„Vor í holtinu“ er yfirskrift næstu tónleika á tónlistarhátíðinni Englar og menn í Strandarkirkju næstkonandi sunnudag, 21. júlí kl. 14.
Fram koma Auður Gunnarsdóttir sópran, Ágúst Ólafsson barítón og Eva Þyri Hilmarsdóttir sem leikur á harmóníum og píanó.
Á efnisskrá þeirra er blönduð dagskrá sem samanstendur af sálmum, þjóðlagaútsetningum og íslenskum sönglögum. Meðal sönglaga verða nokkur lög eftir Jónas Ingimundarson píanóleikara en hann fagnaði 75 ára afmæli í maí síðastliðnum.
Björg Þórhallsdóttir sópransöngkona er listrænn stjórnandi og framkvæmdastjóri hátíðarinnar, sem er styrkt af Sambandi sunnlenskra sveitarfélaga, Tónlistarsjóði og Strandarkirkjunefnd. Aðgangseyrir að tónleikunum er 2.900 kr.
Yfirskrift hátíðarinnar vísar til helgisagnarinnar um fyrstu kirkjuna í Selvogi, um ljósengilinn sem birtist sæförum í sjávarháska og þeir hétu á í örvæntingu sinni. Hann vísaði þeim að landi og þeir reistu þar kirkju í þakklætisskyni. Mikil fegurð er í Selvognum og tilvalið er að taka með sér nesti eða fá sér veitingar hjá heimamönnum.