Örvar Rafn Hlíðdal er íþróttakennari í Flóaskóla og þjálfari Skólahreystiliðs skólans sem sigraði glæsilega og eftirminnilega í Skólahreysti á dögunum. Þrátt fyrir að vera fámennur skóli hefur Flóaskóli stimplað sig inn sem einn af „stóru“ skólunum í Skólahreystinni, enda hefur Örvar Rafn unnið ötullega að því undanfarin ár að keppa að því markmiði að koma liði skólans í úrslit keppninnar. Þegar Flóaskóli hafði unnið keppnina sögðu krakkarnir að Örvar væri besti íþróttakennari í heimi. Punktur.

Fullt nafn: Örvar Rafn Hlíðdal.
Fæðingardagur, ár og staður: Fæddur á Selfossi árið 1984 en uppeldið fór fram á Hvolsvelli.
Fjölskylduhagir: Við Unnur Bjarkadóttir erum búin að haldast í hendur í um 20 ár. Erum gift og eigum tvö dásamleg börn. Valgerður Björk Hlíðdal 8 ára og Birnir Þór Hlíðdal 3 ára.
Menntun: Fór í gegnum virkilega skemmtileg FSu ár og lauk þeirri hamingju 2005. Vann í nokkur ár við smíðar en sú menntun mótaði mig mikið. Lauk svo við Íþrótta -og heilsufræði á Laugarvatni árið 2012.
Atvinna: Íþróttakennari hjá Flóaskóla, forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar Zone í Flóahreppi ásamt því að þjálfa fyrir ungmennafélagið Þjótanda og 7. flokk kvenna í fótbolta á Selfossi.
Besta bók sem þú hefur lesið: Clean eftir Dr. Alejandro Junger, breytti mínum matarvenjum til hins betra.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Er ekki mikill áhorfskarl en Game of Thrones voru geggjaðir þættir.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Við fjölskyldan horfum alltaf á Love Actually um jólin. Virkilega ánægjuleg fjölskyldustund. Er annars ekki mikið fyrir kvikmyndir.
Te eða kaffi: Reyni að halda mig við 2-3 kaffibolla fyrir hádegi.
Uppáhalds árstími: Myrkur, kuldi, sól og birta. Hiti, rigning og rok. Allt gott í bland.
Besta líkamsræktin: Heilbrigt og gott mataræði, góður svefn ásamt því að synda og sauna sig nokkrum sinnum í viku.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Pass.
Við hvað ertu hræddur: Er örugglega of einfaldur til að vera hræddur við eitthvað…
Klukkan hvað ferðu á fætur: Reyni að vakna um kl. 6:00.
Hvað gerir þú til að slaka á: Ég vinn mikið með öndunaræfingar til að hlaða batteríin og komast í gott jafnvægi.
Hvað finnst þér vanmetið: Popp í potti.
En ofmetið: Örbylgjupopp.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Don´t Stop Me Now með Queen.
Besta lyktin: Vorið.
Bað eða sturta: Ég vinn svo til eingöngu með sturtuna.
Leiðinlegasta húsverkið: Öll ágæt bara..
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að hafa trú á eigin getu.
Nátthrafn eða morgunhani: Ég er langt frá því að vera nátthrafn, á erfitt með að vaka frameftir og elska að vakna snemma.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Alveg klárlega Rauðasandur.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Þegar Liverpool tapar úrslitaleik á móti Real Madrid.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Of vandræðalegt til að tala um… tengist harðlífi og Asíuferð.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ekki með það á hreinu.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Dóri DNA fær mig alltaf til að hlægja.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag, hver þá: Jürgen Klopp.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Ætli það verði ekki að vera Facebook.. Er samt ekki mikill samfélagsmiðlakall.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Er örvhentur en nota hægri þegar ég tefli.
Mesta afrek í lífinu: Börnin mín, Valgerður Björk og Birnir Þór, eru nú það sem ég er stoltastur af.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég hefði viljað fara á Ísland vs. England í Nice með Unni minni.
Lífsmottó: Að vera trúr sjálfum sér.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Ég ætla til Tenerife með fjölskyldunni og góðum vinum.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinTinna Sigurrós hlaðin verðlaunum
Næsta greinGuðmundur Kr. sæmdur heiðursfélaganafnbót