Valgerður E. Hjaltested frá Hæli í Hreppum náði þeim frábæra árangri að vinna bronsverðlaun á Norðurlandameistaramóti ungmenna í bogfimi sem haldið var í Kemi í Finnlandi um síðustu helgi. Valgerður keppti í fjölmennasta flokknum, flokki U21 kvenna í Ólympískum sveigboga. Hún hefur aðeins æft íþróttina í tvö ár en tekið gríðarlegum framförum á stuttum tíma og fer nú að nálgast Ólympíulágmarkið í greininni.
Fullt nafn: Valgerður Einarsdóttir Hjaltested.
Fæðingardagur, ár og staður: 2. janúar 2002 á Selfossi.
Fjölskylduhagir: Kem úr stórri fjölskyldu, mamma og pabbi, þrír bræður og tvær systur.
Menntun: Útskrifuð úr Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ.
Atvinna: Starfsmaður hjá Bogfimisambandi Íslands.
Besta bók sem þú hefur lesið: The Kite Runner eftir Khaled Hosseini.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Supernatural.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Disney myndir.
Te eða kaffi: Hvorugt, Panodil hot kannski ef ég er með hálsbólgu.
Uppáhalds árstími: Allt! Get ekki valið. Á veturna get ég skotið innandyra og á sumrin get ég skotið utandyra.
Besta líkamsræktin: Að skjóta af boganum mínum.
Hvaða rétt ertu best að elda: Kjúklingabringurétt með taco sósu og sýrðum rjóma.
Við hvað ertu hrædd: Ég er smeyk við dróna.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Snemma.
Hvað gerir þú til að slaka á: Kem mér fyrir upp í sófa og horfi á mynd, eða fer að skjóta.
Hvað finnst þér vanmetið: Bogfimi.
En ofmetið: Fótbolti.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Can’t stop the feeling! frá Trolls.
Besta lyktin: Ný slegið gras.
Bað eða sturta: Vanalega sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Þurrka af.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Hætta að vera hrædd um að allir séu að horfa á mig, af því að allir aðrir eru hræddir um að allir séu að fylgjast með þeim sjálfum og eru þess vegna of uppteknir við að fylgjast með mér.
Nátthrafn eða morgunhani: Ef ég næ að vakna er ég vöknuð og ofvirk.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Hálendið á Gnúpverjaafrétti.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Ef það kemur upp vesen.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Var í skólaferð í Danmörku gleymdi símanum mínum í lest. Mamma eyddi öllum deginum í að sækja hann. Ég týndi síðan aftur símanum mínum þegar við vorum á leiðinni heim til Íslands.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Hef ekki enn fundið út úr því.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Gummi, þjálfarinn minn.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag, hver þá: Ég myndi vilja vera eitthvað dýr, mig langar að sjá hvernig þau sjá heiminn.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Ég er mjög léleg að nota samfélagsmiðla en ef ég myndi segja eitthvað, þá væri það Instagram eða Facebook.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Myndi reyna losna við það sem fyrst.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég er ekki mikil félags manneskja og eftir að hafa verið umkring fólki lengi þarf ég að fara upp í sveit og umgangast dýrin, til að endurhlaða batteríin.
Mesta afrek í lífinu: Tók bronsið á Norðurlandsmeistaramóti ungmenna og var ekki langt frá því að vinna mér þátttökurétt á Evrópuleikana á Evrópumeistaramóti í Þýskalandi.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi fara aftur til sirka 1950, bara til að sjá hvernig allt leit út þá.
Lífsmottó: Brostu út í daginn og reyndu að sjá góðu hlutina sem þú hefur.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Á laugardaginn er ég að fara flagga fyrir motocrossmót á Selfossi og á sunnudaginn er ég að fara vinna og keppa.
Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is