Ása Berglind Hjálmarsdóttir, verkefnastjóri á menningarsviði Ölfuss, hefur haft í mörg horn að líta á síðustu vikum við að skipuleggja nýju bæjarhátíðina í Ölfusinu, Hamingjan við hafið, sem hófst síðastliðinn þriðjudag og stendur fram á sunnudag. Hátíðin er byggð á góðum grunni Hafnardaga en er talsvert stærri í sniðum með fjölbreyttri og spennandi dagskrá fyrir alla fjölskylduna.
Fullt nafn: Ása Berglind Hjálmarsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 30. júlí 1984, fædd í Reykjavík en uppalin í Þorlákshöfn.
Fjölskylduhagir: Ég bý með unnusta mínum, Tómasi Jónssyni og þremur börnum, Ragnheiði Sól 17 ára, Þorgerði Kolbrá 10 ára og Jónatan Knúti 2 ára.
Menntun: Ég var í Grunnskóla Þorlákshafnar þar sem ég naut mín mjög vel og alltaf í Tónlistarskóla Árnesinga líka þar sem ég lærði fyrst á fiðlu og svo á píanó og trompet. Svo fór ég í bæði BA og MA nám í Listaháskóla Íslands sem var algjörlega geggjað og hafði mikil áhrif á mig. Núna er ég í mjög spennandi MA námi í menningarstjórnun í Háskólanum á Bifröst.
Atvinna: Ég starfa sem markaðs- og verkefnastjóri á veitingastaðnum og menningarhúsinu Hendur í höfn og líka í tímabundnu starfi sem verkefnastjóri á menningarsviði Ölfuss þar sem ég er búin að vera að skipuleggja nýja bæjarhátíð ásamt fleiri verkefnum. Þar fyrir utan hef ég unnið með tónlistarmanninum Jónasi Sig síðan árið 2013 sem umboðsmaður og skipuleggjari og einnig sem stjórnandi tónlistarhóps eldri borgara, Tóna og Trix í Þorlákshöfn.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ætli það sé ekki You Can Heal Your Life eftir Louise Hay. Annars er ég mest í að hlusta á bæði bækur og hlaðvörp þessa dagana. Það hentar mér mjög vel að geta gert það og eitthvað annað á sama tíma, unnið í garðinum eða hjólað til dæmis.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég horfi ekki mikið á sjónvarp, hef í raun ekki átt sjónvarp síðan árið 2013 en dett stundum í seríur í tölvunni. Þessa dagana er Handmaid´s Tale alveg búin að ná tökum á mér.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Það er ein mynd sem ég horfi á á hverju ári og það er jólamyndin Love Actually, mér finnst það nauðsynlegt á aðventunni.
Te eða kaffi: Kaffi. Gott kaffi. Á sjúklega erfitt með slæmt kaffi. Þá er mjög gott að vinna á Hendur í höfn því þar er alltaf gott kaffi!
Uppáhalds árstími: Ég er einhvernvegin þannig að mér finnst árstíðin sem er í gangi hverju sinni alltaf besta árstíðin. Ég elska vorin þegar allt byrjar að blómstra og sólin hækkar á lofti. Sumarið er líka minn tími, ég er er helst ekki innandyra þegar sólin skín og elska að vinna í garðinum mínum og fara í útilegur. Haustið er alltaf dásamlegt með sinni litadýrð, rökkri og kósýheitum og svo er veturinn alveg meiriháttar, svona oftast, en ég er algjört jólabarn og geri mjög mikið úr aðventunni með skemmtilegum hefðum, er mikið á tónleikum og elska að borða jólakræsingar.
Besta líkamsræktin: Klárlega náttúran. Að labba meðfram sjónum í fjörunni eða hjóla. Á mér draum um að verða einhverskonar fjallageit. Ég verð það pottþétt einhvern tímann.
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég elska að elda, sérstaklega í góðum félagsskap. Ég elda mjög góðan indverskan mat til dæmis.
Við hvað ertu hræddur: Ég reyni að leyfa svoleiðis tilfinningum ekki að hreiðra um sig hjá mér.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Oftast á milli kl. 7-8.
Hvað gerir þú til að slaka á: Það fer aðeins eftir því hvernig slökun ég sækist hverju sinni. Stundum vantar mig að slaka huganum og fer þá t.d. út að hjóla með nærandi podcast í eyrunum, svo þykir mér gott að fara í heita pottinn og stundum að sóna út í sófanum yfir Handmaid´s Tale eða álíka.
Hvað finnst þér vanmetið: Náttúran. Við förum allt of illa með náttúruna okkar og mættum hugsa meira um framtíðar kynslóðir og afkomendur okkar í því samhengi. Við sem nú lifum höfum engan rétt á að skemma fyrir þeim.
En ofmetið: Allskonar fjöldaframleiddir hlutir sem „allir“ þurfa að eiga. Þeir færa mér a.m.k. ekki hamingju.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Þau eru svo mörg! Get ómögulega valið!
Besta lyktin: Af börnunum mínum.
Bað eða sturta: Oftast sturta en baðið kemur sér líka vel.
Leiðinlegasta húsverkið: Fara út með ruslið, klárlega!
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Elska. Elska bara meira og meira og láta kærleikann stjórna í öllu því sem maður gerir. Ég reyni að lifa með það fyrir augum og flesta daga gengur það ágætlega.
Nátthrafn eða morgunhani: Nátthrafn, á sumrin tími ég t.d. ekki að fara að sofa.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Ofsalega margir fallegir staðir sem ég elska en ég held að Borgarfjörður eystri standi aðeins upp úr. Algjörlega kyngimagnaður staður.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Hvað peningar hafa mikil völd.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Úff! Get eiginlega ekki sagt frá því opinberlega…
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Tónlistarkennari. Sem ég varð svo og naut mikið en lífið togaði mig í aðrar áttir.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Tómas! Hann getur látið mig gjörsamlega grenja úr hlátri, bæði vegna þess hversu seinheppinn hann er og hversu fyndinn hann er af guðs náð.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag: Ég væri mjög mikið til í að fá að vera einhver af langömmum mínum þegar þær voru á sama aldri og ég. Mér þætti einstaklega áhugavert að sjá hvernig hversdagurinn þeirra var á þeim tímum sem þær voru að ala upp börn og halda heimili.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook og Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ó, hvað þessi er snúin. Skipa fyrir um heimsfrið! Að allir þyrftu að láta sér þykja vænt um náungann og hætta allri vitleysu.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég á í vandræðum með að henda kjólum sem ég hef sankað að mér í gegnum tíðina. Hver og einn er algjörlega einstakur og mér finnst eins og ég muni skemma gömul verðmæti ef ég læt þá frá mér. Svo þeir fylla öll rými í húsinu og rúmlega það, enda eru þessar misfallegu gersemar að nálgast 100 talsins.
Mesta afrek í lífinu: Klárlega að koma börnunum mínum þremur í heiminn, jú og næla í Tómas Jónsson.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi bjóða Tómasi með mér á Woodstock 1969.
Lífsmottó: Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Það er gaman að segja frá því að um næstu helgi er ég að halda nýja bæjarhátíð í Þorlákshöfn sem heitir Hamingjan við hafið. Hún byrjaði í raun 6. ágúst og samanstendur af þéttri dagskrá fram á sunnudagskvöld. Þetta er klárlega umfangsmesta verkefnið sem ég hef tekið að mér og það er búið að vera virkilega skemmtilegt að undirbúa hátíðina. Ég hlakka til að sjá fólk njóta samverustunda í höfuðborg hamingjunnar, heima í Þorlákshöfn.
Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is