Á alþjóðadegi safna, laugardaginn 18. maí, verður vinnustofa í vatnslitamálun og sýningarspjall í Listasafni Árnesinga í Hveragerði
Á boðstólum eru tvær sýningar, Einu sinni var… og Mismunandi endurómun, og tveir dagskrárliðir sem gestir geta tekið þátt í, vinnustofa í vatnslitamálun og leiðsögn/sýningarspjall um sýninguna Mismunandi endurómun.
Kirsten Fugl og Ingelise Flensborg, sem nú dvelja í listamannahúsinu í Hveragerði, eru myndlistarmenn sem líka hafa langa reynslu af því að kenna myndgreinakennurum. Þær munu leiðbeina byrjendum sem lengra komnum við að virkja sköpunargleði sína með vatnslitum laugardaginn 18. maí kl. 13-15. Fyrstur kemur fyrstur fær því í vinnustofunni geta aðeins 12 tekið þátt og eru þátttakendur beðnir um að koma með sína liti og áhöld þó einnig verði pappír og einhverjir litir til staðar.
Tilvalið er líka að skoða sýninguna Einu sinni var… þar sem sjá má vatnslitaverk eftir Ásgrím Jónsson sem þekktur er fyrir færni með vatnsliti.
Síðn mun Inga Jónsdóttir, sýningarstjóri sýningarinnar Mismunandi endurómun, ganga um hana með gestum kl. 15, svara spurningum og segja frá sýningunni, verkunum og höfundum þeirra. Listamennirnir sex eru allir búsettir í Þýskalandi og reka þar eigin vinnustofur, en einn þeirra er Sigrún Ólafsdóttir. Stærð og umfang verkanna er mjög mismunandi, en sýningin snýst um það að verkin nái að kallast á innbyrðis og við húsakynni safnsins.