Selfyssingurinn Elvar Geir Sævarsson veiktist alvarlega og skyndilega þann 22. ágúst síðastliðinn. Vinir hans hafa boðað til samstöðu- og styrktarpartýs á Hard Rock Café í Reykjavík föstudagskvöldið 6. desember þar sem fjöldi listamanna kemur fram.
Meðal þeirra sem stíga á stokk eru Flekar, Morðingjarnir, Kolrassa krókríðandi, Skálmöld, Sólstafir og HAM.
Elvar hefur lengi verið viðriðinn tónlistarbransann og spilað á gítar með fjölda hljómsveita auk þess sem hann starfar sem hljóðmaður hjá Þjóðleikhúsinu.
„Það er áfall að vera kippt út úr sínu eðlilega lífi á augabragði og þá er gott að finna að maður er ekki einn,“ segir Stefán Magnússon, vinur Elvars og einn þeirra sem standa að tónleikunum. „Það er dýrt að verða veikur og því fylgir vinnutap og við viljum síst af öllu að Elvar Geir hafi fjárhagsáhyggjur þegar hann á eingöngu að vera að einbeita sér að því að ná bata.“
Vonandi geta sem flestir mætt á tónleikana á föstudagskvöldið, en þeir sem sjá sér ekki fært að mæta geta lagt inn á styrktarreikning sem opnaður hefur verið fyrir Elvar, nr: 0370-22-018601, kt. 120583-3609.