Herdís Friðriksdóttir í Daltúni í Reykholti hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Skálholtsstaðar. Herdís, sem er menntaður skógfræðingur, hefur síðustu ár rekið fyrirtækið Understand Iceland, sem sérhæfir sig í fræðsluferðum fyrir háskólanemendur og fróðleiksfúsa Bandaríkjamenn til Íslands. Þann 1. nóvember næstkomandi tekur hins vegar við nýtt starf á heimavelli í Biskupstungum.
Fullt nafn: Herdís Friðriksdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 12. september 1969 í Stykkishólmi.
Fjölskylduhagir: Gift Einari Ásgeir Sæmundsen, þjóðgarðsverði á Þingvöllum. Við eigum tvær dætur; Guðnýju Helgu fædda 2002 og Þórhildi Júlíu fædda 2004. Þær eru báðar nemendur í Menntaskólanum að Laugarvatni. Dekurdýrið á heimilinu er þó Sæmundur Sæmundsen, köttur, sem gerir fátt annað en að sníkja mat af heimilisfólkinu. Þegar við viljum knúsa hann og klappa þá er hann hinsvegar fljótur að láta sig hverfa!
Menntun: BSc og MSc í Skógfræði frá Noregi og Danmörku, MPM í Verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík. Leiðsögumannaréttindi og meirapróf sem mér finnst auðvitað lang merkilegasta menntunin mín!
Atvinna: Ég hef störf sem framkvæmdastýra Skálholts þann 1. nóvember næstkomandi. Rek ferðaskrifstofuna Understand Iceland sem sérhæfir sig í fræðsluferðum.
Besta bók sem þú hefur lesið: Endurance eftir Alfred Lansing. Hún fjallar um leiðangur Ernest Shackletons á Suðurheimskautið. Bókin fjallar um hvernig Shackleton og menn hans festu skipið sitt í ís og þurftu í kjölfarið að ganga um Suðurskautslandið í marga mánuði og komast samband við norska hvalveiðifangara. Sagan er hreint út sagt ótrúleg og bókin er stórkostleg lesning!
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Flight of the Conchords um ævintýri Bret og Jemaine frá Nýja Sjálandi í New York. Í hverjum þætti er nýtt lag og tónlistaratriði á borð við Too many dicks on the dancefloor. Ef þú hefur ekki séð þessa þætti áttu mikið eftir!
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Ace Ventura Pet Detective! Reyndar get ég horft á flestar Jim Carrey myndir aftur og aftur!
Te eða kaffi: Kaffi! Fæ mér alltaf tvo rótsterka kaffibolla með rjóma á morgnana. Ef ég fæ ekki kaffi get ég alveg eins lagst í rúmið.
Uppáhalds árstími: Snemma sumars, þegar allt sumarið er eftir og skammdegið langt, langt í burtu.
Besta líkamsræktin: Ha? Líkamsrækt… kannast ekkert við það! Einhverntíma var ég spurð: „Hefurðu aldrei þurft bara að fara út að hlaupa?“, ég svaraði: „Nei, en ég hef oft þurft bara að leggjst uppí sófa!“
Hvaða rétt ertu best að elda: Grænmetisrétt á pönnu, allt grænmetið úr ísskápnum fer á pönnu með kókosmjólk og karrý. Klikkar aldrei!
Við hvað ertu hrædd: Donald Trump!
Klukkan hvað ferðu á fætur: Milli kl. 7 og 8.
Hvað gerir þú til að slaka á: Leggst á sófann með góða bók, rauðvínsglas og dökkt súkkulaði.
Hvað finnst þér vanmetið: Að leggjast í sófann með góða bók, rauðvínsglas og dökkt súkkulaði.
En ofmetið: Líkamsrækt!
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Sunny með Bony M. Þetta var uppáhalds lagið mitt þegar ég var krakki og ég man enn hvar ég var, á gangi á bakvið Rauðu blokkina í Norðurbænum, þegar ég fattaði að þetta var uppáhalds lagið mitt!
Besta lyktin: Af nýútsprungnum birkilaufblöðum á vorin. Það er líka lúmskt góð lykt af pipar!
Bað eða sturta: Sturta allan daginn og helst allan daginn.
Leiðinlegasta húsverkið: Skúringar, enda fékk ég mér róbót til að sinna því.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að umgangast fólk sem stendur þér á einhvern hátt framar, þú lærir mikið af því og það eykur hjá þér metnað.
Nátthrafn eða morgunhani: Ég er mjög kvöldsvæfur morgunhani, en nenni samt ekkert allt of snemma á fætur!
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Fyrir utan marga staði á Íslandi þá er það Glenorcy á Suðureyju á Nýja Sjálandi. Þar voru mörg atriði úr Lord of the Rings tekin.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Drasl í ýmsu formi. Drasl sem við söfnum að okkur og endar inni í skáp, uppi á háalofti eða í bílskúrnum engum til gagns, drasl sem fólk borðar og kallar mat, drasl sem framleitt er af hálfgerðum þrælum í vanþróuðum ríkjum og endar oftar en ekki fljótlega í ruslatunnunni. Það borgar sig alltaf að velja gæði!
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Þegar ég var í kringum tvítugt bjó ég í Bandaríkjunum og vann sem barnapía. Ég átti mér stóra drauma um að verða ljósmyndari og var alltaf með myndavélina á mér. Dag einn sat ég á bekk í almenningsgarði þegar munkur í appelsínugulum kufli gekk hjá. Ég Íslendingurinn, hafði aldrei séð svona mannveru áður og fannst þetta stórkostlegt myndefni, greip myndavélina mjög spennt og smellti af, eins og ég hefði séð sjaldgæfa fuglategund. Munkurinn sá til mín, gekk til mín í rólegheitunum, stillti sér upp fyrir framan mig, dró fram myndavélina sína og tók af mér nokkrar myndir. Ó mæ, hvað ég lærði margt á þessum örfáu niðurlægjandi augnablikum! Ég fæ enn hroll þegar ég sé myndina af munknum í myndaalbúminu mínu!
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Hjálparstarfsmaður á vegum Rauða Krossins í Afríku.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Trevor Noah er í miklu uppáhaldi þessa dagana, en ég held líka mikið upp á Ara Eldjárn og Sögu Garðarsdóttur líka. Uppistand er listform sem við ættum nota til að létta okkur lífið í covid tímabilinu.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég myndi vilja vera lítið barn og leika mér áhyggjulaus allan daginn. Held að það hljóti að vera frábær tilfinning.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég tryggja jafnrétti kynjanna um allan heim. Þegar því er náð, þá er svo mikið unnið.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Þegar ég var 8 ára ákvað ég með sjálfri mér að ég myndi aldrei byrja að reykja, ég man að ég reifst við vinkonu mína sem sagði „Hva, þú getur ekkert ákveðið þetta núna“, því ég var alveg handviss um að ég gæti það. Og ég stóð við það!
Mesta afrek í lífinu: Að hafa eignast svona skemmtilega fjölskyldu, og náð að safna svona skemmtilegu fólki í kringum mig.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi alltaf vilja fara aftur í tímann. Ég myndi vilja fylgjast með störfum Jesú og sjá hvernig maður hann hafi verið. Ég myndi líka vilja eyða eins og einni viku í torfbæ á 14. öld og sjá hvernig lífið á Íslandi hafi verið þá.
Lífsmottó: Ef þú átt það, notaðu það, ef þú notar það ekki, ekki eiga það. Þetta er ágæt mantra til að nota þegar þarf að ráðast á draslið!
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Vera heima og taka á móti skemmtilegum gestum, það verður líklega góður matur og gott vín á borðum.
Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is