Aldrei í sögu skólans hafa fleiri nemendur útskrifast frá Fjölbrautaskóla Suðurlands í einu lagi eins og við brautskráningu þaðan á dögunum. Dúx skólans að þessu sinni varð Selfyssingurinn Heiðar Snær Bjarnason, sem hlaut auk þess viðurkenningu fyrir afburða námsárangur í rafvirkjun og viðurkenningu og fjárstyrk Hollvarðasamtaka skólans. Heiðar Snær er Sunnlendingur vikunnar.
Fullt nafn: Heiðar Snær Bjarnason.
Fæðingardagur, ár og staður: Fæddur á Selfossi 11. desember 2004.
Fjölskylduhagir: Foreldrar mínir heita Bjarni Ingimarsson og Valgerður Rún Heiðarsdóttir. Ég tvo yngri bræður sem heita Bjarni Valur, 17 ára og Brynjar Ingi, 11 ára. Síðan á ég kærustu sem heitir Emelía Sif Sveinbjörnsdóttir.
Menntun: Var að klára rafvirkjabraut í FSu en á eftir að klára stúdentspróf sem ég stefni á að klára á næstu önn.
Atvinna: Golfvallarstarfsmaður og þjálfari hjá Golfklúbbi Selfoss.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ég les því miður lítið en ef ég myndi velja einhverja bók væri það líklega Tár, bros og takkaskór.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Hawaii Five-0.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Get horft aftur og aftur á allar Fast and Furious myndirnar en ef ég þyrfti að velja eina mynd væri það líklega The Wolf of Wall Street.
Te eða kaffi: Kaffi.
Uppáhalds árstími: Sumar, eða vetur þegar það er mikill snjór.
Besta líkamsræktin: Golf, að lyfta og fara á skíði.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Pastarétti.
Við hvað ertu hræddur: Eitursnáka.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Núna vakna ég kl. 6:30 til þess að mæta í vinnuna kl. 7:00.
Hvað gerir þú til að slaka á: Fer í sund eða heita pottinn.
Hvað finnst þér vanmetið: Vinnan hjá snjómokstursbílstjórum.
En ofmetið: Candy Crush leikurinn.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Rockin’ með The Weeknd.
Besta lyktin: Lyktin af kærustunni.
Bað eða sturta: Bað.
Leiðinlegasta húsverkið: Að ryksuga.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að prófa iðnnám.
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Þórsmörk.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Þegar fólk gerir einfalda hluti flókna. Ég geri allt of mikið af því sjálfur.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Það er líklega þegar ég datt úr stúku í íþróttatíma í 8. bekk og handleggsbrotnaði illa á vinstri hendi. Höndin tók vinkilbeygju. Það vandræðalegasta eftir á að hyggja var þegar ég stóð upp, horfði á hendina mína og öskraði yfir allan íþróttasalinn „HÚN ER BROTIN!“. Félagar mínir eru ennþá að fíflast í mér með þetta í dag.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Slökkviliðsmaður.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Almar, sem er einn af mínum bestu vinum.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Myndi velja einhvern af mínum uppáhalds atvinnukylfingum, annað hvort Rory Mcllroy eða John Rahm. Vel þá því mig langar að upplifa hvernig það er að vera einn af bestu kylfingum í heimi á PGA tour.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Snapchat.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Myndi gera alla golfvelli PGA tour hæfa.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég tel mig vera frekar mikinn sveitastrák. Finnst mjög gaman vera upp í sveit og ferðast á Íslandi.
Mesta afrek í lífinu: Að verða valin í landsliðshóp U18 ára í golfi.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi ferðast aftur í tímann og horfa á Tiger Woods vinna sitt fyrsta Mastersmót, sem er eitt af stærstu golfmótum í heimi.
Lífsmottó: Góð lína úr hlaðvarpinu Beint í bílinn: Upp upp og áfram.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Er að fara keppa á GSÍ mótaröðinni í golfi. Mótið er haldið í Mosfellsbæ.
Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is