Halla Þuríður Steinarsdóttir frá Hellu var Dux Scholae í Fjölbrautaskóla Suðurlands þegar 27 stúdentar útskrifuðust frá skólanum í síðustu viku. Halla Þuríður fékk einnig verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í íslensku, stærðfræði og raungreinum og námsstyrk frá Hollvarðasamtökum skólans. Halla stundar nú nám í lýðháskóla í Danmörku og var því ekki viðstödd útskriftarathöfnina en foreldar hennar tóku við viðurkenningunum með Höllu á Facetime og vakti það mikla kátínu.

Fullt nafn: Halla Þuríður Steinarsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Ég fæddist 18. febrúar árið 2006 á Selfossi.
Fjölskylduhagir: Ég bý hjá foreldrum mínum en er samt akkúrat núna á vist í Lýðháskólanum Vrå í Danmörku.
Hverra manna ertu: Ég er dóttir Steinars Þórarinssonar frá Hellu og Halldóru Guðlaugar Helgadóttur.
Menntun: Ég útskrifaðist úr Grunnskólanum Hellu vorið 2022 og haustið 2022 byrjaði ég í Fjölbrautaskóla Suðurlands og ég útskrifaðist þaðan sem stúdent 11. janúar síðastliðinn. Einmitt núna er ég í dönskum lýðháskóla sem kennir listir og tónlist og þar mun ég verða þar til í sumar. Eftir það er planið að fara í Háskóla Íslands og læra eitthvað sem tengist stærðfræði en ég er ekki með neitt fast plan.
Atvinna: Ég hef verið að vinna í Olís með framhaldsskólanum en einmitt núna er ég ekki í neinni vinnu þar sem ég er í Danmörku.
Besta bók sem þú hefur lesið: Það er mjög erfitt að velja bara eina bók þannig ég segi að uppáhalds bókinn mín er The Bane Chronicles eftir Cassöndru Clare en Lovestar eftir Andra Snæ Magnason er ein af áhugaverðustu bókunum sem ég hef lesið og svo fær Inngangur að efnafræði eftir Bonnie Garmus að fljóta með því það er mjög skemmtileg bók.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég get ekki valið milli BBC Sherlock og BBC Merlin sem eru báðir mjög góðar þáttaraðir.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Það er myndin Spider-Man No Way Home en í rauninni get ég horft á allar Marvel myndir aftur og aftur.
Te eða kaffi: Hvorugt, ég fæ mér frekar vatn.
Uppáhalds árstími: Ég held mest uppá sumarið því þá er hlýtt.
Besta líkamsræktin: Að hnykla heilavöðvana en ef það telst ekki með þá finnst mér gaman að stunda taekwondo.
Hvaða rétt ertu best að elda: Veigar Kári bróðir minn myndi segja að ég sé best að í að gera pítsu.
Við hvað ertu hrædd: Hlýnun jarðar og þar af leiðandi tillitsleysi annarra gagnvart jörðinni.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Það er bara mjög mismunandi. Núna vakna ég um áttaleitið á virkum dögum og milli níu og tíu um helgar.
Hvað gerir þú til að slaka á: Ég les, spila á hljóðfæri eða teikna og lita.
Hvað finnst þér vanmetið: Lestur því hann er bestur.
En ofmetið: Koffín.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Til í allt þríleikurinn eftir Friðrik Dór, Steinda Jr. og fleiri.
Besta lyktin: Ég hef ekki mikið pælt í þessu en örugglega blómalykt.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Öll – en ef ég þarf að velja eitt þá er það örugglega að ryksuga.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Vertu þú sjálfur, gerðu og allt sem þú vilt.
Nátthrafn eða morgunhani: Nátthrafn.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Það hýtur að vera Seljalandsfoss eða útsýnið á Ingólfshöfða og svo auðvitað Þórsmörk.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Þegar fólk flokkar ekki rusl rétt.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Þegar ég var yngri vildi ég alltaf verða kennari eins og mamma mín en núna er ég ekki alveg viss en örugglega eitthvað sem tengist stærðfræði.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Af fólki sem ég þekki þá myndi ég segja Gunnar Páll bróðir minn eða Ásthildur vinkona mín en af grínistum þá myndi ég segja Bo Burnham.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég myndi verða ríkasta manneskja í heimi (sem er núna því miður Elon Musk) og ég myndi gefa allan peninginn minn til góðgerðarmála. Sorrý, að það er ekki eitthvað skemmtilegra.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Ég nota þá flest alla jafnmikið nema ég er næstum aldrei inn á Facebook.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi banna heri og útrýma hungri í heiminum og að lokum myndi ég snúa við hlýnun jarðar, aftur sorrý.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Fáir vita að ég get farið í splitt.
Mesta afrek í lífinu: Ég er nú ekkert orðin neitt sérstaklega gömul en á þessum tímapunkti er það líklegast að útskrifast snemma úr framhaldskóla, ásamt því að vera í fullu tónlistarnámi og vinna hlutastarf en dúxa samt.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi vilja fara á víkingatímann og sjá hvað þeir voru að gera á Íslandi.
Lífsmottó: Vertu alltaf þú sjálf, nema ef þú getur verið Batman. Vertu þá Batman.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Ég hef ekkert planað þannig ég mun örugglega bara slaka á.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinYfir 3.000 íbúðir á næstu árum
Næsta greinSelfoss hljóp yfir Stjörnuna