Laugdælingurinn Jana Lind Ellertsdóttir varð glímudrottning Íslands í fyrsta skipti þegar Íslandsglíman var haldin um síðustu helgi. Þessi eldhressa menntaskólamær fékk því Freyjumenið til varðveislu næsta árið – í það minnsta. Flestir vita að Jana Lind keppir undir merkjum HSK, en færri vita að hún dýrkar eplamauk.

Fullt nafn: Jana Lind Ellertsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Fædd í Reykjavík, 18. september 2000.
Fjölskylduhagir: María Carmen Magnúsdóttir og Ellert Gíslason eru foreldrar mínir og svo á ég fullt af systkinum.
Menntun: Ég er á þriðja ári á náttúruvísindabraut við Menntaskólann að Laugarvatni, útskriftast í lok maí.
Atvinna: Ég er að þjálfa fangbrögð hjá Ungmennafélagi Laugdæla með skólanum.
Besta bók sem þú hefur lesið: Allar Útkallsbækurnar. Við pabbi bíðum spennt eftir næstu bók.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég horfi nánast ekkert á sjónvarp. Ef ég horfi á það eru það yfirleitt fréttir eða veðrið.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Footloose, Grease eða Dirty Dancing. Ég stilli á þær á leiðinni upp í flugvél, græja heyrnatólin, spenni mig í belti og sofna.
Te eða kaffi: Vatn og mjólk.
Uppáhalds árstími: Haust, það er svo gott að komast í rútínu eftir sumrin og smala kindunum heim.
Besta líkamsræktin: Allar íþróttir.
Hvaða rétt ertu best að elda: Finnst mjög gaman að elda mexikóskan kjúklingarétt sem mamma kenndi mér að gera.
Við hvað ertu hrædd: Ég var (og er kannski smá enn) skuggalega hrædd við að draga málband inn, ég tók alltaf góðan tíma í að draga málbandið hægt inn.
Klukkan hvað ferðu á fætur: 7-sjarph.
Hvað gerir þú til að slaka á: Lesa bækur og fara í sund.
Hvað finnst þér vanmetið: Samskipti augliti til auglitis.
En ofmetið: Gervisamskipti.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Footloose.
Besta lyktin: Erfitt að toppa nýslegið gras.
Bað eða sturta: Sturta, 5 mínútur max.
Leiðinlegasta húsverkið: Að þurrka af.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Everyone you meet has something to teach you.
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani, er yfirleitt að allan daginn en ég klára minn kvóta um klukkan 22 og þá þarf ég að leggjast til hvílu.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Kjósin er svo fallegur og friðsæll staður.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Þegar fólk gefst upp of snemma.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Að bomba á hurð, ég gekk ekki á hana, ég skallaði hana harkalega. Ég er oft minnt á það af bekkjarsystkinum sem voru viðstödd.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: HárgreiðsluFRÆÐINGUR. Ég hélt að maður myndi setja „fræðingur“ fyrir aftan öll starfsheiti.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Guðni, unnusti mömmu. Hann getur gert allt fyndið.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag, hver þá: Amma þegar hún var lítil. Væri til í að upplifa allar sögurnar sem hún hefur sagt mér. Eins og þegar hún þurfti að hlaupa heim strax eftir skóla svo að systir hennar gæti fengið kjólinn hennar til að fara í skólann.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Ég nota Facebook aðallega fyrir skólann, við notum Facebook hópa til að senda upplýsingar og Snapchat nota ég til að senda á foreldra og systkini. En allt í hófi.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Breyta allri neikvæðni í jákvæðni.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Að ég dýrka eplamauk.
Mesta afrek í lífinu: Íslandsglíman um síðustu helgi og Evrópumeistaratitlarnir í bakchold og ranggeln.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Til ársins 1980. Þegar allir dönsuðu öllum stundum.
Lífsmottó: Njóta stundarinnar.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Keppa, eins og flestar aðrar helgar. Þjálfarinn minn spurði mig einu sinni hvort ég vildi keppa um næstu helgi og ég sagði: „Já, í hvaða íþrótt?“.


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri grein134 milljónir króna í verkefni á Suðurlandi
Næsta greinKryddjurtir í eldhúsgluggann