Guðmundur Bjarnason í Túni í Flóahreppi er nýkjörinn formaður Samtaka ungra bænda. Tilgangur samtakanna er að sameina unga bændur á Íslandi um hagsmunamál sín og vinna að framgangi þeirra auk þess að vinna að bættri ímynd landbúnaðar með kynningar- og fræðslustarfi.
Fullt nafn: Guðmundur Bjarnason.
Fæðingardagur, ár og staður: 16. mars 1994 á Selfossi.
Fjölskylduhagir: Er trúlofaður Hafdísi Gígju og eigum við saman soninn, Stefán Eðvald.
Menntun: Sveinspróf í rafvirkjun og stunda nú búfræðinám við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Atvinna: Íhlaupa rafvirki með skólanum.
Besta bók sem þú hefur lesið: Námsbækurnar eru helsta lesefnið þessa daganna, fyrir utan þær las ég síðast ævisögu Villa Vill.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég verð að segja This is us, það eru alveg skelfilega vel gerðir þættir.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Reyni að horfa á Die Hard myndirnar yfir jólin.
Te eða kaffi: Kaffi.
Uppáhalds árstími: Sumarið klárlega.
Besta líkamsræktin: Að girða girðingu.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Það sem mér finnst ég gera best er að grilla gott kjöt, gera góða ostasósu og kartöflugratín með því.
Við hvað ertu hræddur: Köngulær, þoli þær ekki.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Þegar ég vakna, ekki mikið fyrr… Flesta daga um hálf átta – þegar Hafdís rekur mig á fætur.
Hvað gerir þú til að slaka á: Ég fer í sund eða leggst uppí sófa og horfi á einhvern þátt.
Hvað finnst þér vanmetið: Landbúnaður, ímynd landbúnaðar á Íslandi.
En ofmetið: Ýmsar yfirlýsingar fjölmiðla og áhrifavalda sem eru byggðar á lélegum eða erlendum heimildum sem eru heimfærðar fyrir Ísland en ekki rannsakaðar hér á landi.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Einn dans við mig – Hemmi Gunn
Besta lyktin: Lyktin af nýslegnu grasi.
Bað eða sturta: Yfirleitt sturta, en það er vegna þess að maður vill ekki að það taki langan tíma. Bað er kannski einu sinni í mánuði ef maður hefur tíma í að gera vel við sig.
Leiðinlegasta húsverkið: Að brjóta saman þvottinn – Konan sér um það verk, en ekki halda því fram að ég taki ekki þátt í húsverkunum.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Komdu fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig.
Nátthrafn eða morgunhani: Nátthrafn, mér finnst mjög gott að sofa.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Það eru svo margir staðir, einn þeirra er þegar ekið er upp á fjallið fyrir ofan Þingeyri og horft yfir Dýrafjörðinn á heiðskírum sumardegi.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Þegar ég þarf að bíða eftir fólki, sem er þversögn á það sem ég geri, því aðrir þurfa mjög oft að bíða eftir mér.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Það er að hafa labbað inn í vitlausan búningsklefa á leiðinni upp úr sundi á táningsaldri.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég var stórhuga ungur maður og breyttist skoðun mín á framtíðarstarfinu mjög ört.
Fyndnasta manneskja sem þú veist um: Upp í hugann kemur Mr. Bean – maður getur alltaf hlegið af klaufaskapnum í honum.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég væri til í að fara aftur í tímann eða þegar afi minn heitinn, Stefán í Túni, var á sínum besta aldri og sjá hvernig hann tókst á við dagleg störf í búrekstri sínum.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég reyna að stöðva stríð, ofbeldi og hungursneyð í heiminum.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég tel mig vera ágætan í að skreyta kökur.
Mesta afrek í lífinu: Stefán Eðvald, sonur minn.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég væri til í að skoða 40-50 ár fram í tímann og sjá hvernig við búum og hvernig landbúnaðurinn á Íslandi verður þá.
Lífsmottó: Gerðu eins vel og þú getur.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Taka því rólega og eyða tíma með fjölskyldu og vinum.
Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is