Anna Kristín Helgadóttir á Hvolsvelli er alltaf með eitthvað nýtt á prjónunum og nú var hún að gefa út þriðju Prjónafjörsbókina sína, Prjónafjör 3. Fyrsta bókin kom út árið 2012 og Prjónafjör 2 fylgdi á eftir árið 2016. Bækurnar hafa notið mikilla vinsælda en í þeim eru fjölbreyttar uppskriftir eftir Önnu Kristínu af ýmiskonar prjónlesi; peysum, húfum, vettlingum og fleiru.

Fullt nafn: Anna Kristín Helgadóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 5. nóvember 1977 á Akureyri.
Fjölskylduhagir: Gift Smára símakalli og saman eigum við þrjú börn, Stefán Bjarka, Helga Val og Hildi Völu.
Menntun: Stoltur leikskólakennari.
Atvinna: Starfa sem deildarstjóri í leikskólanum Örk á Hvolsvelli.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ég les afskaplega lítið nema barnabækur og þar er Dúi litli alltaf klassískur.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Eiginlega bara það sem ég dett í þá stundina, núna erum fjölskyldan t.d. með Lost maraþon! Reyndar get ég horft á dönsku þættina Matador endalaust, væri til í að eiga þá.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: The Intouchables og Shawshank Redemption, get ekki valið á milli.
Te eða kaffi: Te, alla daga. En er þó að farin að drekka latté, sem þykir víst ekki alvöru kaffi.
Uppáhalds árstími: Vorið, þegar blómin springa út og ég get farið að moldvarpast í garðinum.
Besta líkamsræktin: Morgunæfingarnar með vinkonunum.
Hvaða rétt ertu best að elda: Er bara að verða nokkuð góð í að elda gæs og þá verður hún að vera heil, ekkert rugl með að taka bara bringurnar.
Við hvað ertu hrædd: Ketti.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Ýmist 5:45 eða 6:50, fer eftir dagskrá dagsins.
Hvað gerir þú til að slaka á: Leggst í nýja heita pottinn minn og horfi á stjörnurnar.
Hvað finnst þér vanmetið: Að vera ein/n með sjálfum sér.
En ofmetið: Kaffi.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Mismunandi eftir stuði, finnst Ásgeir alltaf góður og svo Eurovisionlög á þeim tíma sem hátíðin stendur.
Besta lyktin: Lyktin af vorinu og blómailmur.
Bað eða sturta: Er mikil sturtumanneskja en eftir að ég fékk pott nýt ég þess þó að svamla þar.
Leiðinlegasta húsverkið: Skúra, forðast það mjög en finnst aftur á móti mjög gaman að ryksuga.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að enginn er fullkomin og að enginn getur gert allt. Man að ég sagði einhvertímann í hálfgerðu gríni fyrir ein jólin að við myndum aldrei ná þessu, það væri svo margt ógert. Þá horfði sonur minn Helgi Valur, þá um 6 ára, hughreystandi á mig og sagði: „Þetta er allt í lagi mamma, enginn getur gert allt!” Svona eru börn nú vitur og minna mann á!
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani klárlega.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Yfirleitt finnst mér litlu hlutirnir í náttúrunni fallegir og því ekki neinn einn staður fallegri en annar, allt hefur sinn sjarma.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Þegar ég á ekki til súkkulaðibita eftir vinnu.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Þegar ég hélt að útgangurinn á dvalarheimilinu hér á Hvolsvelli væri raddstýrður og endurtók töluröð ítrekað við dyrnar án þess að nokkuð gerðist.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Arkitekt var lengi vel málið. Svo var ég alltaf ákveðin í að ég ætlaði að verða mamma, elska börn og er svo heppin að vinna með börnum og eiga svo frábær börn heima líka.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Finnst svo margir fyndnir en skemmtilegast finnst mér þegar fólk getur hlegið að sjálfu sér og tekur sig ekki of hátíðlega.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag: Kannski myndi ég bara vilja vera köttur, þá myndi ég kannski skilja þá betur og hætta að vera svona hrædd við þá.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook og aðeins Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Myndi ég reyna að nýta tímann vel og láta gott af mér leiða.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég var alltaf að sippa á yngri árum og sippaði út í eitt, úti og inni og hvar sem færi gafst. Ætlaði mér á ákveðnum tímapunkti að slá heimsmetið í fjölda sippa á einni mínútu og vantaði bara örfá sipp upp á það. Var meðal annars einu sinni fengin til að sýna sippkúnstir á skólaskemmtun.
Mesta afrek í lífinu: Klassískt en satt – börnin mín sem ég er ótrúlega stolt af.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég væri alveg til í að fara aftur í tímann og kynnast lifnaðarháttunum í kringum 1900.
Lífsmottó: Brostu og bjóddu öllum góðan dag.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Hugsa að við fjölskyldan verðum heima í kósý eins og allar helgar þessi misserin. Elda góðan mat, prjóna og fer í pottinn. Hringi svo pottþétt í bróa minn sem verður fertugur á laugardaginn.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinGul viðvörun: Stormur undir Eyjafjöllum
Næsta greinAndlát á Sólvöllum vegna COVID-19