Rúnar Hjálmarsson, Umf. Selfoss, hlaut á dögunum hvatningarverðlaun unglingaþjálfara á uppskeruhátíð Frjálsíþróttasambands Íslands. Rúnar er yfirþjálfari frjálsíþróttadeildar Selfoss og þjálfar einnig meistaraflokk. Hann hefur náð virkilega góðum árangri með sínu íþróttafólki en í ár varð HSK/Selfoss Íslandsmeistari í flokki 15-22 ára innan- og utanhúss með talsverðum yfirburðum, þriðja árið í röð. Á uppskeruhátíðinni fékk frjálsíþróttaráð HSK einnig verðlaun fyrir viðburð ársins, sem var MÍ 15-22 ára utanhúss á Selfossi.
Fullt nafn: Rúnar Hjálmarsson.
Fæðingardagur, ár og staður: 23. apríl 1987 á Selfossi.
Fjölskylduhagir: Búsettur á Selfossi ásamt konu minni, Ellen Bachmann Lúðvíksdóttur, og börnunum okkar þrem, þeim Hjálmari Vilhelm, Ingibjörgu Láru og Eysteini Óla.
Hverra manna ertu: Ég er sonur Langsstaðahjónanna Hjálmars Ágústssonar og Ingibjargar Einarsdóttur.
Menntun: Þjálfararéttindi frá ÍSÍ og IAAF frjálsíþróttaþjálfararéttindi.
Atvinna: Yfirþjálfari frjálsíþróttadeildar Selfoss.
Besta bók sem þú hefur lesið: Hrakningar á heiðarvegum eftir Jón Eyþórsson og Pálma Hannesson eru bestu bækur sem ég hef lesið. Gefur manni svo góða sýn á það hversu mikið fólk þurfti að leggja á sig hér á landi fyrir ekkert svo löngu síðan.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég horfi voðalega lítið á sjónvarsþætti en ætli það séu ekki bara Friends.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Shawshank Redemption og Ace Ventura myndirnar hafa orðið ansi oft fyrir valinu.
Te eða kaffi: Kaffi.
Uppáhalds árstími: Ég verð að velja bæði vor og haust. Að gá til kinda snemma morguns á vorin áður en allt ys og þys byrjar, heyra fuglasönginn og finna líf glæðast yfir allt er alveg dásamlegt. Svo er það haustið en það er nú bundið við göngur og réttir og allt sem því fylgir.
Besta líkamsræktin: Frjálsar íþróttir og smalamennskur.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Ég er ansi lunkinn að græja jólamatinn og sósan er hreint út sagt mögnuð en ástæðan fyrir því er ansi skemmtileg. Ég setti óvart rangt hráefni með í sósuna ein jólin sem kom svona ótrúlega vel út og núna er sko ekki hægt að hugsa sér jólamáltíðina án klúðurssósunar.
Við hvað ertu hræddur: Ég er alveg logandi hræddur við Morrann í Múmínálfunum og Skógarnornirnar í Ronju Ræningjadóttur, það bara eldist ekki af mér.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Um 7 leytið svona til að vekja liðið og koma öllum á sína staði, skóla og leikskóla og þess háttar.
Hvað gerir þú til að slaka á: Það er alltaf verið að segja mér að ég kunni það ekki en mér finnst alveg ótrúleg slökun í því að fara í göngur á haustin.
Hvað finnst þér vanmetið: Svefn og að drekka vatn.
En ofmetið: Nocco.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Sódóma kemur mér alltaf í stuð.
Besta lyktin: Það toppar fátt lyktina af glænýjum og skraufaþurrum heybagga.
Bað eða sturta: Sturta og það er ekkert betra en sturturnar í útiklefanum í Sundhöll Selfoss eftir langan dag.
Leiðinlegasta húsverkið: Að þurrka af er alveg svaklega leiðinlegt verkefni.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Ætli það sé ekki þegar hann afi minn, Einar Einarsson í Dalsmynni, var að kenna mér að nota hamar og negla nagla í spýtu. Eftir mikinn djöfulgang og mörg misheppnuð högg sagði hann mér að betra væri að negla eitt gott högg frekar en mörg léleg.
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani frekar en get alveg vakað ef þess þarf.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Arnarfell hið mikla sem stendur í suðaustanverðum Hofsjökli og Laxárgljúfur standa mér nærri í þessum efnum.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Smjatt er ansi pirrandi.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég gleymi því nú alltaf strax sem er nú mikill kostur, nei það kemur ekkert uppí hugann núna.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Tugþrautarmaður eins og frændi minn hann Jón Arnar Magnússon.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Ari Eldjárn og Sóli Hólm eru ágætir en þeir toppa ekki vin minn hann Brynjar Þór Þórmóðsson í Hjálmholti.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég myndi vilja vera Usain Bolt í Berlín 2009 þegar hann setti heimsmetið í 100m hlaupi og hljóp á 9,58 sek. Bara svona til að finna tilfinninguna að hlaupa svona hratt.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Já, maður myndi náttúrulega koma á friði í heiminum og reyna koma á betri jöfnuði í leiðinni.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég er allavega laus við að vera með einhvern leyndan hæfileika og það myndi ekki hvarfla að mér að liggja á einum slíkum.
Mesta afrek í lífinu: Að næla í konuna mína og svo náttúrulega barnaþrennan okkar.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég hugsa að ég myndi nú láta allt svoleiðis eiga sig bara.
Lífsmottó: Ég hef nú leitast við að nota ljóðið Mitt faðir vor eftir Kristján frá Djúpalæk, læt fylgja hér brot úr því.
“Hvar einn leit naktar auðnir,
sér annar blómaskrúð.
Það verður sem þú væntir,
það vex sem að er hlúð.”
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Allskonar jólaundirbúning, skella mér á jólasýningu fimleikadeildar Selfoss og svo náttúrulega skreppa á eitt stykki frjálsíþróttamót.
Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is