Í dag var ég á áhugaverðum fyrirlestri, fyrirlestri um það hvernig hver og einn ber ábyrgð á sjálfum sér og sinni hegðun.
Hvernig við sem manneskjur getum tekið stjórnina í okkar lífi og hvernig hugsanir okkar og ákvarðanir hafa áhrif á það hvaða leið við veljum.
En mikilvægustu skilaboðin voru þau að það hvernig við komum fram við fólk sé það mikilvægasta sem við gefum frá okkur. Framkoma okkar endurspeglar að mörgu leyti hver við erum og hvaðan við komum. Framkoma okkar endurspeglar líka hvernig okkur líður og það er mjög mikilvægt að vera meðvitaður um það að við vitum aldrei hvað næsta manneskja við okkur er að ganga í gegnum. Þess vegna skiptir jákvætt viðmót, hlýja og virðing fyrir öðrum manneskjum ótrúlega miklu máli. Samskipti fólks eru mér oft hugleikinn og hvað þau eru gríðarlega stór hluti af okkar daglega lífi. Það hvernig við segjum hlutina, líkamstjáning og tónninn í röddinni okkar getur haft mikil áhrif á það hvaða skilaboð við erum að senda frá okkur og hvernig manneskjan sem fær skilaboðin túlkar þau.
Ég trúi því að allir hafi góða sál að geyma innra með sér og öll viljum við vera góðar manneskjur og gera okkar besta. En oft getur lífið orðið svo flókið að það kemst ójafnvægi á sálartetrið sem leiðir af sér að okkur líður illa, við erum ósátt, við erum pirruð og oftar en ekki bitnar vanlíðan okkar á fólkinu í kringum okkur. Lífið hendir í okkur allskonar hindrunum og veseni sem við ráðum ekki alltaf við en það sem er svo merkilegt er það að við höfum alltaf val. Val um það hvernig við tökumst á við hindranirnar og vesenið í lífinu. Ætlum við að leyfa því að taka stjórnina og keyra okkur í kaf eða ætlum við að taka við stýrinu og breyta því sem við getum breytt.
Við höfum alltaf val, val um það hvaða áhrif við höfum á umhverfi okkar og fólkið í kringum okkur. Í dag getur þú kæri lesandi til dæmis valið það að taka deginum og lífinu opnum örmum og gefið skít í vesenið þó ekki sé nema stundarkorn. Þú getur valið að brosa, hlæja og með því smita gleði út í umhverfið.
Við höfum alltaf val og öll getum við haft áhrif á það að breyta heiminum. Byrjum bara smátt því að litlir hlutir eins og eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt.
Ást og hlýja,
Erna