Í dag kl. 14.00 mun kvennakórinn Vox feminae syngja við messu í Skálholtskirkju en kórinn hefur verið í æfingabúðum í Skálholti um helgina.
Prestur í messunni verður sr. Egill Hallgrímsson.
Kvennakórinn Vox feminae var stofnaður í Reykjavík árið 1993. Stofnandi kórsins og stjórnandi frá upphafi er Margrét J. Pálmadóttir.
Trúarleg tónlist ásamt íslenskum þjóðlögum og sönglögum hefur einkennt lagaval kórsins en jafnframt hefur kórinn lagt rækt við samtímatónlist eftir íslensk tónskáld. Kórinn æfir nú messu eftir Báru Grímsdóttir sem samin var sérstaklega fyrir kórinn og verður hluti hennar fluttur eftir messuna.