Voldugir tónar í Skálholtskirkju

ML kórinn í Skálholtsdómkirkju. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það var fullt úr út dyrum í Skálholtsdómkirkju í kvöld á árlegum jólatónleikum Kórs Menntaskólans að Laugarvatni, þeim fyrstu af þremur.

Uppselt var á tónleikana, og vert að geta þess áður en lengra er haldið að tvennir tónleikar verða í Skálholti á morgun, miðvikudagskvöld, og eru enn lausir miðar á tónleikana klukkan 18:00.

Það var greinilega tilhlökkun hjá kórfélögum að fá að syngja fyrir áhorfendur, eftir að hafa haldið glæsilega tónleika í netheimum, fyrir tómri kirkju í fyrravetur. Efnisskrá jólatónleikanna í ár er stórglæsileg og lagavalið frábært, íslensk og erlend jólalög, reyndar ekki öll, því Lifi ljósið úr söngleiknum Hárinu fékk að hljóma, sem og Ólýsanleg eftir Magnús Þór Sigmundsson.

Dagskráin var brotin upp með smærri kórum, þar sem hver bekkur söng sitt lag og eftir hlé var boðið bæði upp á strákakór og stúlknakór. Í samsöngnum var ánægjulegt að heyra, þó að kynjahallinn sé mikill í kórnum sem telur 128 söngvara, hvað piltaraddirnar hljómuðu vel og gáfu gott vægi á móti stúlkunum.

Himnaganga stúlknakórsins vakti gæsahúð alveg upp í handarkrika og eftir hlé toppaði kórinn sig í hverju laginu á fætur öðru. Tónleikagestir gengu sælir út í kvöldið eftir að hafa heyrt Klukknanna köll, Sparifoldina og Ó, helga nótt.

Kórfélagar kynntu dagskrána og léku undir á hljóðfæri í nokkrum lögum. Það er miður, en ég held að það hafi láðst að kynna Eyrúnu Jónasdóttur kórstjóra, sem unnið hefur frábært starf með kórinn í áraraðir. Hún og skólinn allur geta verið stoltir af þessum frábæra kór sem bætir jólarós í hnappagatið með tónleikunum í kvöld.

gks.

Fyrri greinILVA opnar á Selfossi
Næsta greinBríet lækkar leiguna um tæpan þriðjung í desember