Eyrún Jónasdóttir frá Kálfholti í Ásahreppi er stjórnandi kórs Menntaskólans að Laugarvatni. Eyrún og kórinn fengu í liðinni viku Menntaverðlaun Suðurlands 2018 en Samtök sunnlenskra sveitarfélaga veita verðlaunin. Eyrún hefur stjórnar kórnum frá árinu 2011 og undir hennar stjórn hefur starf kórsins vaxið mjög. Síðastliðna tvo vetur hafa um 65% nemenda skólans verið í kórnum og er það líklega einsdæmi að um 2/3 allra nemenda framhaldsskóla séu í kór viðkomandi skóla.

Fullt nafn: Eyrún Jónasdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Fædd á Sjúkrahúsinu á Selfossi 29. júlí 1968.
Heimili: Kálfholt 2 í Ásahreppi.
Fjölskylduhagir: Ég er gift Steingrími Jónssyni og við eigum tvö börn; Kristrúnu 24 ára og Jónas 20 ára.
Menntun: B.Ed. frá Kennaraháskóla Íslands, Söngkennarapróf frá Söngskólanum í Reykjavík og svo lauk ég tveggja ára framhaldsnámi við Tónlistarháskólann Mozarteum í Salzburg.
Atvinna: Nú í vetur stjórna ég fjórum kórum; Kór Menntaskólans að Laugarvatni, Vörðukórnum, Unglingakór Selfosskirkju og Barnakór Selfosskirkju. Auk þess eigum við hjónin og rekum ferðaþjónustufyrirtækið Kálfholt hestaferðir.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ég les nú allt of lítið en mér er minnisstæð bókin „Karitas án titils“ eftir Kristínu Mörju Baldursdóttur.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Friends – algör klassík.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Love Actually, gott að horfa á hana um hver jól. Ég reyndar klikkaði alveg á því núna um jólin.
Te eða kaffi: Kaffi, sterkt og gott. Te svona með fyrir samviskuna.
Uppáhalds árstími: Allar árstíðir hafa sinn sjarma. Vorið er alltaf kærkomið. Sumarið alltaf gott, alveg sama hvernig veður er. Haustið alltaf fullt af rómantík og flottum litum. Veturinn … hann líður hratt.
Besta líkamsræktin: Besta líkamsræktin er klárlega að MÆTA í ræktina og gera eitthvað þar. En auk þess er líka frábær líkamsrækt að fara á hestbak, það eflir líka andann.
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég er svakalega góð að elda allt sem hægt er að elda úr íslensku lambakjöti enda varla hægt að skemma það með eldamennsku.
Við hvað ertu hrædd: Ég var mjög myrkfælin þegar ég var yngri og mér er enn illa við að vera ein í myrkri.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Það er misjafnt eftir því hvernig vinnudagurinn er. Á bilinu 7:00-8:30.
Hvað gerir þú til að slaka á: Ýmislegt; Hlusta á góða tónlist, spjalla við eiginmanninn, fer á hestbak, prjóna, horfi á vel valda kvikmynd, drekk kaffi úti í garði og fleira og fleira.
Hvað finnst þér vanmetið: Hrein íslensk matvæli.
En ofmetið: Innflutt kjöt og grænmeti.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Öll tónlist kemur mér í stuð, ég er því oftast í stuði.
Besta lyktin: Gróðurlykt á vorin og svo af nýslegnu grasi.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Þrífa klósettið.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Það er í lagi að gera mistök því af þeim lærum við hvað mest.
Nátthrafn eða morgunhani: Hvorugt.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Ásbyrgi.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Neikvæðni og sérhlífni.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ekki prenthæft.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég ætlaði alltaf að verða leikkona en fór svo aldrei í inntökupróf. Byrjaði bara í Kennó og þá kynntist ég meðal annarra Jóni Ásgeirssyni. Eftir það varð tónlistin fyrir valinu.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Nokkrir af mínum vinum eru mjög fyndnir ég get ekki tilgreint ákveðin nöfn vegna persónuverndar.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag: Ég gæti kannski orðið núverandi forseti Bandaríkjanna og þá sagt af mér embætti.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi gera hið ómögulega þ.e. útrýma allri mengun heims og endurræsa lífríkið, ég myndi afnema fátækt, misrétti og ofbeldi, koma á heimsfriði og lækna alla sjúka. Spurning um að taka bara daginn snemma…
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég er ekki góð í landafræði.
Mesta afrek í lífinu: Auðvitað börnin mín tvö.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi ekki þiggja þessa tímaflutninga því ég er að æfa mig í því að dvelja í núinu, sem sagt að velta mér ekki uppúr fortíðinni né hafa áhyggjur af framtíðinni.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Vinna.
Lífsmottó: Geri mitt besta!


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinHamar steinlá gegn toppliðinu
Næsta greinFótboltinn farinn að rúlla