Karlakór Selfoss varð 60 ára þann 2. mars síðastliðinn og fagnaði því með afmælistónleikum daginn áður. Sigurdór Karlsson er eini stofnfélaginn sem enn syngur í kórnum og hefur hann sungið óslitið með kórnum í 60 ár. Það er nóg framundan hjá Sigurdóri og félögum á þessum afmælisvetri. Á laugardag eru tónleikar í Skálholti og helgina eftir kemur kórinn fram í Salnum í Kópavogi. Vetrarstarfinu lýkur svo með vortónleikaröð sem hefst á sumardaginn fyrsta í Selfosskirkju.

Fullt nafn: Sigurdór Karlsson.
Fæðingardagur, ár og staður: Ég er fæddur þann 23. desember 1942 í Götu í Hrunamannahreppi.
Fjölskylduhagir: Ég er kvæntur Helgu R. Einarsdóttur og saman eigum við börnin Einar Örn, Guðbjörgu Helgu og Guðmund Karl. Barnabörnin eru átta talsins og langafabörnin eru orðin þrjú.
Hverra manna ertu: Móðir mín hét Guðfinna Sigurdórsdóttir og faðir minn hét Karl Eiríksson.
Menntun: Húsasmiður.
Atvinna: Eftirlaunaþegi.
Besta bók sem þú hefur lesið: Það er nú erfitt að segja hver er sú besta, ég les talsvert mikið, en eftirminnilegasta bókin er líklega Með köldu blóði eftir Truman Capote. Hún situr í manni.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Það er svo sem enginn uppáhalds sjónvarpsþáttur í dag en maður missir ekki af fréttunum.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Það er engin sérstök bíómynd í uppáhaldi en ég horfi þó alltaf á Stellu í orlofi þegar hún er í sjónvarpinu. Maður getur alltaf hlegið að þeirri vitleysu.
Te eða kaffi: Kaffi. Kolsvart kaffi. Maður skemmir það ekki með mjólk.
Uppáhalds árstími: Það er erfitt að svara því. Mér finnst mjög gott þegar skammdegið er að byrja og mér finnst líka mjög gott þegar vorið kemur. Og mér finnst mjög skemmtilegt að sitja á sláttutraktornum í Mýrinni og finna sumarlyktina.
Besta líkamsræktin: Það er klukkutíma göngutúr á morgnanna með gönguhópnum mínum.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Ég elda voða lítið en ef það er grillað þá grilla ég. Ég er ágætur á grillinu.
Við hvað ertu hræddur: Það er nú erfitt að svara því. Ég er svo sem ekki hræddur við neitt. Það er helst þessi ófriður í heiminum sem hræðir mig.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Á virkum dögum er það 6:50 en um helgar sefur maður eins lengi og maður getur, þó maður geti ekki sofið út. Kannski dormar maður aðeins í bælinu.
Hvað gerir þú til að slaka á: Sit í stólnum mínum og glápi út í loftið.
Hvað finnst þér vanmetið: Ætli það séu ekki unglingarnir, sem eru flestallir í lagi í dag.
En ofmetið: Peningar eru ofmetnir. Það er ekkert oft gott að hafa of mikið af þeim, bara mátulega.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Ég get varla nefnt eitt lag, þau eru til dæmis mörg flott með Þursaflokknum og Stuðmönnum. Svo jafnast ekkert á við það að hefja tónleika karlakórsins með Árnesþingi Sigurðar Ágústssonar.
Besta lyktin: Hún er af nýslegnu heyi snemma á sumrin.
Bað eða sturta: Ég fer aldrei í bað, ég fer bara í sturtu.
Leiðinlegasta húsverkið: Mér finnst engin húsverk leiðinleg.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Ég var mikið hjá afa þegar ég var strákur í sveit hjá honum og hann sagði alltaf að maður ætti að vera góður drengur.
Nátthrafn eða morgunhani: Ég er frekar morgunhani.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Við hjónin höfum tekið myndir af öllum kirkjum landsins og það er varla hægt að gera upp á milli hvaða staður er fegurstur. Það eru mörg kirkjustæði falleg á Íslandi. Eins og Fúsi Kristins sagði eftir að hafa farið hringinn í kringum landið á tveimur dögum – þetta er allt eins.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Óstundvísi.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég man ekki eftir neinu.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég ætlaði ekki að verða smiður, ég ætlaði að verða eitthvað tengt rafvélavirkjun eða útvarpsvirkjun en það var ekki í boði.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Laddi. Hann er í svo mörgum gervum og fer í allra kvikinda líki og er rosalega mikill listamaður. Enda er ég búinn að panta miða á Ladda sýninguna og hlakka mikið til.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég væri til í að vera augnlæknir, því að ég þarf að komast til augnlæknis.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Ég er bara með Fésbókina en nota hana svo sem ekkert mikið.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég koma á friði í heiminum ef það væri möguleiki. Ég held reyndar að það taki meira en einn dag.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég hef í gegnum tíðina sungið í vel á annað hundrað jarðarförum með karlakórnum.
Mesta afrek í lífinu: Börnin og konan. Ætli það séu nokkur meiri afrek en það.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi fara svona hundrað ár aftur í tímann til þess að upplifa gamla búskaparhætti. Mér líst betur á það en framtíðina.
Lífsmottó: Líta björtum augum á framtíðina.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Á laugardaginn klukkan 16:30 eru tónleikar í Skálholtskirkju þar sem Karlakór Selfoss og Fóstbræður syngja saman. Það stendur ekki annað til um helgina en að syngja þar.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinIngunn ráðin framkvæmdastjóri SASS
Næsta greinÁrmenningar skrefi á undan