Árleg vortónleikaröð Karlakórs Selfoss hefst með tónleikum í Selfosskirkju sumardaginn fyrsta, 21. apríl næstkomandi kl. 20:30.
Verður þeim fylgt eftir með tónleikum í Selfosskirkju þriðjudaginn 26. apríl kl. 20:30, í Fella- og Hólakirkju 28. apríl kl. 20 og með lokatónleikum á Flúðum laugardaginn 30. apríl kl. 20:30.
Á efnisskrá vortónleikanna kennir ýmissa grasa, allt frá þekktustu karlakóralögum og sjómannalögum, til alþekktra slagara og dægurlaga. Kórinn mun á tónleikunum frumflytja lagið Mig langar heim sem Örlygur Benediktsson samdi og færði Karlakór Selfoss í fimmtugs afmælisgjöf í fyrravor og er samið við ljóð heimamannsins Frímanns Einarssonar.
Karlakór Selfoss réði í september nýjan stjórnanda; Skarphéðinn Þór Hjartarson, tónlistarkennara. Skarphéðinn hefur getið sér gott orð fyrir útsetningar og nýtur kórinn þess þegar á fyrsta starfsári undir hans stjórn. Þannig flytur kórinn fjögur lög í útsetningum hans. Sem áður er Jón Bjarnason, organisti í Skálholti undirleikari kórsins.
Veturinn hefur að vanda verið annasamur hjá Karlakór Selfoss, mörg skemmtileg og krefjandi verkefni og ber þar hæst þátttaka í Kötlumóti í Reykjanesbæ í október, sem er stærsta samkoma karlakórmanna og haldin á 5 ára fresti. Kórinn hefur sungið við fjölmörg tilefni innan héraðs auk þess að vera oft valinn af aðstandendum til að syngja við útfarir.
Vordagskráin verður einnig flutt í söngferð kórsins til Norður-Ítalíu í byrjun júní þegar um 50 kórmenn halda utan.