Lindex opnaði nýja verslun á Selfossi í síðustu viku, rúmri viku á undan áætlun. Upphaf fyrirtæksins má rekja til þess þegar Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir og Albert Þór Magnússon opnuðu verslun fyrir ellefu árum síðan í bílskúrnum sínum á Selfossi en í dag er nýja verslunin á Selfossi stærsta verslun Lindex utan höfuðborgarsvæðisins.

Fullt nafn: Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Fæddist í Reykjavík 19. nóvember 1979.
Fjölskylduhagir: Í sambúð með Albert Þór Magnússyni og við eigum 3 börn saman; Daníel Victor 19 ára, Magnús Val 12 ára, Önnu Sóley 8 ára og svo er eitt lítið væntanlegt í nóvember.
Menntun: Ég er útskrifuð sem viðskiptafræðingur úr Háskólanum í Reykjavík.
Atvinna: Ég er umboðsaðili Lindex á Íslandi og við fjölskyldan rekum saman níu verslanir á Íslandi og tvær í Danmörku.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ný Jörð eftir Eckart Tolle eina bókin sem ég hef lesið aftur og aftur.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Held að ég verði bara að viðurkenna að uppáhaldssjónvarpsþátturinn minn er Bachelor hann klikkar aldrei en nýlega datt ég inní þættina Outlander á Netflix og bíð spennt eftir næstu seríu.
Te eða kaffi: Te.
Uppáhalds árstími: Vorið.
Besta líkamsræktin: Jógadýnan heima eða hreyfing útí í náttúrunni er í uppáhaldi en annars finnst mér ómissandi að taka smá sundsprett á morgnana.
Hvaða rétt ertu best að elda: Mexíkóskan rétt sem er í uppáhaldi á heimilinu.
Við hvað ertu hrædd: Að eitthvað slæmt komi fyrir börnin mín.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Yfirleitt vakna ég um 6:30 þegar fjölskyldan er í rútínu.
Hvað gerir þú til að slaka á: Horfi á eitthvað létt sjónvarpsefni.
Hvað finnst þér vanmetið: Kærleikurinn, jákvæðni og bjartsýni.
En ofmetið: Egóið.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Lagið I´m Coming Out með Donnu Summer kemur mér alltaf í stuð en annars er uppáhaldslag okkar mæðgnanna þessa dagana lagið Cover me in Sunshine sem Pink syngur með dóttir sinni.
Besta lyktin: Lyktin af blautum gróðri á fallegum sumardegi, himnesk.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Vaska upp.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Ráð sem ég fékk hjá ömmu minni Ellu; “að allir fái að vera eins og þeir vilja”.
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Ísland er fallegasti staður í heimi að mínu mati og ótal staðir hér sem ég get ekki gert uppá milli. Þar fyrir utan er eyja í Bahamaseyjaklasanum fallegasti staður sem ég hef komið á.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Neikvæðni og stjórnsemi.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Þegar ég fór með vinnufélögum mannsins míns, sem ég var að hitta í fyrsta sinn, í bíó að sjá Borat og við stóðum saman í hléinu að ræða aðalpersónuna. Ég hélt semsagt að þetta væri heimildarmynd um þennan mann, Borat sem væri að ferðast um heiminn. Ég gleymi því aldrei hvernig allir horfðu vandræðalegir ofan í popppokann sinn á meðan ég talaði um hversu sérstakur þessi maður væri greinilega. Ég fattaði ekkert fyrr en ég sá svipinn á Albert, þegar hann var að reyna að senda mér merki um að þetta væri leikið.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Búðarkona.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Pabbi minn heitinn var einstaklega fyndinn maður en ætli Magnús sonur minn sé ekki sá sem kemst næst því. Hann er ótrúlega fyndinn og skemmtilegur karakter og kemur mér gjarnan til að hlægja.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag, hver þá: Örugglega bara einhver sem er mjög ólíkur mér og á öðruvísi líf til að reyna að öðlast betri skilning á því sem ég skil ekki og þekki ekki.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég skipta auðæfum heimsins jafnara á milli allra og útrýma ofbeldi.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Þegar ég var lítil þá hélt ég að ég ætti Litlu kaffistofuna, því mamma og pabbi kölluðu hana alltaf Lóubúð.
Mesta afrek í lífinu: Að eignast börnin mín og sjá hvað þau eru góðar manneskjur.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ætli ég myndi ekki ferðast 100-200 ár aftur í tímann til að hitta forfeður mina og fá innsýn inní þeirra líf og karakter, ég gæti eflaust lært fullt af því að spegla mig í þeim og ef ég færi fram í tímann þá myndi ég vilja heimsækja afkomendur mína eftir 100-200 ár og fá að kynnast þeim og sjá hversu mikið við vöxum með hverri kynslóð.
Lífsmottó: “ÞETTA LÍÐUR LÍKA HJÁ”. Þegar illa gengur að muna að þetta verður ekki alltaf svona og taka einn dag í einu og þegar vel gengur að muna líka þetta verður ekki alltaf svona og þá að njóta hvers augnabliks.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Standa vaktina í nýju Lindex versluninni okkar á Selfossi og kíkja svo niðrí nýja flotta miðbæinn.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinFjórði sigur KFR í röð
Næsta greinSuðurlandsdjazzinn dunar