Leikfélag Selfoss frumsýnir í kvöld glæpsamlega gamanleikinn Átta konur eftir franska leikskáldið Robert Thomas í þýðingu og aðlögun Sævars Sigurgeirssonar. Þetta er 88. uppsetning félagsins. Æfingar hófust í desember síðastliðnum og til þess að stýra verkinu fékk leikfélagið til liðs við sig leikkonuna Rakel Ýr Stefánsdóttur, en svo skemmtilega vill til að hún er alin upp á fjölunum í leikhúsinu við Sigtún.
Fullt nafn: Rakel Ýr Stefánsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 5. júlí 1996 á Selfossi.
Fjölskylduhagir: Fjölskyldan samanstendur af mér, kærastanum mínum og litlum sætum húsbíl sem við erum að nostra við.
Hverra manna ertu: Foreldrar mínir eru lífslistamennirnir Stefán Ólafssson og Sigrún Sighvatsdóttir.
Menntun: Ég útskrifaðist með BA gráðu frá leikarabraut leiklistardeildar Listaháskóla Íslands vorið 2019.
Atvinna: Ég er leikari og leikstjóri.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ég hef alla tíð verið mikill bókaormur svo það er erfitt að velja. Ég er mjög hrifin af bókum eftir listamenn; Just Kids eftir Patty Smith, Room to Dream eftir David Lynch og A Life in Parts eftir Bryan Cranston. Ég hef heillast af bókum eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur síðan ég var ung. Síðan eru stórkostlegar bækur líkt og Sögur úr Síðunni eftir Böðvar Guðmundsson, og ég hef líklegast lesið nærri allt eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég hef verið að horfa á þætti sem heita Severance í línulegri dagskrá sem ég er verulega hrifin af.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Spirit / Villti folinn.
Te eða kaffi: Kaffi, og „fika“ þegar ég er í Stokkhólmi.
Uppáhalds árstími: Ég tel mig verða að segja haustið. Það er eitthvað svo rómantískt við það þegar haustlitirnir fara að láta sjá sig. Það er eitthvað í loftinu, þú skilur.
Besta líkamsræktin: Ég hef mikið dálæti á hreyfingu, hestamennska þykir mér vera skemmtilegasta líkamsræktin. Henni fylgja ýmiskonar átök. Mestu útrásina fæ ég þó í dansi og bardagaíþróttum. Svo er reyndar badminton á laugardögum með vinkonuhópnum og það er líka ein besta vítamínsprautan.
Hvaða rétt ertu best að elda: Það er spurning. Mér þykir svo gaman að prófa eins margt nýtt og ég get. Ég tók mér pásu frá kjötvörum í nokkur ár og hef því nýlega verið að hrista fram kjöt og kjötrétti af ýmsu tagi. Núna nýverið tók ég purusteikina föstum tökum, kærastanum mínum til mikillar ánægju.
Við hvað ertu hrædd: Brjálaða neikvæðni og þröngsýni.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Þar sem ég er að leikstýra á kvöldin og mæti svo fjölmörgum skapandi deildum á mismunandi tímum, sem er næstum aldrei á hefðbundnum vinnutíma, þá hefur svefninn verið allskonar hjá mér síðustu daga. Ég vakna því á bilinu 6:30 til 9:38.
Hvað gerir þú til að slaka á: Ég upplifi gjarnan mestu slökunina eftir að hafa fengið að sprikla í einhverskonar líkamsrækt. Slökunin sem því fylgir er ekki bara líkamleg heldur andleg líka. En svo er reyndar ekkert sem jafnast á við langa og góða sundferð. Potturinn og gufan er best geymda kúltúrleyndarmál okkar Íslendinga. Ferðamenn fjölmenna í lónin á meðan við laumumst í sund.
Hvað finnst þér vanmetið: Mér þykir vanmetið að segja „ég veit það ekki“, ef maður hefur ekki svörin á reiðum höndum. Við erum öll hér til að læra en það er engin leið að læra neitt ef maður telur sig vita allt.
En ofmetið: Þetta er nú mögulega einhver nýjungahræðsla í mér en ég verð að segja allar þessar snjallheimilisgræjur sem þú talar við og biður um að kveikja ljósin heima hjá þér og þess háttar. Mér líst ekkert á það.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Það er lagið Away From You með Charlotte Dos Santos. Ef það er eitthvað sem þú lesandi góður, tekur með þér héðan úr þessu litla viðtali út í óskrifaða framtíðina. Þá skal það vera þetta lag.
Besta lyktin: Lyktin af nýbakaðri kardemommubollu.
Bað eða sturta: Hér erum við eiginlega að tala um Homeblest. Bæði betra. Stundum vil ég súkkulaði stundum vil ég kex.
Leiðinlegasta húsverkið: Mér finnst mjög gott að gera mörg húsverk í einu, samtímis. Þá get ég alveg gleymt mér og engu einu húsverki tekst að verða leiðinlegt. En það má alveg fylgja sögunni að það þarf ekki að vera að hvert og eitt húsverk klárist að hverju sinni. Stundum er maður að ryksuga en er svo allt í einu komin niðrí geymslu að sortera penna. Þetta klárast þó allt á endanum.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Alltaf að segja sannleikann.
Nátthrafn eða morgunhani: Bæði.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Ég er reglulega að rekast á fallegri staði en ég hef nokkurn tímann séð. Þar til ég ber þá saman við sveitina hjá ömmu og afa á Hurðarbaki. Hún er ekki bara falleg fyrir augun heldur sálina líka.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Það er fátt sem ég læt fara í taugarnar á mér og þeim örfáu hlutum sem gera það reyni ég að gefa ekki næga orku til þess að það hafi einhver mælanleg áhrif á daginn minn.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Þegar ég var fyrir ekki svo löngu síðan samferða foreldrum mínum í búðina. Ég var svo spennt að kaupa mér páskaegg að ég skellti egginu í körfuna næst mér. Í kjölfarið af því tók ég að gagnrýna hlutina sem mamma mín var búin að setja í körfuna sína, þar til ég lít upp og sé svipinn á eiganda þessarar körfu sem var allt önnur mamma en mín eigin.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Bóndi, síðan ætla ég alltaf að verða allt sem mér dettur í hug að hverju sinni.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Ég ætla að segja Halldóra Ósk frænka mín.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég hef ótrúlega gaman af fólki með sérkunnáttu, því myndi ég til dæmis vilja vera manneskjan sem kann að stilla orgel, eða kjálkaliðasérfræðingur, eða manneskja sem kann að tala við dýr.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Messenger og Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi gefa hverjum og einum ráð til þess að takast á við hræðslu og ótta. Þaðan sprettur öll mannvonska, illska og hatur í heiminum.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Í frítíma mínum geri ég við bíla með ástinni minni.
Mesta afrek í lífinu: Að kaupa fasteign og fá lán frá íslenskum banka, eftir 11 ár á leigumarkaðnum.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi fara aftur í tímann til ársins 1963, sama ár og leikritið sem við erum að vinna með gerist.
Lífsmottó: Það besta sem ég gert gert er að gefa frá mér bjarta og jákvæða orku út í heiminn, á vinnustaðinn eða hvar sem er.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Ég ætla að frumsýna leikverkið Átta konur hjá Leikfélagi Selfoss, sem ég hef verið að leikstýra þar síðustu vikur. Ég hlakka mikið til að njóta með vinum og fjölskyldu og gleðjast yfir þeim afrakstri. Næst fer ég að pakka niður þar sem ég er á leið til Kaupmannahafnar í söngskóla og mun búa þar næstu þrjá mánuðina.
Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is