Sr. Kristján Arason tók við starfi sóknarprests í Breiðabólsstaðarprestakalli þann 1. nóvember síðastliðinn. Kristján hefur starfað sem sóknarprestur í Patreksfjarðarprestakalli síðan 2018 auk þess að hafa setið í stjórn margra félagasamtaka og starfað sem varðstjóri í slökkviliði Vesturbyggðar. Nú er hann kominn aftur í Rangárþing, þar sem hann mun þjóna í Stórólfshvolssókn, Breiðabólsstaðarsókn, Hlíðarendasókn, Akureyjarsókn og Krosssókn.

Fullt nafn: Kristján Arason.
Fæðingardagur, ár og staður: Fæddur 31. ágúst 1991 á Selfossi.
Fjölskylduhagir: Ég er giftur Evu Sóleyju Þorkelsdóttur frá Mel á Mýrum og saman eigum við þrjú börn; Birkir Daði 9 ára, Sóldís Klara 6 ára og Haraldur Heikir 3 ára.
Hverra manna ertu: Ég er Rangæingur, foreldrar mínir eru Anna María Kristjánsdóttir og Ari Árnason sem lengst af voru bændur á Helluvaði á Rangárvöllum.
Menntun: Ég er með stúdentspróf frá FSu, embættispróf í guðfræði frá HÍ og er löggiltur slökkviliðsmaður.
Atvinna: Ég er nýtekinn við starfi sóknarprests í Breiðabólstaðarprestakalli. Þjónaði Patreksfjarðarprestakalli frá 2018.
Besta bók sem þú hefur lesið: Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson er í miklu uppáhaldi.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Chernobyl eru ekkert eðlilega góðir þættir.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Þegar ég var lítill gat ég horft á Space Jam á hverjum degi. Nú held ég að ég fengi mig ekki til að horfa oft á sömu myndina.
Te eða kaffi: Eftir að ég varð prestur, varð ég að læra að drekka kaffi. Enn ég drekk það aldrei einn.
Uppáhalds árstími: Sumarið er tíminn.
Besta líkamsræktin: Körfubolti hefur alltaf verið uppáhalds. Annars hafa fjallgöngur komið sterkar inn síðustu árin.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Samkvæmt börnunum mínum er það hakk og spaghetti og yrði það eldað a.m.k. þrisvar í viku, fengju þau að ráða.
Við hvað ertu hræddur: Geitungar var það fyrsta sem mér datt í hug.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Flesta daga um klukkan 7.
Hvað gerir þú til að slaka á: Fer í göngutúr með gott hlaðvarp í eyrunum.
Hvað finnst þér vanmetið: Rútína.
En ofmetið: Að djamma.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Surfin Bird – The Trashmen
Besta lyktin: Besta lykt sem ég hef fundið var af börnunum mínum þegar þau voru nýfædd.
Bað eða sturta: Ég fer nú oftar í sturtu en köld böð eru dásamleg.
Leiðinlegasta húsverkið: Uppvaskið.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Heilsaðu öllum með nafni.
Nátthrafn eða morgunhani: Eiginlega hvorugt. Í seinni tíð þó meira fyrir það að vakna snemma enn að fara seint að sofa.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Að öðrum stöðum ólöstuðum þá er Rauðasandur í miklu uppáhaldi.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Það kemst held ég ekkert nálægt því að gera mig jafn pirraðan og þegar ég bít í kinnina á mér.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Það er eitthvað nýtt á hverjum degi!
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Atvinnumaður í körfubolta.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Dóttir mín Sóldís Klara getur alltaf komið mér til að hlæja.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Örugglega LeBron James, bara af því mig langaði alltaf að vera svo góður í körfubolta.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Ég er nú ekki mikill samfélagsmiðla maður en ætli ég noti ekki Facebook lang mest.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Myndi ég örugglega klúðra öllu.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég svæfði sjálfan mig á hverju kvöldi sem ungur drengur með því að þylja margföldunartöfluna.
Mesta afrek í lífinu: Að stofna fjölskyldu.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ætli ég myndi ekki helst vilja upplifa fæðingu barnanna minna aftur.
Lífsmottó: Undirbúðu þig þannig fyrir verkefni að þú sért sannfærður um að þú getir gert hlutina vel. Þá hverfur stressið.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Vonandi eitthvað skemmtilegt!


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinBox800 flytur í þrefalt stærra rými
Næsta greinStöðvaður á 163 km/klst hraða