Þrátt fyrir að vera aðeins nítján ára gamall hefur organistinn Pétur Nói Stefánsson haldið tónleika í sunnlenskum kirkjum í nokkur ár, auk þess að leysa dómorganistann reglulega af í Dómkirkjunni í Reykjavík. Í sumar heldur hann tónleika í hádeginu á miðvikudögum, fimmtudögum og föstudögum í Hveragerðiskirkju. Pétur Nói útskrifaðist í vor með hæstu einkunn úr Menntaskóla í tónlist og hyggur á nám við Listaháskóla Íslands í orgelleik nú í haust.
Fullt nafn: Pétur Nói Stefánsson.
Fæðingardagur, ár og staður: 1. júlí 2003 í Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Er hluti af vísitölufjölskyldu, mamma, pabbi, ég og yngri bróðir. Annars er ég einhleypur.
Menntun: Stúdent frá Menntaskóla í tónlist.
Atvinna: Starfsmaður á menningarsviði í Hveragerði.
Besta bók sem þú hefur lesið: Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Twin Peaks og Breaking Bad.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Yfirleitt á jólunum horfum við fjölskyldan á Die Hard og Love Actually. Þær getur maður horft á aftur og aftur, alltaf sígildar.
Te eða kaffi: Kaffi á daginn og te á kvöldin, gæti samt ekki lifað án kaffis.
Uppáhalds árstími: Haust. Elska haustlitina.
Besta líkamsræktin: Að sprikla á fótspilinu.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Ég geri mergjuð hrærð egg.
Við hvað ertu hræddur: Að vera óáhugaverður.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Þegar ég er í stuði að fara á fætur, eða þegar ég þarf þess.
Hvað gerir þú til að slaka á: Sit eins og sófakartafla einhversstaðar og glápi á Netflix.
Hvað finnst þér vanmetið: Að slökkva á símanum.
En ofmetið: Rapp.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Eye of the Tiger með Survivor eða einhverjir aðrir 80’s hittarar. Svo er klassíkin náttúrulega bezt.
Besta lyktin: Bensín, eða eiginlega allt sem finnst í bílskúrum.
Bað eða sturta: Sturta. Hef aldrei verið mikið fyrir bað.
Leiðinlegasta húsverkið: Að taka til eftir sjálfan mig. Ég er versti draslari sunnan heiða, nótur út um allt!
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að taka sjálfan mig ekki of alvarlega.
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani í barnæsku, nátthrafn sem unglingur. Ég hef ekki vaxið upp úr því skeiði.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Svartifoss í Öræfum.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Þegar fólk heldur vitlaust á hnífapörum. Greinilega eitthvað í uppeldinu hjá mér.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Einu sinni var ég á lestarstöð úti í Þýzkalandi, eitthvað hrikalega dofinn og gleymdi töskunni minni þar. Síðar hringdi lögreglan í mig og tilkynnti að þeir höfðu sent sprengjuleitarliðið til að skoða varninginn. Ég hef aldrei skammast mín jafn mikið. Sem betur fór var mér ekki refsað fyrir klaufaskapinn.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Sagnfræðingur, mögulega. Ég hafði rosalega gaman af sögu mannkyns og staðreyndir um þessa og hina.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Kári Þormar, orgelkennarinn minn.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Páfinn í Róm. Ég myndi vilja vita alla leyndardóma Vatíkansins.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Annaðhvort Facebook eða Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég afsala mér alvaldinu.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Veit ekki. Ég er frekar opin bók.
Mesta afrek í lífinu: Handan við hornið.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi ferðast aftur í tímann til Leipzig þegar meistari Bach var á lífi og vonandi fá að heyra hann spila á orgelið.
Lífsmottó: Æfingin skapar meistarann!
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Fara með familíunni í bústað uppi í Borgarfirði. Hugsa hvað ég ætti að spila í næstu viku á hádegistónleikunum.
Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is