Mýrdælingurinn Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir fer með eitt af aðalhlutverkunum í þáttaröðinni Systrabönd, sem frumsýnd var í Sjónvarpi Símans um páskana. Systrabönd hefur hlotið gríðarleg viðbrögð og jákvæða dóma úr öllum áttum. Auk þess að leika eitt aðalhlutverkanna er Jóhanna Friðrika einn af handritshöfundum þáttanna.
Fullt nafn: Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 4. maí, 1980 í Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Við erum pínkulítil fjölskylda ég og sonur minn 1,5 árs.
Menntun: Stúdentspróf frá Menntaskólanum að Laugarvatni, BA-próf í leiklist frá LHÍ og MA- próf í ritlist frá Háskóla Íslands.
Atvinna: Það fer eftir því hvenær þú spyrð mig, hef undanfarin ár mest unnið við handritaskrif, leiklist og kokkamennsku. Ég elska að gefa fólki að borða.
Besta bók sem þú hefur lesið: Úfff… mjög erfið spurning það eru svo margar bækur sem mér finnst vera bestu bækur sem ég hef lesið akkúrat þegar ég er að lesa þær. En fyrst ég verð að nefna einhverjar þá er það sem mér dettur í hug akkúrat núna: Fræ sem frjóvga myrkrið eftir Evu Rún Snorradóttur, Blátt blóð eftir Oddnýju Eir Ævarsdóttur, Ljóð muna rödd eftir Sigurð Pálsson, allt sem prentað hefur verið eftir Jón Kalman og Dalalíf eftir Guðrúnu frá Lundi.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Uppáhaldssjónvarpsþátturinn minn í augnablikinu er auðvitað Systrabönd. En annars hef ég alveg agalega gaman af sjónvarpsefni um marglaga konur, þá dettur mér helst í hug að nefna það sem ég hef horft á nýlega sem er Hjem til jul, Love & Anarchy og Elska mig. Allt sjónvarpsefni um ansi hreint spennandi konur.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Stellu í orlofi, fæ ekki nóg.
Te eða kaffi: Eiginlega alltaf kaffi. En samt er te svo agalega gott akkúrat þegar stundin er rétt fyrir það.
Uppáhalds árstími: Vorið. Þá á ég afmæli, lömbin fæðast, grasið verður grænt, lóan og allir hinir fuglarnir koma, dagurinn lengist, allt lifnar við og þar með talið ég þegar ég gramsa eftir þunnu fötunum mínum og sterka varalitnum.
Besta líkamsræktin: Ganga, ganga og ganga helst nálægt sjónum og þefa af þanginu.
Hvaða rétt ertu best að elda: Er ansi grobbin með mig þegar kemur að matseld, finnst ég gera nokkra rétti bara nákvæmlega eins og á að gera þá. Í dag langar mig að segja kræklingur, hef ekki enn bragðað krækling betri enn þann sem við eldum í Flatey. Geggjaður.
Við hvað ertu hrædd: Mjög margt, ég var t.d. hrædd um daginn í öllum jarðskjálftunum, ég er mjög oft hrædd um að vera að gleyma einhverju eins og til dæmis að skila þessum spurningalista.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Sonur minn er vekur mig yfirleitt með kossi um sjö leytið, dásamleg aðferð til að vakna.
Hvað gerir þú til að slaka á: Fer í spa, anda og horfi á sjóinn.
Hvað finnst þér vanmetið: Heimilisstörf, djöfull er mikið mál að halda heimili í þokkalegu standi. Getum við plís bara öll farið að viðurkenna það.
En ofmetið: Allar matvörur sem framleiddar eru í þeim eina tilgangi að gera matseld fljótlega. Gott dæmi um þetta eru forsoðnar kartöflur. Allt sem er gott á að taka tíma.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Mig langar að segja gamla góða syrpan með Skítamóral til að heilla aðra Sunnlendinga sem mögulega eru að lesa þetta og af því hún klikkar aldrei. Annars er það eina sem sonur minn fæst til að horfa á þessa dagana er tónlistarmyndbandið við nýja Júróvísíon lagið hans Daða, svo virðist sem það komi mér líka alltaf í stuð þrátt fyrir síendurtekna hlustun.
Besta lyktin: Lykt af sjóböðuðu hári.
Bað eða sturta: Bað og bað og bað og bað, alltaf skal það vera bað. Ég elska bað.
Leiðinlegasta húsverkið: Get eiginlega ekki gert uppá milli þess að ganga frá þvotti eða ryksuga. Er mikið að hugsa um ryksuguróbót þessa dagana og pæla, veit bara ekki hvort það er mögulega ofmetið.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Alveg sama hvað þú reynir það mun ekki alltaf öllum líka vel við þig.
Nátthrafn eða morgunhani: Einu sinni nátthrafn nýlegur morgunhani.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Úúllallala, erfið spurning, ég á ansi erfitt með að gera uppá milli útsýnisins úr eldhúsinu á Hótel Flatey og fjárhúsinu heima í Höfða í Eyjafirði. Held ég verði að segja bæði.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Fólk sem er dónalegt við þjóna, hvað gólfið heima hjá mér er fljótt að verða skítugt og hin endalausa hringrás þvottsins.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Að hlaupa í einhverju hvatvísiskasti á eftir þáverandi forseta Íslands Ólafi Ragnari Grímssyni og kalla: HERRA FORSETI HERRA FORSETI… og svo þegar hann stoppaði þá mundi ég ekkert hvað ég ætlaði að segja við hann það kom löng þögn og til að reyna að redda mér þá sagði ég: bestu kveðjur á Dorrit, eins og þetta væri niðurlag á e-maili. Reyndi svo að ganga hnarreist í burtu.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ljósmóðir eða trukkabílstjóri.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Anna Svava Knútsdóttir.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég myndi vilja vera covid veiran og taka ákvörðun um að deyja út og verða svo þyrluflugmaður og bjóða öllum vinum mínum í þyrluflug að skoða gosið og fljúga með þá alla út í Flatey eftir á og halda risapartý þar sem allir gætu faðmast og dansað þétt því covid væri farið.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Messenger, ég elska messenger.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég útrýma þjáningu og innleiða fegurð.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég á ekki sjónvarp.
Mesta afrek í lífinu: Kókosbollur, heimagerðar fullkomnar kókosbollur.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi ferðast aftur í tímann og leiðrétta allar þær slæmu mannlegu ákvarðanir sem hafa leitt okkur í loftslagsvandann sem við höfum komið jörðinni okkar í.
Lífsmottó: Hvíld er mikilvæg.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Kubba, baka brauð, hitta vini og fara út að leika.
Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is