Nýlega tók Karen María Gestsdóttir við starfi framkvæmdastjóra hjá Hestamannafélaginu Jökli í uppsveitum Árnessýslu. Karen María rekur tamningastöð á Torfastöðum ásamt sínum manni og hefur starfað í stjórn Reiðhallarinnar á Flúðum, þannig að hún er vel kunnug starfi Jökuls. Karen María er Sunnlendingur vikunnar.

Fullt nafn: Karen María Gestsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Á þeim góða degi 24. mars 1996 í Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Í sambandi með Finni Jóhannessyni.
Hverra manna ertu: Foreldrar mínir eru þau Gestur Hjaltason frá Selfossi og Sólveig R. Kristinsdóttir frá Hafnarfirði.
Menntun: Viðskiptafræðingur frá HÍ.
Atvinna: Vinn á skrifstofunni á Hótel Geysi og er framkvæmdastjóri Hestamannafélagsins Jökuls.
Besta bók sem þú hefur lesið: Lífsreglurnar fjórar.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ætli ég verði ekki að segja Friends þar sem það er búið að vera í gangi í nokkur ár hjá mér. En Peaky Blinders og Game of Thrones eru framarlega í flokki líka.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: 8 Mile.
Te eða kaffi: Klárlega kaffi, en myndi samt alltaf frekar velja Collab.
Uppáhalds árstími: Vetur, það jafnast ekkert á við nýfallinn snjó og bjart veður. En svo er íslenska sumarið líka engu líkt.
Besta líkamsræktin: Gott útihlaup.
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég held að ég eldi aldrei það sama, nota aldrei uppskriftir, þannig að ætli ég sé ekki bara best í að bulla eitthvað gómsætt.
Við hvað ertu hrædd: Ánamaðka, grínlaust.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Í draumaheimi langar mig að segja alltaf á réttum tíma, en það er oftast 5 mínútum of seint.
Hvað gerir þú til að slaka á: Það er voða fátt sem fær mig til að slaka almennilega á en ætli það sé ekki bara góður reiðtúr í góðum félagsskap.
Hvað finnst þér vanmetið: Afgangar.
En ofmetið: Tenerife.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Örugglega flest lögin með Queen.
Besta lyktin: Nýslegið gras ilmar rosalega vel.
Bað eða sturta: Sturta því hún tekur styttri tíma.
Leiðinlegasta húsverkið: Klárlega að ganga frá þvotti.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Fyrir svona ofhugsara eins og mig verð ég að segja „maður á bara að hafa áhyggjur af hlutunum einu sinni“.
Nátthrafn eða morgunhani: Sitt lítið af hvoru, líklegast meiri nátthrafn samt.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Án efa Reynivellir í Suðursveit og bara allt Suð-Austurland á Íslandi en svo er það Fiji fyrir utan landsteinana.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Þegar fólk tekur sér óþarflega langan tíma í að framkvæma auðveldustu verk. Skrifast á óþolinmæði mína.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég var í Róm að skoða Colosseum og þurfti að nota almenningssalerni. Ég var klædd í samfesting og þeir sem klæðast þannig vita að maður þarf að fara alveg úr og skarta Evuklæðunum meðan maður er á klósettinu, mjög smart. Það vildi ekki betur til en að hurðin, sem var rafmagnsstýrð, opnaðist á meðan ég sat í sakleysi mínu á klósettinu og ég var því til sýnis öllum sem þarna voru. Svo kunni ég auðvitað ekkert að loka hurðinni aftur.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég og Ágústa Margrét, besta vinkona mín, vorum með nokkar tillögur. Ein var að opna hárgreiðslustofu í tónlistarskólanum á Selfossi og hin var að opna ísbúð í London. Hver veit nema þessir draumar rætist einn daginn.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Ari Eldjárn er sniðugur.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Það væri áhugavert að vera mamma þegar hún var að ala mig upp á mestu gelgjunni.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Instagram líklegast.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Koma friði á heiminn að sjálfsögðu og hafa alla í stuði.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég á mjög erfitt með að vera ein með sjálfri mér, þarf aðeins að stúdera það.
Mesta afrek í lífinu: Ætli það sé ekki bara að vera á þeim stað sem ég er í dag og eiga marga góða að.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég væri til í að fara á Live Aid á Wembley 1985 og hlusta á góðvini mína í Queen.
Lífsmottó: “Þú geymir ekki gott veður”. Setning sem pabbi minnir mig reglulega á og á við um svo margt í lífinu.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Það er örugglega hesthúsið, jólastúss og eitthvað stuð.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinÍslenski þjóðbúningurinn vekur mikla athygli
Næsta greinRafmagnslaust í hluta Landahverfisins