Í síðustu viku hlaut Hvergerðingurinn Ragnhildur Gísladóttir viðurkenningu Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sem fyrirmynd í námi fullorðinna. Viðurkenningin er veitt þeim einstaklingum sem hafa sýnt framúrskarandi árangur, frumkvæði og kjark og náð að yfirstíga ýmiss konar hindranir. Ragnhildur tók raunfærnimat í almennri starfshæfni hjá Fræðsluneti Suðurlands í janúar 2017 og skráði sig í framhaldinu í nám við Skrifstofuskólann hjá Fræðslunetinu. Síðan þá hefur hún lokið Menntastoðum og námi á Háskólabrú Keilis. Í dag stundar hún nám í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík. Ragnhildur hefur sýnt ótrúlegar framfarir í námi og haldið ótrauð áfram, sett sér skýr markmið og látið drauma sína rætast.

Fullt nafn: Ragnhildur Gísladóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 21. janúar 1981 á Höfn í Hornafirði.
Fjölskylduhagir: Búin að vera gift Þráni Ævarssyni, vélfræðingi, í 12 ár og á með honum þær Halldóru 9 ára og Hrafnhildi 7 ára.
Menntun: Stunda nám við tölvunarfræðideild hjá Háskólanum í Reykjavík.
Atvinna: Nemi, húsmóðir og hundaeigandi.
Besta bók sem þú hefur lesið: Las mjög áhugaverða bók í sumar sem heitir Reality is Broken eftir Jane McGonigal.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Vikings.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: The Holiday og Brave.
Te eða kaffi: Kaffi – rjómi, smjör og smá karamellusíróp.
Uppáhalds árstími: Vetur.
Besta líkamsræktin: Að fara út að labba með hundana og á hestbak.
Hvaða rétt ertu best að elda: Allt með uppstúf. Geri besta uppstúfinn.
Við hvað ertu hrædd: Drauga…
Klukkan hvað ferðu á fætur: Neyðist til að fara á fætur fyrir klukkan 8 á virkum dögum – en helst ekki fyrr en um 11 um helgar.
Hvað gerir þú til að slaka á: Klappa hundi og muna eftir öndun.
Hvað finnst þér vanmetið: Þögnin og kyrrðin.
En ofmetið: Reykjavík. Erilinn og stressið sem fylgir stór-Reykjavíkursvæðinu.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: SíSí með Grýlunum.
Besta lyktin: Hestalykt.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Að setja óhreinatau af öðrum í óhreinatauskörfuna…
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Aldrei skúra fyrir barnaafmæli, alltaf eftir það.
Nátthrafn eða morgunhani: Nátthrafn fram í fingurgóma.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Allt Ísland. Mjög erfitt að velja einn stað fram yfir annan.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Fólk sem þykist vita allt best og mest.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Þegar ég féll á hlýðni-prófi með hund. Hundurinn lét eins og hann kynni engar skiparnir. Við vorum búin að æfa þetta marg oft og búin að ná svipuðu prófi áður.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Bóndi eða dýralæknir.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Maðurinn minn. Hann kemur mér alltaf til að brosa.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: MacKenzie Scott, hún hefur efni á því að taka sér einn frídag, ein, á ströndinni með góðan kokteil í hönd.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook og Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég jafna óréttlætið í heiminum. Eyða hungri og ofsafátækt. Og að súkkulaði væri ekki óhollt, í miklu magni.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Mér finnst kúmen og sveppir í dós ógeðslegt. Ég á líka mjög erfitt með að vera í ósamstæðum sokkum.
Mesta afrek í lífinu: Að segja hluta af minni sögu á ársfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífins og að þora að vera ég.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi ferðast aftur til þess tíma þegar ég hitti uppeldisfaðir minn seinast og knúsa hann extra mikið.
Lífsmottó: Vertu þú sjálf/ur, allir aðrir eru fráteknir. Og gæði fram yfir magn, í öllu sem við gerum eða segjum!
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Senda börnin í pössun til afa og ömmu, karlinn í bústað og njóta þess að vera ein heima og fá að stjórna fjarstýringunni.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri grein„Geggjað að fá að vera partur af þessu liði“
Næsta greinVörubílstjóri slapp með skrekkinn