Vonandi næ ég smá lúr árið 2025

Vigfús og Christine á Byrja. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Vigfús Blær Ingason, veitingamaður á Byrja, svaraði nokkrum áramótaspurningum fyrir sunnlenska.is.

Hvernig var árið 2024 hjá þér? Árið var í raun stórkostlegt. Crazy busy en stórkostlegt. Við hjónin byrjuðum árið á því að opna veitingastað, veitingastaðinn Byrja sem opnar klukkan 7 á morgnana og við með tvö börn heima undir þriggja ára. Þannig að mér líður eins og ég hafi ekki sofið árið 2024 en það var algjörlega þess virði. Vonandi næ ég smá lúr árið 2025.
Hvað stóð upp úr á árinu? Byrja. Ég er svo meyr og stoltur yfir viðbrögðum Selfyssinga við litla veitingastaðnum okkar. Það er geggjað að sjá hversu margir koma oft og koma reglulega.
Hvaða lag hlustaðir þú oftast á árið 2024? Samkvæmt Spotify er það Í larí lei. Mér líður samt eins og það sé Baby Shark.
Hvað finnst þér ómissandi að gera alltaf á gamlársdag/kvöld? Sigra systkini mín í hinum ýmsu borðspilum.
Hvað gerðir þú um áramótin? Borðaði of mikið, sá flugelda og reyndi að sofna snemma, það þurfti nefnilega að opna veitingastað á nýársdagsmorgun.
Hvað var í matinn á gamlárskvöld? Pabbi og mamma hentu í kalkún og endalaust af dóti með’ðí. Fáránlega gott.
Strengir þú eitthvað áramótaheit? Já, ég ætla að borða fleiri bragðarefi á næsta ári.
Hvernig leggst nýja árið í þig? Fáránlega vel, endalaust af möguleikum, get ekki beðið.

Fyrri greinÞórir sæmdur fálkaorðunni
Næsta grein„Við munum berjast gegn þessari bókun“