Starf Karlakórs Rangæinga er með miklum blóma þessi misserin en félagar telja nú liðlega 50 söngvara vítt og breitt úr Rangárþingi og kórinn hefur að aldrei verið fjölmennari.
Árið 2015 var merkisár hjá kórnum en þá voru liðin 25 ár frá stofnun hans. Af því afmælistilefni var nokkuð meira lagt í ferðalög og uppákomur en oft áður. Vorið 2015 var slegið upp tónleikum í Áskirkju, Laugalandi, Hvolsvelli, Akranesi, Þingeyri og Ísafirði. Góður hópur félaga og maka fór á Vestfirði og hreppti ill veður og ófærð, en þeim mun hlýrri viðtökur heimamanna og söngfélaga í Karlakórnum Erni á Ísafirði. Að hausti voru sungnir tónleikar á Selfossi, í Vík, Vestmannaeyjum og á Hvolsvelli og árinu lokað með sameiginlegum jólatónleikum kóra og sönghópa í Rangárvallasýslu.
Menningar- og félagsstarf kostar ekki bara tíma, elju og áhuga beinna þátttakenda, heldur standa fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir í héraði þétt að baki starfinu með fjölbreyttum hætti. Fyrir það verður seint fullþakkað.
Fastur liður í starfinu er verkleg hrossakjötsveisla sem haldin er í Gunnarshólma, A-Landeyjum, í mars ár hvert. Þar er slegið á létta strengi og auðvitað sungið af innlifun. Landa-Gísli Einarsson gerði þessum viðburði skil nýverið í þætti sínum og þar var þeirri kenningu haldið á lofti að sönggleði Rangæinga væri í beinum tengslum við umfangsmikla hrossarækt í héraðinu og ást á fasmiklum gæðingum. Þessi kenning hefur ekki verið hrakin.
Það er og svo að Karlakór Rangæinga er skipaður fjölmörgum hestamönnum og bændum og starfsárið markað af anna- og álagstímum bænda í þessu rótgróna landbúnaðarhéraði, frá lokum smalamennsku að hausti fram í sauðburð og jarðvinnu að vori.
Nú hyllir undir að veturinn lini tökin og þá er að sýna afrakstur æfinganna. Karlakór Rangæinga heldur tónleika á eftirtöldum stöðum í vor með fjölbreytta og léttleikandi efnisskrá:
– Selfosskirkja, þriðjudagur 12. apríl, kl. 20:30.
– Menningarsalurinn á Hellu, föstudagur 15. apríl, kl. 20:30.
– Áskirkja í Rvk., þriðjudagur 19. apríl, kl. 20:30.
– Hvoll, Hvolsvelli, föstudagur 22. apríl, kl. 20:30.
– Kirkjuhvoll, Kirkjubæjarklaustri, laugardagur 23. apríl, kl. 14:00.
Í för með kórnum verða Þórunn Elfa Stefánsdóttir, söngkona, og ungir og efnilegir söngnemendur hennar og Tónlistarskóla Rangæinga. Undirleikur er í höndum Glódísar Margrétar Guðmundsdóttur (píanó) og Grétars Geirssonar (harmoníka). Stjórnandi Karlakórs Rangæinga er Guðjón Halldór Óskarsson, organisti.