kl. 14, mun Pamela De Sensi, flautuleikari flytja þrjú flautuverk eftir Elínu Gunnlaugsdóttur, tónskáld í Listasafni Árnesinga í Hveragerði.
Tónleikarnir eru í tengslum við sýninguna Tilvist og Thoreau sem nú stendur yfir í Listasafni Árnesinga. Verkin sem flutt verða bera heitin Kveðja, albúm og Púsl. Hið síðast talda eða Púsl fyrir kontrabassaflautu og lúppustöð er innblásið af skrifum Thoreau og má heyra í því vindinn blása og bárurnar vagga. Kveðja er einleiksverk fyrir alt flautu sem vísar í ljóð Jónasar Hallgrímssonar, „Ég bið að heilsa”. Báðir þessir menn, H. D. Thoreau og Jónas Hallgrímsson voru uppi á 19. öld, stunduðu ritstörf og voru náttúrufræðingar.
Tónefni albúms fyrir alt flautu og lúppu er hins vegar sótt í upphafsstafi allra í fjölskyldu Elínar og er leikið með efnið ýmsan hátt. Upphafsstafirnir eru umtúlkaðir yfir í nótur en einnig unnin úr þeim hrynmynstur sem eiga rætur í morskerfinu. Tónmyndirnar eru stundum draumkenndar og stundum ákafar og rythmískar. Lúppan myndar svo einskonar hringrás sem bindur þær saman.
Pamela De Sensi og Elín Gunnlaugsdóttir hafa unnið saman í meira en áratug. Hefur Elín samið fjögur einleiksverk fyrir hana en auk þess hafa þær unnið saman að ýmsum barnaverkum. Í febrúar síðastliðnum fóru þær á flautuhátíð í Washington þar sem Elín kynnti íslenska tónlist og Pamela lék verk eftir íslensk kventónskáld.
Elín mun kynna tónverkin og spjalla um tilurð þeirra. Aðgangur að safninu og viðburðinum er ókeypis.