Það hefur verið nóg um að vera hjá Kristjönu Stefánsdóttur síðustu vikur en hún hefur ferðast um landið með Svavari Knúti á árlegri sumartónleikaferð undir yfirskriftinni Með Faðmlög í farteskinu. Kristjana og Svavar verða í Eyvindartungu við Laugarvatn á föstudagskvöld og í Skyrgerðinni í Hveragerði á laugardagskvöld. Á tónleikunum bæta þau Kristjana og Svavar Knútur fyrir þyngsl vormánaðanna sem skriðu hjá í móki samkomubanns með húmor og hlýju, krúttlegum kvöldsöngvum, angurværum Abbalögum og sígildum söngperlum.
Fullt nafn: Kristjana Stefánsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 25. maí 1968, kl. 18:50 á gamla sjúkrahúsinu á Selfossi. Tvíburi með rísandi sporðdreka og tungl í nauti.
Fjölskylduhagir: Einhleyp og á einn son, Lúkas Nóa 17 ára.
Menntun: Stúdent frá F.Su. Batchelor og kennara gráða í jazzsöng frá Konunglega listaháskólanum í Haag í Hollandi. Stefni alltaf á master í sviðslistum.
Atvinna: Tónlistarkona og tónskáld, aðjúnkt við Sviðslistadeild LHÍ, masterclass kennsla við Tónlistarskóla FÍH og MÍT og lausráðin við Borgarleikhúsið.
Te eða kaffi: Kaffi fyrripart, te á kvöldin.
Besta bók sem þú hefur lesið: Það eru svo margar góðar bækur sem ég hef lesið. Er mest hrifin af smásögum og elska Lizard sem er smásagnasafn eftir japanska höfundinn Banana Yoshimoto. Ég man eftir að ég las Alkemistann eftir Paulo Choello þegar ég var í náminu mínu út í Hollandi. Hún hafði svo mikil áhrif á mig að ég keypti alla vega 10 stk af henni og gaf mínum nánustu í jólagjafir.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Góðir breskir sakamálaþættir eins og Sherlock, Endeavour og Vera eru málið. Ekkert jafnast á við vel skrifaða og vel leikna þætti. En svo elska ég líka The Great British Bake Off, RuPauls Dragrace og Queer Eye þættina sem eru raunveruleikaþættir.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Sense and Sensibility frá árinu 1995 leikstýrt af Ang Lee með Emmu Thompson og Kate Winslet í aðalhlutverkum. Jane Austen bjargar alltaf deginum.
Uppáhalds árstími: Haustin, ekki spurning. Þau eru alltaf svo sjarmerandi, svo mikil uppskera og nýtt upphaf á svo mörgu. Alltaf einhver spenna í loftinu.
Besta líkamsræktin: Útivera, labb og sund.
Hvaða rétt ertu best að elda: Er góð í salötum, indversku Dal og sushi. Og svo elska ég að baka kökur og brauð.
Við hvað ertu hrædd: Að missa ástvini er alltaf eitthvað sem maður er hræddastur við.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Það er mismunandi, fer eftir hvað ég er að gigga og vinna frameftir. En er yfirleitt komin framúr milli klukkan sjö og níu.
Hvað gerir þú til að slaka á: Sauma út, les, baka, horfi á góðar bíómyndir, labbitúrar og svo stundum hugleiðsla og öndunaræfingar. Svo er ég svo heppin að eiga griðarstað hjá Höbbu vinkonu minni uppí Grímsnesi þegar ég er að lenda úr löngum vinnutörnum og þarf að sofa og hvílast.
Hvað finnst þér vanmetið: Fólk í umönnunarstörfum. Staða barna sem alast upp í fátækt og við ofbeldi.
En ofmetið: Fólk með of mikla peninga. Græðgi er slæm.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Það eru svo mörg góð lög sem koma mér í stuð. Eitt sem ég hef verið að hlusta á undanfarið er frá árinu 1975 og heitir Serenade From The Stars með Steve Miller Band.
Besta lyktin: Íslensk náttúra á sumrin ilmar alltaf stórkostlega og svo kollur á nýfæddu barni.
Bað eða sturta: Sturta til að þvo sér, bað til að slaka á.
Leiðinlegasta húsverkið: Að ryksuga er alltaf leiðinlegast.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Ég hef fengið mörg góð ráð um ævina en það sem er mér næst núna í dag sagði Gísli bróðir mér fyrir stuttu: Allir verða að fá að fljúga eins og þeir eru fiðraðir.
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Þórsmörkin verður alltaf uppáhalds. Ég ferðast svo mikið um landið þegar ég er að túra á sumrin og er orðlaus yfir fegurðinni. Ísland er magnað land og ég er svo þakklát að búa hér.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Markaleysi og hlustunarleysi.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Tónlistarmaður, vissi það 3 ára.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Vá, svo margir fyndnir í mínu lífi. Lúkas minn, Ragnheiður systir, Svavar Knútur, Óli Jens, Gulla og Dóra Geirharðs poppa upp öll á sama tíma.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Það væri tryllt að vera Ella Fitzgerald, uppá að fá að vera inní höfðinu á slíkum tónlistarsnillingi, fá að finna hvernig hún hugsaði, hvernig hún beitti röddinni og hvernig hún nálgaðist tónlistina. Hún var beintengd við uppsprettuna.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook og Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi byrja á að útrýma hatri og svo uppræta spillingu, stoppa öll stríð, innleiða borgaralaun á alla í heiminum og vinna með vísindamönnum að finna lausnir á loftslagsbreytingum. Basic.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég spila Dungeons & Dragons reglulega, bæði með hóp í Reykjavík og öðrum austur á Seyðisfirði. Það er svo gaman. Er dvergur fyrir austan og álfur fyrir sunnan.
Mesta afrek í lífinu: Að eignast barnið mitt verður aldrei toppað.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Það er annað hvort 13. febrúar árið 1960 og sitja á besta stað í Deutschlandhalle í Berlín og hlýða á Ellu Fitzgerald á tónleikum eða 18. júlí árið 1961 og sitja á besta stað í Tivoli í Köben og hlýða á Söru Vaughan á tónleikum. Má það ekki bara vera sirka 10 ára tímabil frá 1953-1963 og þræða tónleika með þeim stöllum til skiptis?
Lífsmottó: Einn dag í einu.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Ég er að klára túr með Svavari Knúti og um næstu helgi verðum við að túra á Suðurlandi.
Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is