Magnús Þór Einarsson var á dögunum ráðinn í stöðu umhverfis- og garðyrkjustjóra Rangárþings eystra. Magnús Þór er fæddur og uppalinn á Hvolsvelli og hefur ríka reynslu af störfum í þessum geira en í fyrra starfi sínu hjá Landi og skógi vann hann að fjölbreyttum verkefnum tengdum endurheimt lands og gróðurs.

Fullt nafn: Magnús Þór Einarsson.
Fæðingardagur, ár og staður: Fæddur 24. maí, 1985 í Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Giftur Björk Guðnadóttur frá Vestmannaeyjum, saman eigum við tvö börn, Emilíu Sif 9 ára og Guðna Veigar 5 ára.
Hverra manna ertu: Foreldar mínir eru Einar Grétar Magnússon og Benedikta Sigríður Steingrímsdóttir búsett á Hvolsvelli. Á einn bróður sem heitir Steingrímur Þór.
Menntun: Ég er með stúdentspróf frá FSu, B.Sc. og M.Sc. í skógfræði og landgræðslu frá Landbúnaðarháskóla Íslands.
Atvinna: Nýtekinn við sem Umhverfis- og garðyrkjustjóri hjá Rangárþingi eystra.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ég er hrikalega lélegur lestararhestur og man ekki eftir því hvenær ég las heila bók síðast, þannig segi pass.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Held það séu fáir sjónvarpsþættir sem ná að kollvarpa Band of Brothers sem sá besti.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Þegar ég hef nægan tíma þá er ekkert sem toppar 11 klst og 22 mínútna Lord of the Rings hámhorf.
Te eða kaffi: Skylda opinberra starfsmanna er að drekka kaffi og er ég engin undantekning á því. Teið hefur nú samt komið sterkt inn öðru hvoru.
Uppáhalds árstími: Vorið, þegar náttúran er að lifna við aftur eftir vetrardvala.
Besta líkamsræktin: Frisbígolf er ofarlega á þeim lista.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Þann sem fer á grillið.
Við hvað ertu hræddur: Lofthræðsla er ekkert óeðlilega hræðileg.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Eins seint og ég kemst upp með, vekjaraklukkan er samt stillt á 6:53.
Hvað gerir þú til að slaka á: Fer út að ganga helst með góðan hlaðvarpsþátt í eyrunum.
Hvað finnst þér vanmetið: Stundvísi.
En ofmetið: Fara út á djammið á háværan stað.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Skálmöld – Kvaðning.
Besta lyktin: Lyktin af nýslegnu grasi.
Bað eða sturta: Sturta vinnur þetta einvígi, hangsið er of mikið fyrir mig í baðinu.
Leiðinlegasta húsverkið: Ryksugan og ég höfum aldrei átt skap saman.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Græni hlutinn á að snúa upp þegar tré eru gróðursett.
Nátthrafn eða morgunhani: Verð nú að segja hvorugt, á til að vera lengi í gang á morgnana og þreyttur á kvöldin.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Þórsmörkin er alltaf fögur, kannski minna seinni ár með auknum ferðamannastraum. En fallegasta svæðið er Fjallabak syðra.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Óstundvísi, alveg merkilegt að það sé ekki hægt að mæta á réttum stað á réttum tíma.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Örugglega mörg, ekkert eitt sem poppar í hugann að sinni.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ætlaði mér alltaf að vera fótboltastjarna, gekk ekki alveg.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Ari Eldjárn er magnaður.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Væri spennandi að skyggnast inn í heim Elon Musk, bara fyrir forvitnissakir og sjá hvað er að ské þar.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Er frekar lélegur samfélagsmiðla maður, ætli ég noti ekki Facebook mest og Instagram þar á eftir, enda þeir tveir einu sem ég nota.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Myndi ég örugglega fá kvíða yfir ábyrgðinni og bíða þennan dag af mér.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég gekk í svefni þegar ég var lítill og læsti mig nokkrum sinni úti, þegar ég vaknaði þá var eina lausnin að hamast á dyrabjöllunni og vekja allt heimilisfólkið.
Mesta afrek í lífinu: Eignast börnin mín.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Hef alltaf verið heillaður af miðöldum þannig myndi flakka þangað og sjá hvernig umhorfs er.
Lífsmottó: Ekki fresta því sem hægt er að gera strax.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Ætli ég fylgi ekki syninum á fótboltaviðburð.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinKennarar í áfalli gengu á dyr
Næsta greinForeldrar ræði málin af yfirvegun og virðingu