Stokkseyringurinn Silja Hrund Einarsdóttir er einn vinsælasti jógakennari Suðurlands. Hún hefur kennt Hot Yoga flæði og Yin Yoga í World Class á Selfossi við góðan orðstír síðan hún flutti heim frá Montreal í Kanada árið 2023. Silja Hrund á og rekur einnig kaffihúsið Konungskaffi á Selfossi ásamt eiginmanni sínum, Kristjáni Eldjárn Þóroddssyni, en kaffihúsið er þekkt fyrir einstaklega góða þjónustu og fallegar og bragðgóðar veitingar. Silja Hrund er Sunnlendingur vikunnar að þessu sinni.

Fullt nafn: Silja Hrund Einarsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Fæddist 10. febrúar 1980 á Selfossi og ólst upp á Stokkseyri.
Fjölskylduhagir: Ég er gift Selfyssingum Kristjáni Eldjárn Þóroddssyni og eigum við tvö börn, Elvar Eldjárn 18 ára og Elínu Eriku 11 ára.
Hverra manna ertu: Foreldrar mínir eru Einar Páll Bjarnason, ættaður frá Súðavík og Hólmfríður Hlíf Steinþórsdóttir frá Stokkseyri.
Menntun: B.Sc. í Umhverfis- og byggingarverkfræði, jógakennari.
Atvinna: Eigandi og starfsmaður á Konungskaffi, í fallega miðbæ Selfoss, og svo kenni ég jóga í World Class á Selfossi og einnig prívat.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ég á margar uppáhalds og ég les mikið. A New Earth eftir Eckhart Tolle hafði mikil áhrif á mig þegar ég las hana fyrst og ég man ég hugsaði þá hvað ég vildi að ég hefði uppgötvað hana fyrr.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég er afar léleg að horfa á sjónvarp en planið er að verða betri í því en það hefur ekki tekist ennþá. En ég horfi yfirleitt á Gísla Martein á föstudagskvöldum með föstudagspizzunni. Áfram línuleg dagskrá!
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Dirty Dancing og enn skemmtilegra að horfa á hana núna með stelpunni minni sem elskar að dansa.
Te eða kaffi: Kaffi gerir allt betra – er oft spennt að fara að sofa á kvöldin, bara til að vakna og fá mér góðan bolla á Konungskaffi.
Uppáhalds árstími: Íslenskt sumar þegar það lætur sjá sig. En í Montreal, þar sem við bjuggum, þá voru haustin uppáhalds, þá var ennþá heitt og gott veður og haustlitirnir extra fallegir.
Besta líkamsræktin: Jóga, veit ekki hvar ég væri ef ég hefði ekki jógað. Elska líka hlaup og gönguskíði og svo er göngutúr alltaf góð hugmynd.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Ég á það til að gera sömu réttina aftur og aftur en er undanfarið búin að vera meðvitað að prófa og bæta inn nýjum uppskriftum. Ég finn líka ákveðna hugleiðslu í eldhúsinu þegar ég gef mér tíma, kveiki á kertum og nostra við matinn. En það sem ég er oftast beðin um að gera er grænmetislasagna og rjómapasta. Annars eldar maðurinn minn besta matinn, enda lærður kokkur, svo hann hefur meira séð um eldamennskuna á heimilinu og ég um eftirréttina og baksturinn.
Við hvað ertu hræddur: Myrkrið.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Vakna yfirleitt um 7:00 en svo er misjafnt hvað það tekur mig langan tíma að koma mér á fætur.
Hvað gerir þú til að slaka á: Baka, prjóna, fer í sund og gufu, ligg í baði og les bækur. En það sem hefur hjálpað mér mest við að hægja á mér og róa mig niður er að iðka Yin Yoga.
Hvað finnst þér vanmetið: Gott knús.
En ofmetið: Sjónvarp.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Total Eclipse of The Heart er kareokí lagið mitt en þegar ég heyri það lag þá á ég erfitt með að halda aftur af mér og brest yfirleitt í söng og dans.
Besta lyktin: Nýslegið gras, eitthvað nýbakað úr ofninum og af einhverjum ástæðum bensínlykt.
Bað eða sturta: Bæði betra en ég elska að fara í bað og vorkenni smá þeim sem hafa ekki aðgang að baðkari heima hjá sér.
Leiðinlegasta húsverkið: Mér finnst ekkert sérstaklega gaman að brjóta saman þvott.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Þetta líður hjá.
Nátthrafn eða morgunhani: Get verið bæði en er hægt og rólega að reyna að breytast í hvorugt. Er farin að njóta þess að fara fyrr og fyrr að sofa á kvöldin og reyni núna að vakna eins seint og ég get enda ekkert mikilvægara en góður svefn
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Fyrir utan Stokkseyrarfjöru, fallegustu fjöru landsins, þá eru Vestfirðir í miklu uppáhaldi. En erlendis þá kemur upp í hugann þegar við fjölskyldan ferðuðumst um Rocky Monuntains í Kanada. Þetta var í Covid og við ferðuðumst um á húsbíl og höfðum staðina nánast út af fyrir okkur, staðir sem vanalega eru troðfullir af túristum. Við sáum ótal fallega staði í þessari ferð en það sem stóð upp úr var Moraine Lake og Banff.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Óheiðarleiki.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég lendi ansi oft í einhverju neyðarlegu, til dæmis flaug ég á hausinn fyrir nokkrum dögum síðan og lenti ofan í risastórum polli og sat bara þar rennandi blaut. Fékk svo mikið hláturskast að ég átti í erfiðleikum með að standa upp. Var á leiðinni í vinnuna en þurfti að fara heim og skipta um föt frá toppi til táar.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég er enn að reyna að finna út úr því.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Ása Ninna vinkona mín en hún er ekki hægt, hún er svo fyndin. Þau eru ófá hlátursköstin sem við eigum saman daglega en það er ómetanlegt að hafa þannig fólk í kringum sig.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Dettur enginn í hug akkúrat núna.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég yrði að nýta daginn vel en ég myndi að sjálfsögðu koma frið og ró á allan heiminn, útrýma fátækt og óréttlæti. Myndi líka setja í lög að Ísland fengi alltaf dúndur gott sumar.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég var sjúklega myrkfælin sem barn og unglingur og óttaðist meira en allt að verða yfirgefin. Það gerðist einu sinni, (sönn saga), að mamma og pabbi brugðu sér út í bílskúr eitt kvöld um hásumar eftir að ég var sofnuð. En ég vaknaði upp og varð svo hrædd að ég hringdi í ömmu sem kom á svo mikilli ferð, því hún hélt bara að himinn og jörð væru að farast, þvílík var hræðslan í röddinni minni er ég tilkynnti henni að ég væri ALEIN HEIMA. Sagan segir að hún hafi tekið beygjuna inn í hlaðið okkar á tveimur hjólum til að bjarga mér!
Mesta afrek í lífinu: Hvað ég hef verið dugleg að taka ýmsar U-beygjur í lífinu og breytt t.d. nokkrum sinnum um starfsvettvang. Fór úr því að starfa sem verkfræðingur á verkfræðistofu yfir í að stofna mitt eigið fatamerki og opnaði búð í framhaldinu sem gekk mjög vel. Þar á eftir flutti ég til Montreal í Kanada, þar sem við fjölskyldan bjuggum í rúm 6 ár. Þar naut ég þess að hafa meiri tíma með börnunum mínum, lærði jógakennarann og kenndi þar bæði í jógastúdíói og online ásamt því að vinna á kaffihúsi. Flutti síðan til Íslands fyrir rúmu ári síðan, á Selfoss, og er núna kaffihúsaeigandi og jógakennari.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi ferðast aftur í tímann til að fá að kynnast Gaua bróðir mínum betur. Hann lést aðeins 17 ára gamall.
Lífsmottó: Wherever you are – Be All There!
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Fara í morgunkaffi til mömmu og pabba, vinna á Konungskaffi, kenna jóga, fara í sund og gufu og ef veður leyfir þá er planið að fara í góða göngu. Svo er aldrei að vita nema ég þjófstarti afmælinu mínu og skelli í eina góða marengstertu og bjóði fjölskyldunni í kaffi.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinHarley Willard í Selfoss
Næsta greinTap gegn toppliðinu