Halldór Smárason, tónskáld í Hveragerði, hefur komið víða við í tónlistarlífinu. Hann hefur unnið með þekktum hópum hérlendis og erlendis, meðal annars mörgum af þekktustu kammersveitum heims. Þá hefur Halldór getið sér gott orð sem píanóleikari og útsetjari. Í sumar kemur út hljómplata með verkum hans, STARA, en hún er tekin upp og flutt af færustu listamönnum. Halldór fjármagnar nú útgáfuna með söfnun á Karolina Fund og er hún á lokastigi, þótt enn vanti örlítið uppá.
Fullt nafn: Halldór Smárason.
Fæðingardagur, ár og staður: 3. mars 1989 á Ísafirði.
Fjölskylduhagir: Trúlofaður Thelmu Lind Guðmundsdóttur og eigum við tvo syni, Óliver Mugg og Hagalín Smára.
Menntun: Mastersgráða í klassískum tónsmíðum frá Manhattan School of Music.
Atvinna: Tónskáld og píanóleikari, m.a. í hljómsveitinni Albatross.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ég vildi að ég gæfi mér meiri tíma til lesturs og er markmiðið að bæta úr því á árinu. Nýlega lauk ég við Lífsreglurnar fjórar eftir Don Miguel Ruiz og þar áður Reyndu aftur, ævisögu Magga Eiríks. Mjög ólíkar bækur en inspirerandi. Sem tónskáld reyni ég reglulega að grípa í ljóðabækur þar sem þær skilja eftir mikið rými til sköpunar. Af nýlegum dæmum ber þar hæst Ljóð námu völd eftir Sigurð Pálsson. Sú bók sem ég hef þó oftast lesið (fyrir utan barnabækur) er án efa Textures and Timbres eftir Henry Brant. Frábær bók sem ég mæli með fyrir öll tónskáld!
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Horfi ekki mikið á sjónvarp en er gjörsamlega forfallinn RÚV-ari. Eftir að hafa alist upp á afruglaralausu heimili tengist ég enn RÚV tryggðarböndum. Sem barn tók ég upp heilu árgangana af Gettu betur og átti þegar mest lét þrettán VHS-spólur stútfulla af spurningaþáttum. Hver man ekki eftir ógleymanlegum augnablikum eins og þegar Sverrir Teitsson leiðrétti spurningahöfund í úrslitum 2000? Geggjaðir þættir. Útsvarið líka gott. RÚV rokkar.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Sódómu Reykjavík og Með allt á hreinu. Eða bara flestar bíómyndir sem maður fékk með pylsupökkum í 90’sinu.
Te eða kaffi: Forfallinn kaffidrykkjumaður. Vil lítið magn og sterkt. Við eigum forláta espressóvél sem óhreinkar meira en synir okkar til samans. Þegar við erum erlendis höfum við stundum þurft að þræða vafasamar götur í leit að almennilegum kaffibolla. Konan mín hefur mjög sterkar skoðanir á þessari einu fíkn minni.
Uppáhalds árstími: Mér finnst sérhver árstíð sjarmerandi, ekki síst á Íslandi. Hér verða breytingarnar svo sterkar og áberandi. Get ekki valið á milli haustsins, með allri sinni orku og litbrigðum, og vorsins þegar lífið og vonir kvikna á ný.
Besta líkamsræktin: Óvissuskokk í náttúrunni í Hveragerði og jóga.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Speltpizzu með allskonar áleggjum. Lykilatriði er að sulla smá bjór í deigið áður en það hefast.
Við hvað ertu hræddur: Ég er lafhræddur við magapestir. Þær eru það óþægilegasta sem ég veit um. Og sjúkrahús.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Að jafnaði klukkan 7, þó aðeins seinna ef ég kemst upp með það. Það fer helst eftir svefngangi drengjanna okkar.
Hvað gerir þú til að slaka á: Það fer eftir stað og stund. Ég hugleiði daglega sem er mjög slakandi. Stundum stend ég á höndum. Stuttur göngutúr virkar líka vel. Ég sannfæri stundum sjálfan mig að tölvuleikurinn FIFA hafi róandi áhrif á mig – þó að raunin sé allt önnur.
Hvað finnst þér vanmetið: Mér finnst mikilvægi jöfnuðar í samfélaginu vanmetnast. Ég held að jöfnuður sé ein af undirstöðum þess að lifa í samfélagi þar sem friður ríkir og fólk sé hamingjusamt.
En ofmetið: Sú hugsun að peningar færi manni hamingju. Peningar eru nauðsynlegir upp að vissu marki en ég held að enginn sé hamingjusamari að eiga milljarð frekar en 10 milljónir.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Africa með TOTO.
Besta lyktin: Skötulykt, en alls ekki bragð.
Bað eða sturta: Köld sturta eða sjóðheitt bað.
Leiðinlegasta húsverkið: Ryksuga og skúra.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að standa með ákvörðunum sínum hverju sinni og lifa ekki í eftirsjá.
Nátthrafn eða morgunhani: Var ávallt nátthrafn en feta fimlega fullorðinsstíginn í átt að meiri morgunfíling.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Líklega Grunnavík í Jökulfjörðum, þar sem pabbi ólst upp. Erlendis er það Civitella Ranieri listamannaresidensían í Umbria.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Óréttlæti og þegar ég bregst sjálfum mér. Og náttúrulega tilhæfulaus enharmónísk nótnaskrift.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég er nýfluttur í Hveragerði og stend í röð á bæjarskrifstofunni til að nálgast sorphirðumiða. Fyrir framan mig í röðinni rekst ég á Bryndísi systur föður míns, knúsa hana með virtum og spyr hvað sé að frétta. Sex sekúndum síðar sný ég mér að ritaraborðinu og áttaði mig á að ég var að knúsa Jónínu Ben – sem ég þekki ekki eins vel. Jónína var þó hin almennilegasta og tók vel í knús og „small talk“.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Flugumferðarstjóri. Var heillaður af flugi en of lofthræddur til að fara í djobbið um borð. Fljótlega tók þó músíkin yfir.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Mér finnst oftast það fólk fyndnast sem reynir það minnst. Thelma konan mín er gott dæmi um það, hún er lúmskfyndnasta manneskja sem ég þekki. Pabbi er aftur á móti dæmi um mann sem reynir að vera fyndinn, en það versta er að enginn fattar brandarana hans nema ég. Þau tvö verma því toppsætið.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ætli ég myndi ekki velja John Lennon, til að fá að skyggnast inn í hans hugarheim.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég taka frídag og leggja mig.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Frá því ég var lítill hef ég gjörsamlega elskað Eurovision. Á hverju ári tökum við vinirnir hina svokölluðu Eurovision-syrpu, með öllum íslenskum framlögum sem keppt hafa frá 1986, en eðli málsins samkvæmt lengist syrpan ár frá ári. Ég sendi inn tvö lög í undankeppnina þegar ég var 12 ára, einn daginn reyni ég aftur.
Mesta afrek í lífinu: Drengirnir mínir, eiga fjölskyldu og að starfa við það sem ég elska.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi líklega ferðast til Vínarborgar á fyrstu árum 20. aldar og upplifa þann suðupott hugmynda sem þar grasseraði. Á þessum tíma var seinni Vínarskólinn allsráðandi í tónlist með Arnold Schönberg, Alban Berg og Anton Webern í framvarðarsveit. Á tímabili bjuggu einnig Hitler, Trotskí, Freud og Stalín allir í Vín. Ótrúlegur tími.
Lífsmottó: Vera þakklátur fyrir það sem mér er gefið og njóta þess að hafa tilgang.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Aldrei þessu vant er fríhelgi í spilamennsku og því ætla ég að njóta helgarinnar í faðmi fjölskyldunnar. Við munum taka lægðunum fagnandi og hanga inni, og ef ég fæ að ráða – horfa á RÚV.
Smelltu hér til að leggja Halldóri lið á Karolina Fund
Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is