Anna Guðrún Þórðardóttir, doktorsnemi við Landbúnaðarháskóla Íslands, fékk á dögunum styrk úr Vísinda- og rannsóknarsjóði Suðurlands vegna verkefnisins Erfðaleg aðlögun byggs að krefjandi umhverfisaðstæðum. Um er að ræða rannsóknarverkefni þar sem meginmarkmiðið er að stuðla að þróun byggyrkja sem eru aðlöguð kaldtempruðum umhverfisskilyrðum líkt og á Íslandi. Anna Guðrún er Sunnlendingur vikunnar.
Fullt nafn: Anna Guðrún Þórðardóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 18. október 1997, á Selfossi.
Fjölskylduhagir: Ég er í sambúð með Þráni Ingólfssyni, ættuðum frá Halakoti í Flóa og Kristnesi í Eyjafirði, og saman eigum við dóttur á þriðja aldursári, sem heitir Þórkatla.
Hverra manna ertu: Faðir minn heitir Þórður Stefánsson, ættaður frá Vík í Mýrdal og Norðurhjáleigu í Álftaveri, og móðir mín heitir Hulda Brynjólfsdóttir, frá Hreiðurborg í Sandvíkurhreppi. Þegar ég var 14 ára giftist mamma Tyrfingi Sveinssyni frá Lækjartúni í Ásahreppi, og græddi ég þar bónusfjölskyldu sem mér þykir einnig vænt um að fá að kenna mig við.
Menntun: Ég er með MSc gráðu í búvísindum frá Landbúnaðarháskóla Íslands, og vinn nú að doktorsgráðu á sama sviði.
Atvinna: Ég hef borið ýmsa hatta við Landbúnaðarháskóla Íslands, en sá nýjasti er doktorsnemi í búvísindum. Þá hleyp ég í hin ýmsu bústörf hér heima í Lækjartúni, og hef á haustin starfað sem verktaki í lambadómum hjá Ráðgjafarmiðstöð
landbúnaðarins.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ég les mjög mikið og ýmislegt misgáfulegt. Ætli ég verði ekki að segja að besta bókin sé Sjálfstætt fólk, eftir Halldór Kiljan Laxness, með öllum sínum litríku persónum. Nýverið hef ég hrifist af bókum Ali Hazelwood, sem skrifar á nokkuð léttum nótum um líf kvenna í vísindum.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég leyfi öðrum fjölskyldumeðlimum yfirleitt að ráða sjónvarpsefninu, en þegar ég er ein heima og ekki með nefið ofan í bók, fær Friends yfirleitt að rúlla.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Þessa stundina hefur Skrímslaháskólinn verið í mestu uppáhaldi hjá dóttur minni, sem endurspilast þokkalega, en það styttist vonandi í að næsta Disney-mynd verði tekin fyrir.
Te eða kaffi: Uppáhellt kaffi með þremur dropum af mjólk, takk.
Uppáhalds árstími: Síðsumar og fram á haust, með kvöldreiðtúrum og braski í kringum blessaða sauðkindina.
Besta líkamsræktin: Fjallgöngur.
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég er mjög nýjungagjörn í eldhúsinu, Þráni mínum til mikillar armæðu, en hann hefur líklega minnstar áhyggjur þegar hvers kyns lambakjöt er á boðstólum.
Við hvað ertu hrædd: Brostið fæðuöryggi á ófriðartímum.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Á milli sjö og átta.
Hvað gerir þú til að slaka á: Fer í hesthúsið og moka skít, þá renna af manni allar áhyggjur og hvers kyns geðvonska.
Hvað finnst þér vanmetið: Íslenskt landbúnaðarland og matvaran sem af því fæst.
En ofmetið: Frístundalóðir og ímynduð hlunnindi af bújörðum.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Far Far Away með Slade.
Besta lyktin: Flipinn á eftirlætis reiðhestinum þá stundina.
Bað eða sturta: Sturta, en bara af því að ég á ekki baðkar.
Leiðinlegasta húsverkið: Líklega að ryksuga, enda er það sjaldnast gert af vandvirkni á þessu heimili.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Mamma hvatti mig til að flytja langt að heiman, ekki af því að hún var þreytt á mér (vona ég), heldur af því að hún hafði sjálf prófað að búa hinum megin á landinu og bjó vel að þeirri reynslu. Ég flutti 19 ára á Hvanneyri og hefði aldrei trúað hvaða tækifæri fólust í því að kynnast nýju samfélagi og nýjum stað, ég hef prófað nokkra aðra staði á innlendri sem erlendri grundu síðan og tel mig eiga vini vítt og breytt um heiminn – Sjóndeildarhringurinn er nú margfalt stærri!
Nátthrafn eða morgunhani: Algjör morgunhani.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Mér þykir afskaplega vænt um hálendi Íslands, og erfitt að velja einn stað ofar öðrum. Toppur Sauðafells, rétt sunnan við Versali á Sprengisandsleið, á heiðskírum septemberdegi tengdum smalamennskum kemur þó upp í hugann sem mjög eftirminnilegt augnablik.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Leti og metnaðarleysi.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Það er nú ekkert sem situr í mér sem sérstaklega neyðarlegt, þá hefur mér sennilega tekist að gleyma því eða hlægja að því.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég ætlaði að verða dýralæknir, en komst að því á Hvanneyri að allt sem tengdist líffæra- og sjúkdómafræðum þótti mér óspennandi í samanburði við önnur fræðasvið landbúnaðarvísinda. Sem betur fer komst ég að því þar og gat haldið áfram í búvísindum, sem átti vel við mig.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Þráinn minn Ingólfsson.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Líklega Árni Björn Pálsson, knapi, og fá að prófa nokkra gæðinga í von um að auðvelda mér stóðhestavalið í vor.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Líklega myndi ég í bjartsýniskasti leggja áherslu á heimsfrið og sjálfbærni mannkyns.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég hef í tvígang nefbrotnað, í fyrra skiptið á handboltaæfingu og í seinna skiptið við að standa of nálægt billjardborði þegar hiti fórst í leikinn.
Mesta afrek í lífinu: Dóttir mín.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Líklega bara aftur til landnáms, og bera landið augum áður en maðurinn settist hér að.
Lífsmottó: Ef þú ætlar að gera eitthvað, geturðu allt eins sleppt því ef þú ætlar ekki að gera það almennilega.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Flestum helgum er varið í útihúsunum, en okkur er boðið í þrítugsafmæli hjá tveimur eðaldrengjum á föstudagskvöld.
Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is