Lilja Einarsdóttir var í haust ráðin hjúkrunarforstjóri á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Lundi á Hellu og tók við starfinu þann 1. nóvember síðastliðinn. Lilja situr einnig í sveitarstjórn Rangárþings eystra og var sveitarstjóri á síðasta kjörtímabili. Hún býr á Hvolsvelli, sem hún segir yndislegan stað til að ala upp börn og gott að búa.

Fullt nafn: Lilja Einarsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Ég er fædd á Selfossi 4. febrúar 1973.
Fjölskylduhagir: Ég er gift Sveini Kristjáni Rúnarssyni aðstoðaryfirlögregluþjóni hjá lögreglunni á Suðurlandi. Við eigum þrjú uppkomin börn, tvö tengdabörn og eitt barnabarn. Saman búum við á Hvolsvelli og höfum gert sl. 18 ár. Við erum reyndar bæði fædd þar og uppalin sem börn. Þess vegna áváðum við að flytja þangað aftur eftir að yngsta dóttir okkar fæddist. Þar er yndislegt að ala upp börn og gott að búa.
Menntun: Ég er hjúkrunarfræðingur að mennt og er nú um þessar mundir að skapa mér svigrúm til að vinna mastersverkefnið mitt í opinberri stjórnsýslu, en ég er búin að dunda mér við það undanfarin ár að ljúka því námi.
Atvinna: Ég starfa sem hjúkrunarforstjóri á Lundi, hjúkrunar- og dvalarheimili á Hellu. Ég tók við því starfi núna þann 1. nóvember sl. og nýt þess mjög að kynnast því yndislega fólki sem þar annaðhvort býr eða starfar, enda alveg einstakur hópur.
Besta bók sem þú hefur lesið: Það er erfitt að segja. Ég hef alltaf lesið mjög mikið frá því ég man eftir mér. Ég man enn hvað ég gat hlegið ein með sjálfri mér þegar ég las Önnu í Grænuhlíð, þá gamlar og snjáðar bækur frá mömmu. Held að ég hafi þá verið 10-11 ára gömul. En ég held að ég verði að segja að Dalalíf eftir Guðrúnu frá Lundi standi uppúr. Þær eru alger klassík sem ég kom þó ekki í verk að lesa fyrr en fyrir svona 4 árum.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég horfi nú ekki mikið á sjónvarp, vil gjarnan nýta tímann minn í eitthvað annað svo ef ég horfi á einhverja sjónvarpsþætti er það frekar til að horfa á eitthvað sem dætur mínar eða eiginmaður hafa verið að fylgjast með.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Einu myndirnar sem ég get horft á oftar en einu sinni eru jólamyndir eins og The Holiday eða Love Actually, það bara tilheyrir jólaundirbúningnum. En svo er reyndar ein mynd sem ég veit að fólkið mitt myndi hlæja ef ég myndi ekki minnast á en það er The Green Mile sem Tom Hanks lék í fyrir um það bil 100 árum – en já hana get ég horft á aftur og aftur.
Te eða kaffi: Kaffi, engin spurning. Hef margsinnis reynt að venja mig af því en ég held að það sé borin von.
Uppáhalds árstími: Það hefur hver sinn árstími sinn sjarma, en við skulum segja að ég kann að meta alvöru sumar og alvöru vetur.
Besta líkamsræktin: Allra best er að hún sé sem fjölbreyttust. Ég hef gaman af yoga, göngu, skíðum, sundi og eiginlega bara öllu sem maður getur stundað á eigin forsendum. Ég er ekki keppnismanneskja þegar það kemur að íþróttum eða hreyfingu, lít fyrst og fremst á það sem heilsueflingu og sjálfrækt.
Hvaða rétt ertu best að elda: Það fer mér mikið betur að borða góða rétti en að elda þá, mér finnst ekkert sérstaklega skemmtilegt að elda. En við hjónin hjálpumst alltaf mjög mikið að í eldhúsinu og þar höfum við hvort okkar styrkleika svo útkoman er oft ágæt.
Við hvað ertu hrædd: Ég er frekar lofthrædd og ég er skíthrædd við hunda, eins vandræðalegt og það nú er.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Ég vakna nú frekar snemma, en oftast á bilinu 6-7. Ég kann vel að meta morgnana og hef í gegnum tíðina nýtt tímann frá 6-7 til að stunda líkamsrækt, finnst það besti tíminn til að rækta líkama og sál. Þá fer maður svo ferskur út í daginn.
Hvað gerir þú til að slaka á: Ég finn nú mestu hugarróna heima hjá mér, annað hvort með fjölskyldunni eða bara ein. Stundum er ég dugleg að hugleiða, stundum er góð gönguferð málið, góð bók eða jafnvel hljóðbók og prjónarnir.
Hvað finnst þér vanmetið: Traust og heiðarleiki.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Eiginlega öll íslensk tónlist frá því ég var um tvítugt, þá dett ég í einhvern gír.
Besta lyktin: Vanilla.
Bað eða sturta: Bæði lífsnauðsynleg.
Leiðinlegasta húsverkið: Að strauja.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Það er frá ömmu minni heitinni. Hún sagði mér einhverntíma að ef maður gæti ekki sofið þá væri besta ráðið að fara frammúr, láta sér verða kalt og þá sofnar maður fljótt og vel þegar maður leggst aftur í hlýtt rúm. Einhverra hluta vegna gleymi ég þessu aldrei og þetta virkar. En svo á ég líka einstaklega úrræðagóða mágkonu hana Maríu Sif, hún er snillingur í að finna lausn á hverju sem er í hvaða aðstæðum sem er. Það er svo ótal margt sem ég hef tekið upp eftir henni að það er ekki nokkur leið að telja það upp.
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Veit það hreinlega ekki en ég elska að vera úti í íslenskri náttúru í góðu veðri. Þá er það ekki bara fegurðin sem augun nema heldur heildaráhrifin sem maður verður fyrir. Svo er það eitthvað við snjó, frost og sól – sú blanda er ómótstæðileg að mínu mati.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Óheiðarleiki.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Æ, ég er alltaf að lenda í einhverju og ekkert sem dettur í kollinn á mér akkúrat núna. Er bara búin að læra að hlæja að svoleiðis atvikum, svo sennilega er það þess vegna sem ekkert stendur uppúr.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Eitthvað sem ég næ sennilega aldrei, af því ég verð líklega ekki stór úr þessu.
Fyndnasta manneskja sem þú veist um: Engin sérstök, en mér finnst dásamlegt að hlæja, það er svo endurnærandi. Sennilega hlæ ég mest og innilegast þegar við systkinin hittumst á góðri stund og rifjum upp gamlar og góðar sögur.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Pass, ég er bara ánægð að vera sú sem ég er og hef ekki verið að láta mig dreyma um neitt annað.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook held ég að hafi vinninginn.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Myndi ég koma á friði í heiminum.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Mér finnst mjög gaman að spila tölvuleiki við aðra og börnin mín þola það ekki að spila við mig. Auk þess er ég alveg ómögulegur spilari og næ engri færni í þessari iðju. En stundum fæ ég einhvern af yngri kynslóðinni til að aumka sig yfir mig og spila nokkra leiki við mig.
Mesta afrek í lífinu: Að vera mamma og amma. Það er ekkert betra en að horfa á börnin sín vinna sigra í lífinu og fá að fylgjast með því sem þau taka sér fyrir hendur.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Hvorugt.
Lífsmottó: Að gefast aldrei upp þó að á móti blási – jafnvel þó að það sé mjög freistandi.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Passa ömmustelpuna mína hana Heiðdísi Birnu og njóta aðventunnar, það er svo dásamlegur tími.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinMargar hendur vinna létt verk
Næsta greinGestirnir sterkari í seinni hálfleik