Nemendur Fjölbrautaskóla Suðurlands mættu í skólann í þessari viku, þar sem nýr skólameistari tók á móti þeim. Soffía Sveinsdóttir tók við lyklavöldunum í skólanum fyrr í ágúst en hún hefur verið skipuð í embætti skólameistara til fimm ára. Soffía, sem er sjálf stúdent frá FSu, starfaði um árabil sem kennari í Menntaskólanum við Hamrahlíð og nú síðast sem sviðstjóri hjá Matvælastofnun. Soffía er Sunnlendingur vikunnar.
Fullt nafn: Soffía Sveinsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Fæddist í Reykjavík 17. apríl 1977.
Fjölskylduhagir: Gift Elmari Viðarssyni kennara í Flóaskóla. Eigum tvær dætur, Ernu Huld og Vigdísi Önnu.
Hverra manna ertu: Ég er Selfyssingur, faðir minn heitir Sveinn Sigurmundsson og er frá Laugardælum í Flóa og mamma var frá Garðabæ og hét Anna Atladóttir. Er skyld öðrum hverjum Selfyssingi þar sem pabbi er einn 11 systkina frá Laugardælum.
Menntun: Er með MS próf í efnafræði, diploma í kennsluréttindum, MA í mannauðsstjórnun og diploma í opinberri stjórnsýslu. Er með FIMM háskólapróf (ef ég tel bæði BS og MS í efnafræði með) eins og vinur minn Georg Bjarnfreðarson.
Atvinna: Skólameistari FSu.
Besta bók sem þú hefur lesið: Þegar stórt er spurt! Er lestrarhestur og hef lesið margar góðar bækur gegnum tíðina. Ef ég á að nefna eina, þá er það Ilmurinn, saga af morðingja eftir Patrik Süskind.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Úff, aftur erfitt að nefna einn þátt. Elska systurþættina Game of Thrones og House of Dragons. Langar líka að mæla með Normal People.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Þríleikinn Hringadróttinssögu.
Te eða kaffi: Kaffi.
Uppáhalds árstími: Vorið. Allt að vakna til lífsins eftir veturinn og eftirvænting í loftinu, elska það.
Besta líkamsræktin: Boot Camp er besta alhliða líkamsrækt sem ég hef stundað.
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég hef masterað hægeldað grísakjöt („pulled pork“). Svo er ég orðin nokkuð lunkin í að úrbeina lambalæri, það er mjög skemmtileg iðja.
Við hvað ertu hrædd: Eiturslöngur og krókódíla.
Klukkan hvað ferðu á fætur: 6:50.
Hvað gerir þú til að slaka á: Fer út að hlaupa eða les góða bók.
Hvað finnst þér vanmetið: Soðin reykt ýsa (besti matur í heimi).
En ofmetið: KFC.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: París norðursins með Prins póló.
Besta lyktin: Af birki þegar styttir upp eftir rigningu.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Hengja upp þvott. Þess vegna á ég þurrkara.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Á morgun er nýr dagur.
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Þórsmörk.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Óheiðarleiki.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Þegar ég ætlaði að senda sms til vinkonu minnar en sendi óvart á annan. Innihaldið var þess eðlis að ég svitnaði innan í lófunum og fann hroll niður eftir bakið. Mjög pínlegt og man þetta enn þó mörg ár séu síðan.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Þegar ég hóf nám í FSu á sínum tíma ætlaði ég að verða blaðamaður.
Fyndnasta manneskja sem þú veist um: Fyrir utan dóttur mína þá nefni ég Guðrúnu Geirsdóttur, dósent við HÍ og gönguvinkonu mína. Ótrúlega fyndin týpa.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Julien Alfred, daginn sem hún vann 100 m hlaupið á Ólympíuleikunum. Sem hægur hlaupasnigill væri gaman að upplifa sigur í spretthlaupi svona einu sinni.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook og Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég útrýma fátækt og stéttaskiptingu.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Er fyrrum Suðurlandsmeistari í freestyle dansi.
Mesta afrek í lífinu: Að hlaupa Laugaveginn og klára með bros á vör.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Fara aftur til ca 1900 til að upplifa hvernig lífskjör forfeður okkar bjuggu við. Það myndi minna mann á hversu gott við höfum það í dag.
Lífsmottó: Always look on the bright side of life.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Keppa á Suðurlandsmóti í hestaíþróttum, í tölti og fjórgangi.
Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is