Freyja Rós Haraldsdóttir, kennari, gæðastjóri og jafnréttisfulltrúi við Menntaskólann að Laugarvatni, hlaut í síðustu viku viðurkenningu Heimilis og skóla fyrir ötult starf í baráttunni gegn einelti. Freyja Rós hefur haldið utan um metnaðarfulla dagskrá á Degi gegn einelti, þar á meðal er verkefnið Slúður er klúður en tilgangur þess er að styðja við góðan skólaanda sem byggir á trausti og góðum samskiptum.

Fullt nafn: Freyja Rós Haraldsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Þann 22. apríl 1987 fæddist ég Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Ég bý á Þóroddsstöðum í Grímsnesi með manninum mínum, Bjarna Bjarnasyni hestamanni. Við eigum saman tvö börn, Hróa 12 ára og Vöku 6 ára.
Hverra manna ertu: Ég er dóttir Haraldar Bjarnasonar og Maríu Úlfarsdóttur. Mamma er frá Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum en pabbi er frá Haga á Barðaströnd. Ég ólst upp í Haga, ásamt Díu stóru systur og Kristófer Þorra litla bróður. Það er alltaf jafn gott að fara heim í Haga í fríum.
Menntun: Eftir útskrift frá ML fór ég á Bifröst og lærði HHS-heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði. Svo fór ég í HÍ og lauk meistaraprófi í kennslufræði, með áherslu á jafnrétti.
Atvinna: Ég starfa sem kennari, gæðastjóri og jafnréttisfulltrúi við Menntaskólann að Laugarvatni. Geri líka stundum gagn við sveitastörfin og búrekstur á Þóroddsstöðum.
Besta bók sem þú hefur lesið: Bækur eru bestar. Hverja á ég að nefna? Mig langar að mæla með The Myth of Normal eftir Gabor Maté. Yosoy eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur greip mig þegar ég las hana á sínum tíma. Sá að það var að koma ný eftir hana, Í skugga trjánna, hlakka til að lesa.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Kiljan.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: The Matrix. Ég hef horft á hana ótal sinnum með nemendum mínum í heimspeki og leiðist það aldrei. Læri og hugsa eitthvað nýtt í hvert sinn.
Te eða kaffi: Kaffi.
Uppáhalds árstími: Sumarið finnst mér ljúft en glími við skammdegið. Er að æfa mig að sættast við það.
Besta líkamsræktin: Jóga og blak.
Hvaða rétt ertu best að elda: Kjúklingasalatið klikkar ekki hjá okkur.
Við hvað ertu hrædd: Mýs!
Klukkan hvað ferðu á fætur: Oftast aðeins of seint, um hálf 8.
Hvað gerir þú til að slaka á: Besta slökunin er að lesa bók.
Hvað finnst þér vanmetið: Jóga er svo dásamlegt og ég held að enn fleiri ættu að gefa því séns.
En ofmetið: Er ekki of mikið af allskonar viðburðum og mannamótum? Það er svo næs að vera heima í rólegheitum.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Upptekin, með Elínu Hall.
Besta lyktin: Hestalykt er ljúf og góð.
Bað eða sturta: Sturtan í Fontana.
Leiðinlegasta húsverkið: Að ganga frá hreinum þvotti.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Andaðu djúpt ofan í maga og hægt frá.
Nátthrafn eða morgunhani: Frekar nátthrafn.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Í sumar heimsóttum við fjölskyldan Gjánna og það er töfrastaður.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Símanotkun getur verið ægilega truflandi – mín eigin og annarra. Þvílíkir athyglisþjófar og samskiptamúrar sem símarnir geta verið.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Reglulega lendi ég í því að ruglast eða muna ekki almennilega nöfn á fólki sem ég þekki vel. Mjög pínlegt.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég var alltaf hrikalega óviss með það. En ég er þakklát fyrir að hafa elt áhugann, þegar ég valdi mér nám – þó ég vissi stundum ekki hvað ég myndi síðan „gera við það“.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Bjarni minn er voða fyndinn.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Jennifer Lawrence af því að hún er svo örugg með sig, hæfileikarík, klár, fyndin, réttsýn og einlæg.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Ætli það sé ekki Facebook.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég tryggja ókeypis sálfræðiþjónustu fyrir öll.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Margir hafa orðið hissa sem komast að því að ég kann svolítið að glamra á gítar.
Mesta afrek í lífinu: Að vera virkur jafnréttisfulltrúi og halda áfram að vinna í öllum þeim flækjum sem fylgja EKKO-málunum (einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi). Það byggir meðal annars á sjálfsvinnu, sem ég er stolt af að hafa unnið. Sú vinna er auðvitað aldrei búin.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi fara aftur í tímann og upplifa það að vera Rauðsokka. Svo svalar!
Lífsmottó: Maðurinn er landkönnuður í heimi hins breytilega og síkvika ljóss (tilvitnun úr Dýralífi eftir Auði Övu).
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Á laugardaginn fer ég í vinkonuboð. Það er haldið til höfuðs nóvember og til stendur að fylla hjartað af birtu. Ég hlakka til.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinFlokkur fólksins stærstur í Suðurkjördæmi
Næsta greinSigga á Grund fær heiðurslaun listamanna