Selfyssingurinn Einar Örn Ólafsson er tæknistjóri og meðstofnandi sprotafyrirtækisins Opus Futura sem er nýbúið að setja í loftið hugbúnaðarlausn sem mun gjörbylta allri vinnu í tengslum við ráðningar. Einar á að baki langan og farsælan feril í heimi upplýsingatækninnar, einkum í fjármálageiranum, en hann hefur m.a. starfað hjá Teya og Seðlabanka Íslands. Hann kemur því til Opus Futura með mikilvæga reynslu og þekkingu og hefur leitt alla hönnunar- og tæknivinnu fyrirtækisins.

Fullt nafn: Einar Örn Ólafsson.
Fæðingardagur, ár og staður: 16. apríl 1979 Selfossi.
Fjölskylduhagir: Giftur Írisi Dögg Jónasdóttur viðskiptafræðingi og verkefnastjóra. Saman eigum við 4 börn á aldrinum 7 til 18 ára.
Hverra manna ertu: Foreldrar mínir eru Ólafur Bjarnason og Gerður Matthíasdóttir bæði frá Þingeyri við Dýrafjörð. Þau fluttu á Selfoss árið 1978 til að mennta Selfyssinga í bæði stærðfræði og matreiðslu.
Menntun: BSc og MSc í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands.
Atvinna: Tæknistjóri og meðstofnandi Opus Futura sem er spennandi hugbúnaðarlausn sem veitir einstaklingum sjálfkrafa tækifæri til að koma nafnlaust til greina í draumastarfið án þess að vera í virkri atvinnuleit. Með því að fara á opusfutura.is er hægt að fá að vita allt um lausnina og nýskrá sig.
Besta bók sem þú hefur lesið: Margar í uppáhaldi en sú nýlegasta er Project Hail Mary eftir Andy Weir.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Breaking Bad.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Back to the Future I, II og III.
Te eða kaffi: Heimalagað úrvals kaffi sem mín ástkæra eiginkona lagar.
Uppáhalds árstími: Allir hafa sinn sjarma en á vorin vaknar allt til lífsins sem er alltaf svo spennandi að fylgjast með.
Besta líkamsræktin: Öll hreyfing sem vekur svita en hef sérstaklega gaman af því að vinna Ómar Nilsen í körfubolta.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Butter Chicken er í miklu uppáhaldi hjá fjölskyldunni en heimalöguð pizza fylgir fast á eftir.
Við hvað ertu hræddur: Ég er hræddur við vespur sem stinga mann.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Oftast um 7:15 en reyni að sofa til hálf 9 um helgar.
Hvað gerir þú til að slaka á: Skelli mér í heita pottinn með minni konu eftir að börnin eru komin í ró.
Hvað finnst þér vanmetið: Að fara í útilegu með fjölskylduna og gista í tjaldi.
En ofmetið: Íslenska sumarið sem sjaldnast mætir til leiks.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Killing In The Name með Rage Against The Machine.
Besta lyktin: Lyktin af nýbökuðu kryddbrauði.
Bað eða sturta: Sturta alla daga ársins.
Leiðinlegasta húsverkið: Að skúra gólfin en mjög skemmtilegt þegar því er lokið.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að mistakast er eitt skref í átt að því að ná árangri -Edison.
Nátthrafn eða morgunhani: Var alltaf meiri nátthrafn en eftir að börnin fæddust neyddist ég til að verða morgunhani.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Það er hvergi fallegra en á Vestfjörðunum og þá sér í lagi í Dýrafirði.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Tilitsleysi gagnvart öðrum.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Detta af hlaupabretti í World Class.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ætlaði að verða lögreglumaður þegar ég var 6 ára, skurðlæknir þegar ég var 10 ára og rokkstjarna þegar ég var 14 ára.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Ari Eldjárn og Kramer í Seinfeld.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Myndi vilja fá að vera Albert Einstein til þess að fá að skyggnast inn í hans magnaða hugarheim.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Klárlega mest Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi útrýma íllsku og hatri og innleiða umhyggju og ást.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég les ennþá Andrés Önd og á allt safnið af Syrpum.
Mesta afrek í lífinu: Það er ennþá í vinnslu en mun klárlega vera að aðstoða börnin mín við að elta drauma sína og að farnast vel í lífinu.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Þegar ég verð orðinn gamall maður myndi ég vilja ferðast aftur í tímann og upplifað mitt eigið lífshlaup upp á nýtt en ekki breyta neinu vonandi.
Lífsmottó: Það er alltaf til plan B.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Fara í ræktina, vinna, fara í sund með börnin og elda góðan mat fyrir fjölskylduna.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinVilja formanninn frá og að íbúar verði beðnir afsökunar
Næsta greinAlvarlegt umferðarslys við Gígjukvísl