Stærsta brautskráning í sögu Fjölbrautaskóla Suðurlands fór fram í síðustu viku þegar rúmlega 170 nemendur brautskráðust frá skólanum, þar af 100 stúdentar. Dúx skólans er Selfyssingurinn Ólafía Guðrún Friðriksdóttir og gerði hún sér lítið fyrir og útskrifaðist með hæstu meðaleinkunn í sögu skólans. Ólafía hlaut viðurkenningu fyrir afburða námsárangur á stúdentsprófi á náttúrufræðilínu og hlaut námsstyrk frá Hollvarðasamtökum FSu auk þess sem hún var verðlaunuð fyrir góðan árangur í stærðfræði, eðlis- og efnafræði, íslensku, þýsku og ensku.

Fullt nafn: Ólafía Guðrún Friðriksdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Fædd á Selfossi þann 21. ágúst árið 2005.
Fjölskylduhagir: Er þessa stundina búsett á Selfossi með foreldrum mínum.
Hverra manna ertu: Foreldrar mínir eru Guðrún Eylín Magnúsdóttir frá Hrútafelli og Friðrik Bergþór Ástþórsson frá Vestmannaeyjum.
Menntun: Ég var að útskrifast með stúdentspróf á náttúrufræðilínu við FSu.
Atvinna: Er að vinna í Blómaval á Selfossi.
Besta bók sem þú hefur lesið: Mjög erfitt val en The Midnight Library eftir Matt Haig kemur fyrst upp í hugann. Svo hef ég reyndar alltaf haft mjög gaman af Harry Potter bókunum.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Gossip Girl og Grey’s Anatomy.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Það eru mjög margar myndir sem ég horfi á aftur og aftur þegar ég nenni ekki að finna nýja mynd en Mean Girls og Hunger Games verða oftast fyrir valinu.
Te eða kaffi: Kaffi.
Uppáhalds árstími: Vorið. Elska þegar það byrjar að birta og blómin fara að koma upp.
Besta líkamsræktin: Er mikið fyrir fjallgöngur og yoga. Helst einhverja líkamsrækt sem er utandyra.
Hvaða rétt ertu best að elda: Geri mjög góðar grænmetisnúðlur þó ég segi sjálf frá.
Við hvað ertu hrædd: Að deyja ein.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Ég slóra mjög mikið á morgnanna þannig er oftast vöknuð u.þ.b. einum og hálfum tíma áður en ég fer út úr húsi, svo fer það bara eftir því hvort ég sé að fara í skóla eða vinnu.
Hvað gerir þú til að slaka á: Prjóna eða hekla. Síðan er oft gott að fara út í göngutúr og hlusta á Frank Ocean.
Hvað finnst þér vanmetið: Metnaður.
En ofmetið: Vatnsmelónur.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Nobody’s Business með Rihanna er mjög hressandi.
Besta lyktin: Þegar það er nýbúið að rigna úti, verður svo fersk gróðurlykt.
Bað eða sturta: Sturta. Er með alltof litla þolinmæði til þess að geta legið í baði.
Leiðinlegasta húsverkið: Að ryksuga. Er tilbúin að gera allt annað heima en ég kem helst ekki nálægt ryksugunni.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að setja ekki of mikla pressu á sjálfa mig. Er samt ekki alveg nógu dugleg að fara eftir þessu ráði.
Nátthrafn eða morgunhani: Blanda af báðu.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Sumarbústaður fjölskyldu minnar undir Eyjafjöllum og svæðið í kring er mjög fallegt. Síðan á bærinn Delft í Hollandi sérstakan stað í hjarta mér en þar er mjög fallegt.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Tækifærissinnar.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Á einni af mínum fyrstu vöktum í vinnunni var ég að drífa mig með vörur framhjá kúnna. Svo lendi ég í því að stíga aftan á skóinn hjá kúnnanum og taka hann óvart úr skónum í leiðinni. Hann var bara á tásunum fyrir framan mig, 15 ára Ólafía roðnaði út að eyrum.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Þegar ég var yngri vildi ég vera kennari eins og mamma en eftir því sem ég hef orðið eldri hef ég færst fjær og fjær þeirri hugmynd. Núna langar mig að verða jarðeðlisfræðingur.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Vinkonur mínar mega eiga það að þær geta verið mjög fyndnar. Svo á ég það til að hlæja mjög mikið í góðum samræðum við bræður mína.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Er mjög sátt með lífið mitt þannig myndi helst ekkert vilja vera einhver annar. Það væri samt örugglega gaman að prufa að vera eitthvað dýr, ugla kemur fyrst upp í hugann, væri gaman að geta flogið.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Myndi helst ekkert vilja vera alvaldur en ef svo kæmi til þá myndi ég reyna að binda enda á öll þau stríð sem eru í gangi í heiminum í dag.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Er með klígju fyrir því að drekka seinustu dropana úr mjólkurfernu. Set mjólkina frekar nánast tóma inn í ísskáp heldur en að klára hana. Fjölskyldan þolir það ekki.
Mesta afrek í lífinu: Held ég verði bara að segja að dúxa, er mjög stolt af sjálfri mér að hafa náð því markmiði en samt njóta framhaldsskólaáranna á sama tíma.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Hugsa að ég myndi ferðast aftur í tímann, kannski sjá hvernig lífið var þegar amma og afi voru uppi. Vil helst ekki vita hvað framtíðin ber í skauti sér.
Lífsmottó: Annað hvort færðu það sem þú vilt eða lærir af reynslunni.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Er þessa stundina stödd í útskriftarferð á Mallorca þannig helgin mun fara í að njóta hér og skemmta mér með vinum mínum.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinAldrei hitta hetjurnar þínar
Næsta greinSkoruðu sex mörk í seinni hálfleik